Notes From a Defeatist er safnbók fyrstu myndasagnanna sem Joe Sacco gaf út. Með öðrum orðum, þetta er svona bók sem er gefin út þegar maður er orðinn frægur.

Og Sacco á frægðina skilið – hann er með merkilegri stríðsfréttariturum samtímans og sá langþekktasti úr myndasögustétt. Ef þið hafið ekkert lesið eftir hann ættuð þið ekki að byrja hér, heldur miklu frekar á meistaraverkum eins og The Fixer eða Safe Area Goražde, sem fjalla um Bosníustríðin, eða bækurnar hans um ástandið í Palestínu, Palestine og Footnotes in Gaza. Ég gerði raunar útvarpsþátt um Bosníubækurnar hans, sem og aðrar stríðandi myndasögur frá svæðinu, sem hlusta má á hér.

En Notes From a Defeatist er fyrst og fremst forvitnileg út frá upprunasögu listamannsins, hvernig þróaðist hann í þennan fremsta stríðsfréttaritara myndasöguheimsins?

NotesFromaDefeatist.jpgSacco fæddist á Möltu og bjó sem barn í Ástralíu og Bandaríkjunum þar sem hann lærði blaðamennsku. En honum dauðleiddist blaðamennskan og áhugamálið, myndasögurnar, urðu fljótlega að vinnunni hans í staðinn. En það merkilega var að í gegnum myndasögurnar fetaði hann sig á endanum aftur í blaðamennskuna, enda bera hans þekktustu verk öll sterk einkenni blaðamennsku – en lúta þó afskaplega ströngum listrænum lögmálum líka.

Þessa stuttu útgáfu af ævisögu hans notaði ég í áðurnefndum útvarpsþætti – og bætti svo við: „Það er hins vegar rétt að geta þess að þessa fortíð Sacco þurfti ég að grafa upp á internetinu, við fáum sáralítið að vita um fortíð hans í myndasögunum hans. Þar er hann þó sannarlega til staðar, birist okkur sem nördalegur gleraugnaglámur – en við fáum sáralítið meira að vita um hann. Hann er ávallt til staðar en hann er fyrst og fremst í hlutverki hlustandans.“

En í þessari bók birtist sumsé þessi Sacco sem mér fannst ráðgáta þarna. Við fáum þó lítið að vita um blaðamennskuferilinn – það er eins og hann hafi tekið upp teiknipennan á ný eftir að hann gafst upp á blaðamennskunni, sem er synd, því ég hefði alveg verið til í nokkrar frústreraðar myndasögur af skrifstofum amerískra dagblaða.

Það sem við fáum er hins vegar fyrst og fremst þessi áratugur sem hann er að finna sig – eftir að hann yfirgefur blaðamennskuna og áður en hann meikar það í myndasögunum. Fyrsta sagan, Cartoon Genius, er mjög skemmtilega háðsk frásögn af listamanninum sem veit hann hefur eitthvað að segja, en hefur samt aðallega áhyggjur af að borga reikningana. En peppar sig þess á milli upp með eigin ímynduðu snilligáfu.

Í „Social Studies“ rifjar hann upp skólaárin – aðallega þó í gegnum aðra, strax þarna er hann búinn að koma sjálfum sér í hlutverk skrásetjarans. Vinir hans úr háskóla eru þó því miður ekki alveg jafn spennandi karakterar og fólkið sem hann hittir síðar á átakasvæðum heimsins. Sumir kaflarnir virka fyrst og fremst sem stílæfingar – „Eight Characters“ eru til dæmis ýktar örsögur af mönnum sem heita nöfnum á borð við Zachary Mindbuiscuit og Mark Victorystooge, og snúast flestar um menn sem verða til skiptis eigin græðgi eða eigin hugsjónum að bráð. Þetta eru ójafnar sögur, en forvitnileg sýn á öfgar og mótsagnir mannskepnunnar, sem urðu svo miklu betri þegar hann fann raunverulegar ýktar persónur – með þó þeim núönsum sem þeim fylgja.

Tilgangsleysi rokksins og stríðið á Möltu

Passlega kaótískur stríðsfréttaritarastíll Sacco, sem er byggður á því kaos sem stríð oftast eru, birtist svo fyrst í „In the Company of Long Hair“ – ferðasögu rokkbands á túr um Evrópu á níunda áratugnum. Það er gaman að sjá þessa gömlu Vestur-Evrópu, fulla af landamærum og landamæravörðum skeptískum á síðhærða rokkara. En þetta er sjálfsskapað kaos, það geta allir farið heim hvenær sem er, það er eins og Sacco skynji erindisleysið, hann þráir kaosið en hann þráir engu að síður alvöru lífsins, kaos sem er upp á líf og dauða.

Það vitrast honum endanlega þegar hann flytur svo til Berlínar og verður heltekinn af fyrra Íraksstríðinu sem þá var í hámæli. Á börum vestursins er það villimennskan í austri sem kallar á hann, innihaldsríkustu samskiptin eru við palestínska vini og maður skynjar að sjónvarpsskjárinn mun ekki duga honum mikið lengur. Í gegnum þessa sögu, How I Loved the War, birtist manni samt líka þessi dæmigerði meðvitaði vesturlandabúi með ótal skoðanir á átökum í fjarskanum.

Hér eru svo líka tvær eiginlegar stríðssögur – og þær eru sannarlega eftirminnilegustu kaflar bókarinnar og sýna vel hvar hæfileikar Sacco liggja. Sú fyrri, When Good Bombs Happen to Bad People, sýnir raunar betur tilfinningu Sacco fyrir texta en myndum – þetta eru meiri texti og myndir og í raun sagnfræði loftárása sem klippiljóð. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar þetta um loftárásari þeirra „góðu“ – en jafnvel þeir góðu verða bölvaðir bastarðar í stríði. Hann gramsar djúpt í skjalasöfn þessu tengdu og segir okkur í gegnum það sögur af loftárásum Breta á Þjóðverja, Bandaríkjamanna á Japan og Bandaríkjamanna á Lýbíu. Síðasti hlutinn kemur einna minnst á óvart, maður þekkir þetta newspeak frá Bandarískum ráðamönnum, þeir notuðu svipaða orðræðu í Íraksstríðinu.

Heimstyrjöldin er erfiðari lestur. Þarna eru okkar menn, bandamenn, sem virka hreinlega eins og skúrkar og það bara út frá eigin orðum. Í upphafi stríðs eru menn uppteknir af prinsippum – loftárásir á óbreytta borgara eru taldar versti barbarismi, en örfáum árum síðar er annað hljóð komið í skrokkinn. Það er hrollvekjandi að lesa sumar frásagnirnar, ýmist vísindalega nálgun ráðunauta ríkisstjórna á mannlega harmleiki, sem og ljóðræna sýn dagblaðanna á sömu hluti:

Þetta segir háttsetur maður í breska hernum: „If we assume that the daytime population of the area attacked is 300,000, we may expect 220,000 casualties. 50 percent of these or 110,000 may expect to be killed. It is suggested that such an attack resulting in so many deaths, the great proportion of which will be key personnel, cannot help but have a shattering effect on political and civilian morale all over Germany …“

Á meðan gerist bandaríska vikublaðið Time ljóðrænt: „A dream came true last night for U.S. Army aviators; they got their chance to loose avalanches of fire bombs on Tokyo and Nogoya, and they proved that, properly kindled, Japanese cities will burn like autumn leaves.“

Sacco bendir raunar á það í formála kaflans að atómsprengjurnar á Hiroshima og Nagasaki hafi beint sjónum manna frá þessum fyrri loftárásum, sem sumar voru mannskæðari og eyddu stærri hluta borga en helsprengjurnar frægu. Eldhættan var það mikil í japönskum húsum þessa tíma, þannig að þau fuðruðu auðveldlega upp þegar bandaríkjaher teppalagði borgirnar með sprengjum sínum og skyldu meðal annars milljón íbúa Tókýó eftir heimilislausa og 80 til 130 þúsund látna.

CarmenSacco.jpgEn hvernig var að lifa við stanslausar loftárásir í seinni heimstyrjöldinni? Jafnvel í mörg ár? Það veit Sacco sjálfur ekki – en það veit mamma hans, Carmen M. Sacco. Besti kafli bókarinnar er í raun hennar frásögn, myndskreitt af syninum. „More Women, More Children, More Quickly“ greinir frá uppvaxtarárum móðurinnar á Möltu, sem voru mörkuð endalausu sprengjuregni, enda Malta strategískt mikilvæg bæði öxulveldunum og bandamönnum.

Carmen var bara sex ára þegar sprengjuógnin varð raunveruleg, árið 1935, vegna stríðs Ítalíu og Eþíópíu, afsakið, Abbysiníu, eins og landið hét þá. Þá fengu börnin fyrstu gasgrímurnar – sem fóru þó ónotaðar í ruslið – en fimm árum seinna hófust hins vegar loftárásir Ítala, með aðstoð Þjóðverja, sem dundu á þeim næstu þrjú árin.

Þarna er Sacco í essinu sínu, að sýna hversdagsleika stríðsins. Stríðsherrar og fyrirsagnir dagblaða eru hér í aukahlutverki á meðan venjulegar fjölskyldur eru í aðalhlutverki, baráttan um naumt skammtaða matarskammta, lík nágrannana fyrir allra augum – og hvað lítil stelpa þurfti að leggja á sig til þess að komast alla leið í skólann á meðan sprengjurnar féllu.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson