Við hlykkjumst upp kræklóttar götur í litlum bílskrjóð sem manni finnst alltaf vera við það að velta, það eru fáar stórborgir í heiminum sem eru jafn snarbrattar. Svo komum við á áfangastað og yfirgefum bílinn. Haris lyftir höndum til himins og segir einfaldlega: “Velkomin til Sarajevo!”
Ég horfi yfir borgina og fæ örlitla gæsahúð – fæstar borgir hafa efni á svona dramatík en þetta er borgin sem hýsti mestu stríðsátök æsku minnar, borgin bak við allar óskiljanlegu fyrirsagnirnar. Leiðsögumaðurinn okkar er goðsagnakenndur eins og borgin, ekki orðinn tvítugur ennþá og búinn að reka gistiheimili frá því hann var fjórtán ára, rétt eftir stríð. Hann heitir Haris Pamuk og hann fer með okkur um alla borg – leyfir okkur að bera níðþunga bakpoka í gegnum flóttagöngin við flugvöllinn og endar loks á staðnum þar sem Gavrilo Princip skaut Franz Ferdinand. Mannkynssagan beint í æð. En ég var samt búinn að sjá margt af þessu áður og átti eftir að sjá meira síðar.

Minn Balkanskagi var ekki síður í svart-hvítum römmum, enda fá stríð betur skrásett í myndasöguformi og fjórar slíkar voru í bakpokanum. Sarajevo þekkti ég best úr Reddaranum – The Fixer – eftir Joe Sacco. Sacco er líklega þekktasti teiknisögublaðamaður heims. Þar rísa hæst fjórar bækur um tvö átakasvæði – annars vegar tvær bækur um átökin í Palestínu, Palestine og Footnotes in Gaza, og hins vegar tvær bækur um stríðið í Bosníu – The Fixer og Safe Area Goradze.
Sacco fæddist á Möltu og bjó sem barn í Ástralíu og Bandaríkjunum þar sem hann lærði blaðamennsku. En honum dauðleiddist blaðamennskan og áhugamálið, myndasögurnar, urðu fljótlega að vinnunni hans í staðinn. En það merkilega var að í gegnum myndasögurnar fetaði hann sig á endanum aftur í blaðamennskuna, enda bera hans þekktustu verk öll sterk einkenni blaðamennsku – en lúta þó afskaplega ströngum listrænum lögmálum líka.

Það er hins vegar rétt að geta þess að þessa fortíð Sacco þurfti ég að grafa upp á internetinu, við fáum sáralítið að vita um fortíð hans í myndasögunum hans (ja, nema þessari sem ég las löngu eftir að þessi pistil var frumfluttur). Þar er hann þó sannarlega til staðar, birist okkur sem nördalegur gleraugnaglámur – en við fáum sáralítið meira að vita um hann. Hann er ávallt til staðar en hann er fyrst og fremst í hlutverki hlustandans.
Flestar bækur hans eru nokkuð kaótískar, rétt eins og stríðin sem hann lýsir, en The Fixer er kannski hefðundnust í uppbyggingu því þar er þó ein aðalpersóna út í gegn – Reddarinn Neven. Sagan hefst á friðsælum sumardegi í Sarajevo þar sem gömlu karlarnir spila útiskák með risataflmönnum á meðan Evróbítið fyllir hlustirnar á kaffihúsunum. Árið er 2001 og það eru allir að reyna að gleyma stríðinu – og gengur það ágætlega. En Sacco er mættur aftur í leit að gömlum kunningja, áðurnefndum Neven sem sérhæfði sig í því að redda erlendum blaðamönnum um sitthvað sem þá vanhagaði um, sögur, leiðsögn, upptökutæki, túlk, allt sem þig vanhagaði um gat Neven reddað. En Neven finnst ekki og þar sem Sacco sest einn við borð á kaffihúsi læðist að manni sá grunur að hann sakni stríðsins.

En hann finnst þó ennþá í minninu – og í römmum myndasagna er maður ekki lengi að spóla sex ár aftur í tímann. Þá var stríðið í rénum og við sjáum Neven fletta í gegnum nafnspjöld allra blaðamannana sem hafa fyrir löngu misst áhugann á Sarajevo. Þessi hverfulleiki heimspressunnar er Sacco hugleikinn, hann lýsir því seinna hvernig fimm vikur hafi liðið frá síðasta fjöldamorði og þrjár vikur frá sprengjuárásum NATO. Stríðið var ekki útkljáð enn en heimsbyggðin var strax byrjuð að gleyma og blaðamennirnir farnir að týnast heim. Um hálfu ári síðar mun Sarajevo alveg hverfa af sjónvarpsskjánum – því þá verði Sarajevo hætt að leika það hlutverk sem hún leikur best. Harðbýll friður í sundurtættu landi bíður ekki upp á mikil tilþrif í fréttatímum heimspressunar.

En svo bregður Sacco sér ennþá lengra aftur í tímann, frá því fyrir stríð. Hann endurtekur ósjaldan sömu möntruna: „Settu sjálfan þig í spor Neven.“ Fyrir stríðið var Neven hermaður í Júgóslavneska hernum, seinna smáglæpamaður og loks málaliði í stríðinu sjálfu. Hann er þó landlaus maður, serbi í aðra ættina og múslimi í hina. En hann er einn af mörgum Bosníumönnum sem gefur ekkert fyrir þjóðernishyggju – þannig kalla þeir andstæðinga ávallt Chetnika en ekki Serba, en nafnið chetnik var upphaflega notað yfir serbneskar herdeildir í borgarastyrjöldinni sem Hitler kynnti undir á Balkanskaganum í Seinni heimstyrjöldinni. Á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina var Sarajevo hins vegar fyrirmyndarríki fjölmenningarinnar, löngu áður en hugtakið komst í tísku, borgin var suðupottur óteljandi fjölda þjóðarbrota og trúarbragða, en nú eftir Bosníustríðið er hún nær eingöngu byggð múslimum, ef undan er skilinn serbneski hlutinn, sem er einangraður, í bæjarhluta sem fæstir ferðalangar eru líklegir til þess að villast til.
En út af þessari sögu voru þeir ófáir eins og Neven, serbarnir sem berjast með múslimunum, þeir trúa enn á Bosníu sem ríki þar sem mismunandi þjóðarbrot geti lifað í sátt og samlyndi – en þegar á líður finnst Neven þó baráttan sífellt meira fara að snúast um múslimska sérhagsmuni sem hann getur illa lifað sig inní.
Inn á milli fáum við sögur af þeim Celo, Juka, Caco og Celo II. Kynningarnar á þeim minna örlítið á gömlu Bravo-blöðin, þetta eru rokkstjörnur stríðsins – og Caco hafði raunar verið þekktur þjóðlagasöngvari fyrir stríð. Hinir voru þó ótýndir glæpamenn áður fyrr, en þegar stríðið brýst út er hægt að þjóðnýta áður óæskilega mannkosti þeirra. Enda átti Bosnía engan eiginlegan her, Júgóslavneski herinn var í Serba höndum og það átti eftir að taka tíma fyrir Bosníumenn að skipuleggja sig – þangað til urðu ribbaldar að hetjum.
Neven var í einni af þessum skæruliðahópum áður en hann særðist. Þá fann hann þá gullnámu sem erlendir blaðamenn geta verið og fór að túlka og redda hlutum. En líka bara að segja sögur, því það var jú það sem blaðamennirnir voru að leita að. Hann er ekkert alltof lítillátur – eða eins og hann orðar það á einum stað: „Geturðu ímyndað hvers konar bíómynd væri hægt að gera um villtan trylltan bastarð eins og mig!!?“
Fyrir Sacco er hann líka endalaus peningahít – hann þarf sífellt að kaupa kaffibolla og annað smálegt til þess að halda Neven á snakki, en þegar hann ber sögurnar hans undir aðra þá hrista margir hausinn og tala um tröllasögur. Sacco er þar með aftur komin í myrkrið – er hann bara auðtrúa Kani sem lét plata sig til að teikna lygasögu? Það er erfitt að finna sannleikann í fjarlægum löndum umrkingdur orðum sem þú skilur ekki og þeirri krísu lendir Sacco í eins og aðrir, en þó virðist í lokin sem Neven hafi þó reynst alveg þokkalega sannsögull. Hann finnur hann svo loksins í friði ársins 2001, eftir stríðið er Neven skyndilega orðinn gamall brotin maður sem briður pillur og á lítið undir sér – það er ljóst að baráttan við friðinn verður honum ekki síður erfið en stríðið.
Nýjustu útgáfum The Fixer fylgja tvær stuttar smásögur. Sú fyrri fjallar um stríðsmálarann og tónlistarmanninn Soba. Í upphafi stríðsins leggst hann einfaldlega í rúmið, hann virðist einfaldlega of viðkvæm sál fyrir þessi átök. Á endanum verður hann þó frægur jafnt fyrir að koma jarðsprengjum fyrir og aftengja þær, rokkstjarna, listamaður og stríðshetja – allt í sama manninum. Þessi vinur Sacco er einhvers konar táknmynd fyrir margt sem hrjáir Sarajevo – borgina sjálfa sem og ófáa íbúana – áfallastreituröskun og vanstillingu borgar sem er að týna sjálfri sér. Á leið heim eftir djamm stendur svo vinur Soba frammi fyrir panorama af borginni og öskrar: „Ég elska þessa borg! Ég mun verja þessa borg!“
Soba stendur líka fyrir alla draumana, draumana um frægð og frama eftir stríðslok – eða jafnvel bara það að geta aftur farið að bardúsa við það sem mann langar til að gera.

Seinni smásagan ber svo titilinn „Jól með Karadzic.“ Karadzic þessi var leiðtogi Bosníu-Serba og einhver alræmdasti stríðsglæpamaður Bosníustríðsins. Jólin sem um ræðir eru í kringum þrettándann – þegar hin orþódonsku jól hefjast. Sacco er í bíl með tveimur öðrum blaðamönnum í leit að síðustu stórfrétt stríðsins, viðtali við stríðsherrann ógurlega. Það tekur sinn tíma, en loksins góma þeir hann á leiðinni í jólamessu. Karadzic samþykkir sex mínútna viðtal góðfúslega. Sacco stendur til hliðar á meðan útvarpsmennirnir yfirheyra stríðsherrann og verður fyrir sárum vonbrigðum – skrímslið er svo furðu mennskt. Kurteist meira að segja og talar ágætis ensku.
Eitt á ég þó eftir að minnast á úr The Fixer. Landsbyggðarpólitíkina. Flóttamenn úr sveitum sem hafa orðið enn verr út úr stríðinu en Sarajevo fylla götur borgarinnar og borgarbúarnir líta ófáir niður á þessa ómenntuðu sveitalubba. Fyrri Bosníubók Sacco gerðist þó út á bosnínsku landsbyggðinni, í Goradze, tæplega 50 þúsund manna bæ við árbakka Drínu. Sjálfur fór ég hins vegar frá Sarajevo til Visegrad, sem sömuleiðis er við árbakka Drínu. Eftir að hafa hlykkjast um bosníska fjallvegi í þrjá klukkutíma sé ég hana og bílstjórinn kallar „Višegrad – stari grad.“ Ég tek saman föggur mínar og stekk út úr bílnum, næ naumlega að veifa bílstjóranum áður en hann hverfur á braut með bakpokann minn þunga. Og ég endurtek; ég sé hana.
Þarna blasir hún við mér. Hún brúin. Með táninga á brúarsporðinum og ástfangin pör á brúarhandriðinu, brúin hans Ivo yfir fljótinu mikla. Brúin á Drínu, nafn og sögusvið þekktasta skáldverks sem frá Balkanskaganum hefur komið. Þið fyrirgefið þetta hliðarspor á lendur óteiknaðra sagna, en til þess að skilja Bosníu almennilega er nauðsynlegt að skilja Brúna á Drínu, allar þjóðsögurnar og mýturnar sem þessi þjóð á mörkum Evrópu og Ottómanveldisins er samansett úr.

Hér mætir mesta fegurðin mesta ljótleikanum, helstu bókmenntaverk þeirrar þjóðar sem eitt sinn hét Júgóslavía renna saman við einhver hryllilegustu fjöldamorð sömu þjóðar á þessari risastóru brú sem tengir árbakka þessa litla smábæjar.
Þetta hófst allt fyrir tæpum fimm hundrað árum þegar tíu ára snáði var hertekinn í fjallaþorpi skammt frá og var fermdur fram hjá Višegrad. „Hann festi sér rækilega í minni grýttan fljótsbakkann, vaxinn strjálum pílviðartjám gráum og blaðvana. Hann gleymdi ekki fatlaða ferjukarlinum né hrörlegu myllunni, sem full var af köngulóarvef og dragsúg. Þar hafði hann orðið að gista um nóttina, því það tók svo langan tíma að ferja allan þennan fjölda yfir gruggugt fljótið, þar sem loftið kvað við af gargandi krákum. Líkt og fyndi hann til sjúklegs sársauka í líkama sínum, líkt og hnífur væri rekinn á kaf í brjóst hans, hvað eftir annað með óbærilegri kvöl, geymdi hann minninguna um þennan stað, þar sem fljótið rauf þjóðveginn, svo að öll hin vonlausa örbyrgð og eymd eins og safnaðist fyrir í urð árbakkans þar sem fljótið tók við, hættulegt og oft ófært eða illfært yfirferðar. Fljótið varð í augum hans eins og opið, blæðandi sár á þessari fátæku fjallabyggð, þar sem örbyrgð og umkomuleysi manneskjunnar varð ekki lengur skýlt, sem þar varð að nema staðar, vegna ofurvalds höfuðskeppnanna, og standa þar augliti til auglits, ekki aðeins við eigin vanmátt, heldur við þann vesaldóm og úrræðaleysi allra, sem hér blasti við.“
Þannig lýsir Andrić ferð bosníska piltsins sem seinna varð Mehmed Pasha Sokolovic, sigursæll vésír í heimsveldi Tyrkja. En hann gleymdi aldrei Drínu og sársaukinn hvarf ekki, loks lét reisa á henni voldugustu brú Balkanskagans til þess að deyfa sársaukann, loka sárinu. Titilpersóna bókar Andrić er líka aðalpersóna hennar, manneskjunarnar koma og fara eftir því sem aldirnar líða en alltaf er brúin til staðar, þögult vitni flónsku okkar og hugvits, grimmdar og gæsku.
Saga Andrić hefst á Mehmed Pasha, serba sem býr í landi tyrkja, og líkur á Ailhodzja, tyrkja sem býr í landi serba. Þeir eru tvær hliðar á sama teningnum, í Bosníu, þessa litla landi þar sem austrið mætir vestri, kristnin mætir Múhammeðstrúnni, þar sem djöfulgangur heimsstyrjaldarinnar er settur af stað af svartri hönd sem slær nógu fast til þess að höggva skarð í hina óbrotgjörnu brú.

Fjölmenningin og listræn óreiðan er líka eini sannleikurinn um Balkanskagann, þjóðernishyggjan er lygi rómantískra þjóðsagnahöfunda. Serbar, bosníumenn og króatar tala nánast sama tungumálið og eru nauðalíkir, jafnvel trúin er eftiráskýring á átökum sem höfðu lítið með trú að gera, enda hafa íbúar Balkanskagans sjaldnast talist sérstaklega heittrúaðir. Því er varla tilviljun að bók Andrić snýst aðallega um það að afbyggja þjóðsögur og búa til manneskjulegri sögur í staðinn. Hann skilur sem er að það eru mýturnar um þjóðir sem eru valdar allri ógæfu landa sinna, sem átti bara eftir að magnast eftir hans dag.
En sá Andrić sem skrifaði Brúin á Drínu hafði séð tvær heimsstyrjaldir spretta upp úr jarðvegi þjóðernishyggju og bjartsýni. Upplifun hans á mannkynssögunni er mörkuð vonbrigðum hans með stjórnmálabaráttu sem svo oft verður mannvonskunni að bráð. En þrátt fyrir óreiðuna sem alls staðar veður uppi í mannkynssögunni þráir Andrić að koma á reglu þar. Hann snýr baki við mannkynssögunni og snýr aftur til hennar í formi skáldskaparins. Þannig togast á andstyggð á mannkynssögunni og umburðarlyndi gagnvart henni. En í leit sinni að hetju kemur hann ekki niður á manneskju, enda eru aðalpersónur mannkynssögunnar, allt frá Rómarkeisurum til Hitlers og Stalíns, og nú á seinni tímum Milosevic og Tudjman, fæstir hetjunafnbótar virði.

Hér er þó rétt að bregða sér aftur í heim myndasagnana og minnast þess að Višegrad er ekki sami bær og fyrir aðeins tæpum tveimur áratugum. Brúin var aftökustaður hersveita Serba, hér voru múslimar skotnir eða skornir á háls, einir hundrað á nóttu hverri. Fjöldi fórnarlamba er talin vera á bilinu 1600 til 3000, hér er tölfræðin sjaldnast skotheld. En hvað sem tölum líður þá er líklega besta leiðin til þess að skilja harmleikinn að fletta upp á blaðsíðu 115 í teiknimyndasögu Joe Sacco, Griðastaðnum Gorazde, Safe Area Goražde, og sjá gamlan mann sleppa frá Višegrad með því að arka yfir tveggja sentimetra djúpan poll af blóði á brúnni með skó fórnarlambanna tvist og bast í blóðpollinum. Þessi gamli maður er búinn að verða vitni að hildarleiknum á brúnni í gegnum svefnherbergisgluggann í nokkrar nætur þegar hann hefur sig loksins upp í að flýja.

Hann flýr til Gorazde þar sem hann hittir Sacco – í Goradze sést stigskipting stríðsins raunar ágætlega. Sveitafólkið sem íbúar Sarajevo líta niður á lítur niður á flóttamennina sem koma úr hinum sveitunum – sem eru þó nógu vel þokkaðir til þess að geta rænt íbúðum nokkurra þeirra fáu serba sem enn búa í Goradze. Ein sorglegasta sagan er saga Veljko, serba sem hatast við þjóðernishyggjuna og allt blóðbaðið sem hún hefur ollið, serba sem heldur tryggð við sína gömlu heimabyggð og sína gömlu nágranna – en endar engu að síður á útjaðri þess samfélags sem hann telur sig sprottinn úr.

Sorgin í bókinni er ósjaldan sorgin yfir gömlum nágrönnum. Gömlum nágrönnum sem eru ósjaldan grunaðir um skelfilegustu glæpi, mannvíg, nauðganir eða önnur voðaverk. Þetta var nógu lítill bær til þess að allir þekktu alla – nú er þetta nógu lítill bær til þess að allir geti verið óvinir allra. Ein átakanlegasta sena bókarinnar er hreinlega þegar miðaldra kona hylur andlit sitt í kjöltu sér og kjökrar: „Nágrannar, nágrannar.“
Það má kannski segja að ákveðin höfundareinkenni Sacco séu enn skýrari hér en í The Fixer. Rammarnir eru pínulítið eins og jarðsprengjusvæði – talblöðrurnar og textarammarnir eru hríðskotabyssur upplýsinga, sem ósjaldan stangast á. Sacco heyrir sögur ótal heimamanna, í þessu stríði eru mannleg samskipti í allt öðrum og örari takti – menn eru orðnir bestu vinir á fáeinum dögum eða jafnvel fáeinum klukkutímum – en sjást svo kannski aldrei aftur. Sumir deyja, aðrir festast bak við víglínur. Sumir geta jafnvel flúið stríðið.
En bækur Sacco fjallar þó ekki nema að takmörkuðu leyti um stríðið sjálft. Þær fjalla miklu meira um hversdagsleikann sem stríðið elur af sér. Við sjáum hann í ótal partíum – þar sem sérhvert partí getur verið hið síðasta og þau eru villt eftir því. En við sjáum hann líka slappa af með bosnískum vinum sínum yfir karatemyndum, við sjáum táningsstelpur grátbiðja hann um Levis-gallabuxur þegar hann bregður sér af bæ og við sjáum baráttu grunnskólakennarans Edins og kollega hans við að halda uppi eðlilegu skólahaldi. Það gengur vitaskuld skelfilega, nemendurnir geta varla nálgast blýanta og kennararnir þurfa margir að glósa heilu bækurnar uppá töflu – því það er löngu búið að nota allar bækur nemendanna sem eldivið.

Stríðið veldur líka löngum fríum frá skóla – og þegar nemendurnir snúa aftur eru ófá auð sæti þar sem látnir eða særðir samnemendur sátu áður.
En það er alltaf merkileg hlýja í raunsæislegum römmum Sacco. Þrátt fyrir að vera staddur í mannkynssögunni miðri er hans helsta hlutverk að gefa hversdagslegustu aukapersónum þeirrar mannkynssögu rödd. Ótal einstaklingar verða bráðlifandi í huga manns þrátt fyrir að við sjáum þá aðeins í gegnum fáeina ramma, enda er þetta stríð fullt af dramatískum örsögum.
En aðalpersóna sögunnar er þó kennarinn Edin, sem er ekki nema einu korteri frá doktorsgráðu – en það kortér er því miður í Sarajevo. Hann er gestrisni bosníumaðurinn holdi klæddur, hjá honum á Sacco alltaf húsaskjól og hann er leiðsögumaður hans um þennan sundurtætta smábæ. Þá er líka rétt að minnast á Riki, lukkudýr sögunnar, sem syngur hástöfum Bandaríska slagara við minnsta tilefni og er sífellt ástfanginn.
Gorazde var einn af yfirlýstum griðastöðum Sameinuðu þjóðanna í stríðinu – hinir voru Srebrenica og Visegrad. Orðið griðastaður varð hins vegar fljótlega hið mesta öfugmæli, hvergi voru harmleikirnir hrikalegri en einmitt í þessum þremur bæjum. Og þótt Sacco dvelji oft við hversdagsleikann þá fáum við alveg okkar skammt af hryllingi. Hann brestur á þegar minnst varir. Skyndilega virðist hálfur bærinn vera á flótta undan ósýnilegum óvini. Fólk skríður og veður drullupolla, þetta eru langar fimm síður sem líða, löng nótt með leyniskyttur í hverjum glugga.
Næturnar sem gengið er yfir fjöll til þess að afla birgða eða til að aðstoða í næsta bæ eru ekki síður langar. Þegar allar samgöngur eru í lamasessi þá verða fjöllinn álíka hindranir og þau voru fyrir mörgum öldum síðan, jafnvel háskalegri því nú skortir líka oftast hestana. Sacco sjálfur þarf þó ekki að leggja í slíka leiðangra, hann getur venjulega ferðast eftir Bláa veginum í fylgd friðargæsluliða – veginum sem minnir helst á gyllta veginn hennar Dóróteu í Oz, svo framandi er hann íbúum Gorazde.
Stundum verður þó framandleikinn Sacco ofviða, í eitt skiptið þegar hann er umkringdur fólki sem allt talar framandi tungu þá grípur hann næstu Drínu og byrjar að reykja – en Drína er ekki bara á heldur líka Bosnísk sígarettutegund sem náði óvæntum vinsældum í stríðinu þegar erlendar sígarettur hurfu af markaðnum.
Og þótt flestir taki honum vel þá er Sacco þó alltaf fulltrúi heimsveldisins, eins og sést best í kveðjunni sem drukkinn hermaður ber hann fyrir á öldurhúsi nokkru:
„Tell Mr. Clinton about my two brothers. Tell Mr. Clinton about the pain in my soul.“
Í landi óvinarins
Sacco dregur ekkert undan með voðaverk stríðsins, hvort sem þau eru framin af bosníumönnum eða serbum. En hann dvelur þó fyrst og fremst meðal bosníumanna, serbarnir eru að mestu leyti hinir. Því er tilvalið að bregða sér yfir í land óvinarins, til Belgrad. Þegar ég kom þangað fimm árum eftir Kósóvó-stríðin hitti ég aðallega fyrir gestrisið ungt fólk, vel menntað og upp til hópa meira en til í að gefa Kósóvó sjálfstæði og vildi friðmælast sem fyrst við nágranna sína fyrir fullt og allt. Heiftin tilheyrði í þeirra huga fyrri kynslóðum, en þó líka stöku jafnöldrum sem þráðu enn gamla ófriðarbálið.

Einn þessara serba var Aleksandar Zograf. Ég hitti hann að vísu ekki en hann var í bakpokanum mínum. Hann heitir réttu nafni Saša Rakezić – Zograf er listamannsnafnið sem hann gefur myndasögurnar sínar út undir. Sú sem ég var með í bakpokanum hét Regards From Serbia, Kveðja frá Serbíu. Þar lýsir hann áratug í átakasögu þjóðar, frá viðskiptaþvingunum í upphafi tíunda áratugarins til loftárása NATO í lok þess sama áratugar. Zograf fer aldrei á víglínuna, í þeim skilningi er þessi saga miklu hversdaglegri en bækur Sacco – hér er einblýnt á hversdagsleika stríðsins. Rafmagnsleysi, matvælaskort og einangrun. Zograf býr í smábæ skammt frá Belgrad og lýsir óttanum við það að einhver af efnaverksmiðjum bæjarins springi í loft upp – en hann lýsir líka ergelsi sínu yfir að geta ekki hugsað um neitt nema stríð. Hann vill skrifa útlenskum vinum sínum bréf um nýjustu myndasögurnar sem hann hefur lesið – en þess í stað fjalla öll bréfin um það þegar sprengjurnar falla.

Ríflega fjórðungur bókarinnar er raunar ekki myndasaga heldur safn ímeila sem hann sendi vinum sínum í hópi neðanjarðarmyndasagnateiknara í miðjum loftárásum – þá sjaldan sem nettengin virkaði. Monthy Python-kempan Terry Jones fylgir þeim bréfaskriftum úr hlaði með prýðilegum formála og meðal þeirra sem Zograf skrifar er íslenski myndasöguteiknarinn Kjartan Arnórsson, sem meðal annars teiknaði þá ágætu sögu Kafteinn Ísland.
En þótt tölvupóstarnir séu um margt áhugaverðir hefðu þeir þó eftir allt saman mátt missa sín, myndræn sýn Zograf er einfaldlega svo miklu áhugaverðari. Á vissan hátt er Zograf afskaplega naívur sögumaður – hann sýnir til dæmis snemma ramma sem sýna ágætlega að króatar, serbar og múslimar líta barasta nákvæmlega eins út. Hann rekur það hvernig Vesturvöldin hafi þurft á skúrkum að halda – og það hafi orðið örlög serbanna snemma í stríðinu, eftir það voru þeir hið réttmæta skotmark. En hann bölvar þó mest flónsku landa sinna, sérstaklega Milosevic, forsetans sem leiddi þjóð sína niður til heljar.

En helsta einkenni Zograf er þó draumkenndur stíllinn – og þegar ég segi draumkenndur þá meina ég það mjög bókstaflega. Löngu fyrir stríð voru draumar eitt helsta áhugamál Zograf, hann teiknar ófáa drauma og jafnvel þeir rammar sem eiga að gerast í vöku eru með ansi draumkennda slikju yfir sér, enda lifir Zograf martraðarkennda tíma. Hann útskýrir fagurfræði sína ágætlega sjálfur í einum rammanum: „Myndirnar mínar eru ekki beint heimildir, þetta er einhvers konar fantasíukennt raunsæi, af rússneska skólanum …“
Þessi draumkennda frásögn á sér einmitt samsvörun í verkum manna eins og Búlgakov, rétt eins og þar er hér allt fullt af undarlegum drunga og skuggum sem stækka sífellt, tvíhöfða skrímslum og hlæjandi drýslum. Þessi aðferð virkar líka vel til þess að túlka barbarann sem býr í okkur öllum, Zograf sjálfum líka.

Þá er húmorinn lymskulegur á köflum. Ein afleiðing viðskiptabannsins er sú að myndasögur frá Disney fást ekki lengur í Serbíu – en samt ofsækja bæði Andrés og Mikki Zograf í draumum hans. Hann rekur það raunar að þeir félagar eigi sér sjálfstætt líf í serbneskum myndasögum og hafi þvælst um bari Belgrad-borgar á fjórða áratugnum – áður en þeim var stungið í steininn fyrir drykkjulæti.
Stundum koma brandararnir þó alveg óvart, þegar Zograff reynir að útskýra veruleika óðaverðbólgu þar sem dínarar verða fljótt verðlausir og blaðamenn fá borgað í hænsnum og verksmiðjustarfsmenn í kartöflusekkjum þá bölvar hann og talar um að hann hafi ekki ætlað að skrifa kómedíu. Þá verður veruleikinn oft öfugsnúinn, eins og ein glaðlegasta teikning bókarinnar ber með sér – þar sem Zograf dansar og segir: „Yndislegustu dagarnir eru dagarnir þegar ekkert gerist.“ Með öðrum orðum, dagana sem fólk getur ennþá dansað.
Hann rekur líka hvernig börnin búa til nýja leiki og löggu- og bófaleikir eru orðnir sígarettusmyglara- og lögguleikir. Þessi sömu börn deyja líka, þegar tala látinna barna í loftárásum NATO er kominn upp í 800 þá er það Zograf innblástur fyrir áhrifamesta ramma bókarinnar. Yfirskriftin er einfaldlega: „Hér eru þau, 800 börn á einni mynd.“ Og þarna eru áttahundrað andlit í litlum myndasöguramma, sum glaðleg, sum heilsa, sum döpur, sumir eru að slást, en allt staðgenglar barna sem eru fyrir löngu sprungin í loft upp.
Zograf er vitaskuld ólíkur Sacco að því leyti að stríðið kom til hans. Hann lýsir sjálfum sér sem intóvert sem varð að extróvert – því skyndilega varð heimurinn fyrir utan hans eigin draumaheima of magnaður til þess að hann gæti hunsað hann.

Bók Zograf er eina myndasagan eftir heimamann sem ég hef fundið um stríðið. Hins vegar er ýmislegt fleira sem hefur verið gefið út, þar á meðal alls kyns ofurhetjusögur sem komu út á meðan á stríðinu stóð. Bosman var bosnísk ofurhetja sem barði á chetnikum, SuperHrvoje var króatísk ofurhetja sem réði yfir steinum vallarins og serbarnir voru með heila kúrekariddarareglu, Riddarar Krajinu. Fyrsta albanska ofurhetjan leit svo dagsins ljós í fyrra, Sciponjou eða Örninn, sem lýtur ekki ósvipað út og Skuggi gamli – nema í rauðum galla með albanska örninn á brjóstinu. Höfundur þessa Arnar er þó mikið í mun að taka fram að hann berjist aðeins við skúrka, hvaða þjóðerni sem þeir kunna að vera af.
Í landi friðarins
Svo eru alltaf einhverjir myndasagnahöfundar sem láta sér nægja ímyndunaraflið og ríflega heimildavinnu við það að vinna sögur. Það getur vafalítið gengið upp en mín reynsla af slíkum sögum úr Júgóslavíustríðinu er alls ekki jákvæð. Ein bók var hreinlega of léleg til þess að fá pláss í bakpokanum, það var Fax From Sarajevo eftir Joe Kubert. Eins og nafnið bendir til er höfundurinn að vinna söguna upp úr ótal föxum sem hann fékk frá Bosnískum vini – en vandamálið er að Kubert hefur enga tilfinningu fyrir blæbrigðum Balkanskagans og þeir sem kannast við þurran en hlýlegan húmorinn hafa varla mikla þolinmæði fyrir þeirri ofurdramatík og jafnvel væmni sem Kubert kryddar sögu sína með af óþörfu.
Hins vegar var síðasta bókin í bakpokanum ólíkt forvitnilegri, þótt hún væri líka meingölluð. Ég tók hana upp þegar ég kom í syðsta ríki gömlu Júgóslavíu, Makedóníu. Bókin heitir einmitt bara Macedonia og er eftir Harvey Pekar, sem hlustendur kannast sjálfsagt margir við sem höfund hinna ævisögulegu smásagna í American Splendor. En hér sést Pekar sjálfur bara í mýflugumynd – þegar hann fær leyfi meðhöfundar síns, Heather Roberson, til þess að gera myndasögu upp úr ferðalagi hennar til Makedóníu.

Þangað fer Heather til þess að safna sér efni í lokaritgerðina sína – en vandamálið við bókina er helst það að tilraunir Pekar til þess að breyta ritgerð í myndasögu misheppnast oftast herfilega. Við sjáum Heather í afskaplega hversdagslegum aðstæðum – að tala við kærastann, á spjalli við ókunnuga á kaffihúsi og svo framvegis – en alltaf að ræða kenningarnar sem hún er að pæla í, hversu ólíklegar sem aðstæðurnar kunna að vera. Heather er eiginlega frekar eins og gangandi ritgerð en karakter af holdi og blóði. Bókin virkar eiginlega best þegar Pekar sleppir Heather og myndskreitir frekar sögurnar sem hún er að segja. Eins er það galli að Heather og ferðafélagar hennar eiga það til að sýna frekar einfalda og ósanngjarna mynd af innfæddum.
En þrátt fyrir alla þessa galla, þrátt fyrir að vera í rauninni frekar misheppnuð bók, er sagan sannarlega þess virði að lesa. Einfaldlega af því að rannsókn Heather er svo forvitnileg. Það sem er sérstakt við Makedóníu, þetta fátækasta hérað gömlu Júgóslavíu, er að þar voru nánast engin átök svo heitið geti. Það sama mátti raunar segja um ríkasta hluta þessa horfna ríkis, Slóveníu – en það var að flestu leyti skiljanlengra. Menn biðu hins vegar hreinlega eftir því að það myndi kvikna í púðurtunnuni sem Makedónía var, ríki sem Grikkir útiloka frá öllu alþjóðasamstarfi, ríki þar sem stór albanskur minnihluti hefur löngum átt ansi stirð samskipti við makedónskan meirihlutann. Makedónía varð líka til sem þjóð sem hálfgerð afgangssærð eftir að serbar, grikkir og búlgarir höfðu barist um hina sögulegu Makedóníu sem Alexander mikli fæddist í. En þrátt fyrir að þarna væri kjörlendi fyrir lokaharmleik Júgóslavíustríðsins þá kviknaði aldrei í þessari púðurtunnu.

Það er sannarlega verðugt rannsóknarefni að rannsaka þennan merkilega frið betur, þetta land sem forðaðist stríðið – og þar með um leið mestalla athygli heimspressunar sem og athygli flestra myndasöguhöfunda í leit að dramatískri sögu. En það er gömul saga og ný að friður er saga sem er erfiðara að segja vel frá en stríðinu – lítið bara á mannkynssöguna. En þó er löngu kominn tími á að við fáum að njóta nokkurra vandaðra myndasagna um friðsemdina á Balkanskaganum, myndasagna um hvað menning þessara Suður-Slava og albana er rík, myndasagna um einstaka gestrisnina og bara myndasagna um balkanska hversdaginn á friðartímum – ástarævintýri handan sprengjuregnsins. Þeir eiga það alveg örugglega skilið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Pistillinn var upphaflega fluttur í myndasöguþættinum Talblöðrunni á RÚV árið 2013.