Vistarverur Hauks Ingvarssonar er ljóðabók um loftslagsbreytingar. Það hljómar ekkert sérstaklega vel, sú lýsing hljómar eins og mikilvæg bók frekar en góð bók – en bækur eru sjaldnast mikilvægar nema þær séu góðar, í þeim sé einhver galdur. Sem betur fer er þessi bóks Hauks rammgöldrótt – og fyrsta galdurinn má finna strax framan á kápunni.

Á kápumyndinni mætast hýbýli manna og ísbjarna. Hús sem verið er að rífa, ísjaki á hvolfi. Það er haf á milli þessara mynda, en þær ríma samt – og það er galdur bókarinnar sjálfrar, náttúran og borgin ríma. Enda ljóst að ef náttúran tortímist, þá gerir borgin það líka.

hugarveröldin
hefur sína sérstöku landfræði
 sem er nátengd líkamanum  

Þessar línur kjarna stef bókarinnar öðrum fremur, sem og galdurinn sem Haukur nær að framkalla – hann nær einhvern veginn að beintengja sig við þessa hugarlandafræði líkama okkar. Okkar stofublómanna. Maður áttar sig nefnilega á því við lestur bókarinnar að ein helsta ástæða þess að erfitt er að fá fólk til þess að taka loftslagsbreytingar nógu alvarlega er hversu fjarlægar þær eru. Þær eru eins og stríð í fjarlægum heimshluta, eitthvað sem kemur okkur ekki við, okkur sem sitjum í hlýjum húsum og lesum ljóðabækur á meðan vindurinn gaufar á glugga. Við getum jafnvel sloppið nánast alveg við skrattans vindinn ef við eigum bíl og aðgang að bílskúr og bílakjallara. Fyrir okkur er náttúran of fjarri til þess að vera raunveruleg ógn. Og því fjær sem hún er, því líklegra er að það sé í okkar valdi að breyta einhverju. En ef þú átt hlýtt hús, bíl og einkaþotu þá truflar náttúran þig aldrei.

Afsakið predikunina, þessa gildru fellur Haukur aldrei í. En vandinn við náttúruna í lífi nútímamannsins er hvað hún er exótísk. Sá sem yrkir um náttúruna hljómar iðullega eins og ævintýramaður, náttúrubarn, vísindamaður eða frumbyggi í eyrum okkar borgarbarnanna. En einhvern veginn tekst Hauk að sameina þessa heima, finna tenginguna, yrkja um náttúru húsa og hreindýra í sama ljóðinu.

Dýragarður í Berlín verður skriftastóll manna og dýra, staður þar sem þau geta trúð hvort öðru fyrir áhyggjum sínum. En stundum er enginn til að hringja í. Í mögnuðu ljóði reynir miðaldra maður, munaðarlaus í tungumálinu, að takast á við frumstæðan ótta.

kannastu við þá
tilfinningu að
 taka upp símann
en vita ekki hvert þú
átt að hringja?

Þetta er vissulega ljóð um bældan karlmann, í aðra röndina, en ekkert síður ljóð um okkur öll, óháð kyni eða bælingu, hvert eigum við eiginlega að hringja? Það er sama hvern maður kýs, það er enginn að fara að gera neitt í þessu. Draumaríkisstjórnin okkar getur lagað flest annað, en hvernig afstýrir hún heimsendi?

Heimsendaóttinn er auðvitað ekki nýtt umfjöllunarefni. Hér eru ótal sokknar og fallnar borgir, hér er ort um Róm og Hiroshima, Chernobyl og Detroit, Sovétríkin og Nóaflóð. Ljóðmælandi lýsir því hvernig honum finnist að innra með honum „séu fornar leifar Sovétríkjanna“ og þegra maðurinn og Guð renna saman í einni tortímingarveru hljómar stemman

að elska
er að sökkva

Sökkva borgum, sökkva heimi. Þessar fornu sem og nýlegu vísanir fylla mann bjartsýni sem og svartsýni í senn, heimsveldi falla, heimar falla, en við lifðum samt af. Lifum við þetta ekki af líka? En samt, það lifðu þetta ekki allir af – og þetta er einmitt sönnun þess hve rækilega heiminum getur verið kollvarpað á svipstundu.

ég segi það engum
 en inní mér sökk skip
 ég horfði á slysið
 og reyndi ekki að bjarga neinum 

Skipið er að sökkva inní okkur öllum. Við erum inni í skipinu, jafnvel þótt við höfum læst okkur inni í notalegri káetunni.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Rýnin birtist upphaflega í Reykjavíkurblaðinu 15. desember 2018.