Lóa Hjálmtýsdóttir er myndasöguhöfundur og söngkona í FM Belfast. Þið getið fylgst með myndasögunum hennar á Lóaboraotríum og styrkt listina á Patreon. Menningarsmygl réði hana sem smyglara vikunnar, Weird Al Yankovich, Vincent Price og fleiri koma við sögu.
Hvaða myndasöguhöfundar veita þér innblástur?
Tara Booth, Hugleikur, Alec with a pen, René French, Jason og Emil Ferris.
Hvernig fer myndlistin og tónlistin saman?
Allt í lagi bara. Stundum taka þau tíma hvort frá öðru en oftast vinna þau vel saman. Myndasögur og tónlist er mjög góð blanda.
Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?
Christopher Guest leikstýrir og Bel Powley leikur.
Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?
Þegar ég fór í mánaðarferð um Evrópu með fjölskyldunni minni og náði að gubba í sjö mismunandi löndum af því að ég hafði séð bíómynd með Vincent Price og átti erfitt með að sofna fyrir kvíða.
Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?
Einhverri flosaðri fegurð eftir Loja Höskuldsson.
Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?
Já, Dog Man bækurnar eftir Dav Pilkey. Það er algjör synd að þessar fáránlega fyndnu barnabækur séu ekki til á íslensku.
Forvitnilegasta ljóðskáld 21 aldarinnar?
Herra Jónas Reynir Gunnarsson.
Hvaða kennari hafði áhrif?
Margrét H Blöndal, Haraldur Jónsson, Þorvaldur Þorsteinsson, Anna Hallin, Les Kanturek, Noël Caro, Auður Jónsdóttir, Sigurður Pálsson, Yuri Gitman og Ben Katchor. Ég nenni ekki að telja upp kennarana sem höfðu slæm áhrif á mig en ég hef samið myndasögu um mína reynslu af kennurum. Ég samdi hana eftir að Þorvaldur Þorsteinsson og Les Kanturek létust og ég áttaði mig á að þeir höfðu haft ótrúleg áhrif á viðhorf mín til sköpunar og voru mjög hvetjandi.
Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?
Ég held að það yrði bara nákvæmlega eins dagskrá og er á Svörtum sunnudögum og Prump í Paradís í Bíó Paradís. Ég myndi að vísu bæta við laugardagsmorgnaglápi og sýna bara skemmtilega teikimyndaþætti eins og Teen Titans Go, Adventure Time, Clarence, Rick & Morty, Simpsons, Bojack Horseman og þannig háttar. Ég myndi selja morgunkorn í sjoppunni til að slafra í sig á meðan.
Hvar er draumurinn?
Að bráðna í jakkavasanum á Jónsa í Svörtum fötum.
Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?
Veggur málaður af Söru Riel eða risastór teikning eftir Helgu Páley.
Spurning frá smyglara síðustu viku: Hver er kóngurinn, Friðrik Þór eða Hrafn Gunnlaugson?
Æi ég veit það ekki. Ég hef heyrt að Börn náttúrunnar sé góð en ég hef ekki beinlínis verið að fylgjast með þessum gæjum og þeirra verkum. Er ekki bara hægt að splitta þessu og kalla þá báða prinsa?
Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?
Ég er alltaf að kenna einhverjum snillum í LHÍ og Myndlistaskóla Reykjavíkur en ég vil ekki gera upp á milli þeirra.
Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?
Keypti mér árskort í sund og leynilöggulego settið.
Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?
Já, ég næ því með því að teikna barnabækur, spila á tónleikum, kenna list og taka að mér hin og þessi verkefni. Ég mæli samt ekki með þessu ef fólk langar til að eignast íbúð fyrir fertugt eða er hrifið af sumarfríum.
Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?
Exorcise með Tilbury.
Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?
Ozark, 2. sería.
Eftirminnilegasta upplifun á sviði:
Þegar Árni Vil fékk skó í andlitið en kláraði samt tónleikana eins og fagmaður.
Hvað er draumaverkefnið?
Að tala inn á teiknimyndir og að láta framleiða leikföng eftir teikningunum mínum.
Uppáhaldsorðið þitt?
Hverfi, af því að það þýðir bæði umhverfi og að hverfa.
Þú stofnar nýtt band og getur bara ráðið útlendinga – hverja myndirðu fá?
Ég myndi fá Weird Al Yankovic. Hann er svo furðulega laus við skömm, ég væri til í að læra það. Svo myndi ég ráða Metronomy trommarann Önnu Prior.
Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?
Í húsbíl með Árna á ferð um landið eða ein á hjóli með heyrnatól.
Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?
Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?
En hvað ertu eiginlega að gera?
Ég hef ekki minnstu hugmynd. Bara að reyna að hafa það kósý og valda sem minnstum skaða.