Magnús Björn Ólafsson gaf nýlega út sína fyrstu myndasögu, Maram, í samstarfi við franska teiknarann Addroc. Magnús hefur áður unnið við blaðamennsku, ritstýrt Stúdentablaðinu, stúderað heimspeki og skrifað sögur fyrir tölvuleiki.

Hvað kveikti áhugann á að semja myndasögu?

Ég hef alltaf elskað myndasögur og hef lesið þær frá því ég man eftir mér. Mér datt samt aldrei í hug að ég ætti eftir að skrifa myndasögu sjálfur. Það var svo fjarstæðukennt og óyfirstíganlegt markmið, sérstaklega á Íslandi því hér er nánast engin hefð fyrir þessu söguformi. Hvar myndi maður eiginlega byrja og hvernig færi maður að? Ég vissi ekki neitt.

En fyrir nokkrum árum var ég að kyrja ákveðna möntru eins og vitleysingur og þá vitjaði mín í draumsýn lítill strákur sem ég kannaðist við. Hann sýndi mér bók og sagði, þessa sögu átt þú að skrifa um mig. Og ég lofaði að gera það. Þessu fylgdu sterkar og skýrar sýnir úr heimi drengsins, sem ég sá hvort sem ég var með augun opin eða lokuð.

Þegar ég svo rankaði við mér var ég bara kominn á byrjunarreitinn, og hef verið að reyna að efna þetta loforð alveg síðan þá.

Hvernig kviknaði hugmyndin að sögu um perlukafara í Kyrrahafinu?

Einu sinni var ég staddur í norðanverðri Kambódíu, í miklu vatnaríki sem heitir Kampong Phluk. Þar kynntist ég fólki sem stígur nánast aldrei á land og býr ýmist í húsbátum eða kofum sem standa á stultum yfir vatnsfletinum. Og þarna fóru börnin allra sinna ferða syndandi, sum voru svo lítil að þau hafa varla verið byrjuð að ganga eða tala.

Þegar drengurinn heimsótti mig svo í draumsýninni, nokkrum árum seinna, vissi ég að ég hafði séð hann þarna í vatninu.

Perlu-elementið rímaði síðan bara svo fallega við þetta allt saman. Mér hefur alltaf fundist perlukafarinn svo falleg metafóra; sá sem kafar undir yfirborðið til að sækja fjársjóðina sem leynast í djúpinu; sá sem fer þangað sem hinir þora ekki. Búdda og Jesús eru perlukafarar í þessum skilningi. Og auðvitað allir einlægir snillingar sem þora að vera þeir sjálfir, hvernig sem allt veltist. Dýrustu perlurnar eru innra með þér.

Hvernig kynntust þið Addroc?

Fyrir nokkrum árum bjó ég allt í einu í Berlín og vann við að skrifa sögur fyrir tölvuleik. Ég hjólaði með hálfklárað handritið að Maram um borgina, leitandi að teiknara sem gæti hugsað sér að vinna með mér; ég fór á sýningar og fyrirlestra, heimsótti útgefendur, myndasögubúðir og ráðstefnur, en ekkert gekk. Ég talaði mjög lélega þýsku og átti aldrei séns. 

Svo einn daginn, þegar ég var alveg að gefast upp, fattaði ég að ég vann auðvitað á hverjum degi náið með frönskum hreyfimyndagerðarmanni sem hlyti að þekkja helling af teiknurum. Ég keypti handa honum bjór og schnitzel og sagði honum söguna, sem var langt frá því að vera tilbúin svo ég þurfti að skálda í eyðurnar jafnóðum. Þetta gekk svo vel að hreyfimyndamaðurinn kláraði schnitzelið og kom mér beint í samband við besta vin sinn í Frakklandi. Ég keyrði svo til Angoulême nokkrum mánuðum seinna til að hitta listamanninn og við höfum verið perluvinir og samstarfsfélagar alveg síðan þá.

Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?

Flóki, sonur minn, leikstýrir Hrafnrúnu, systur sinni, sem fer með aðalhlutverkið. Konan mín, mamma þeirra, sér um framleiðsluna.

Hrafnrún leikur ungan mann sem reisir sér lítinn bæ við lækjarsprænu. Hann skreytir kofann að innan og utan, hleypir læknum yfir túnin og engjarnar, leikur sér, verður ringlaður og hefur gaman. Þegar hann er orðinn leiður á leiknum, horfir hann loksins í kringum sig og sér að litli kofinn er hruninn, gullin týnd og allt eins og draumur. Þá leggst hann á lækjarbakkann og hlustar á vatnið hvísla. Þetta er ekki komið lengra í augnablikinu.

Hver er staða myndasögunnar á Íslandi?

Það er ýmislegt fallegt að gerast en verkin eru hvergi gagnrýnd og hljóta litla sem enga athygli eða umfjöllun innan lista- og bókmenntasamfélagsins. Síðasta föstudag átti að taka bókina okkar fyrir í Lestarklefanum á Rás 1 og ég hlakkaði auðvitað mikið til að heyra loksins frá fólki sem hafði virkilega rýnt í bókina. En þegar á hólminn var komið lýstu þessir þrír gagnrýnendur sig vanhæfa til að fjalla um bókina, sögðust einfaldlega ekki hafa áhuga á myndasögum og ekki kunna að lesa þær.

Mér fannst auðvitað leiðinlegt að fá ekki krítík, en á sama tíma er þetta kannski svolítið lýsandi fyrir stöðuna á Íslandi í dag. Myndasagan er ekki tekin alvarlega sem list- eða bókmenntaform. Það þætti saga til næsta bæjar ef manneskja sem hefur ekki áhuga á klassískri tónlist, og hefur aldrei hlustað á hana í ofanálag, væri fengin til að gagnrýna það nýjasta frá Deutsche Grammophon.

Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?

Þegar ég var fjögurra ára keyrðu pabbi og mamma okkur systkinin um alla Evrópu í tvo mánuði. Við þurftum að taka Norrænuna til að koma bílnum yfir og um borð var lítill róló sem ég gat gleymt mér í öllum stundum. Og mér fannst þessi róló alveg ofboðslega stór.

Þegar ég var tíu ára endurtók fjölskyldan leikinn og aftur vorum við á leiðinni til Evrópu. Þegar við höfðum komið okkur fyrir um borð í skipinu spurði pabbi mig hvort ég myndi nú ekki örugglega eftir rólónum stóra frá því um árið. Ég sagðist nú halda það, en hann bað mig þá um að athuga hvort hann hefði nokkuð minnkað eitthvað. Ég fór auðvitað og gáði, og komst þá að því að rólóinn var ekki lengur stór, og að rennibrautin sem hafði verið á við heilt hús náði mér rétt upp í mitti. Óraunveruleikatilfinningin sem ég upplifði þarna hefur alltaf setið í mér.

Nú ert þú textahöfundur og Addroc teiknari – hvernig fer slíkt samstarf fram?

Sjálft vinnuferlið er í grófum dráttum þannig að fyrst skrifa ég lítið uppkast að handriti sem er ekkert ósvipað kvikmyndahandriti.

Því næst skrifa ég baksögu heimsins og persónanna sem í honum búa. Hverjar eru þær? Hvaðan koma þær? Hvað vilja þær og hvers vegna?  Baksögurnar fær Adrien svo í hendurnar og þá getur hann byrjað að búa til karakterskissur og teikna söguheiminn á meðan ég klára handritið. Handritsgerðin verður miklu ítarlegri á þessu stigi vegna þess að ég þarf að lýsa hverjum ramma eins nákvæmlega og ég get.

Þegar Adrien hefur gefið persónunum líf, og handritið hefur farið fram og aftur á milli mín og fólksins sem ég treysti til að lesa það yfir, plottum við Adrien söguna, ramma fyrir ramma, og gerum tillögur að því hvernig við viljum leiða lesandann í gegnum bókina, mynd fyrir mynd.

Að því loknu teiknar Adrien uppkast að hverri síðu sem hann svo skilar til mín og ég sendi til baka með athugasemdum. Uppköstin fara fram og til baka nokkrum sinnum og þegar við erum orðnir sáttir við útkomuna byrjar hann að teikna nákvæmar línur með blýanti. Þessar blýantsteikningar sendir hann til mín og ég get þá jafn óðum staðsett textann gróflega á síðunum og byrjað að finna taktinn sem við viljum að augu lesandans fylgi.

Á meðan ég er að þessu byrjar Adrien að fara yfir blýantinn með svörtu bleki. Það er tímafrekt ferli, en að síðustu litar hann myndirnar. Á meðan hann er að klára að bleka og lita, nýti ég tímann til að fínpússa textann og staðsetningar hans. Yfirleitt þarf ég að endurskrifa alla díalógana nokkrum sinnum eftir að ég fæ blek- eða litsíðu í hendurnar, því þá sé ég loksins hlutina í endanlegu samhengi. Að lokum þýði ég svo bókina á íslensku.

Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?

Ég las nýlega Hundrað ára einsemd í íslenskri þýðingu í fyrsta sinn og hreinlega trúði því ekki hvað textinn var flatur. Það hlýtur að vera hægt að finna einhvern til að þýða hana upp á nýtt.

Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?

Fyrst ráðum við her manna svo Hayao Miyazaki geti animeitað Dune eftir handriti Jodorowskys. Myndin er svo frumsýnd á hátíðinni við lifandi undirleik Pink Floyd. Svo er hún sýnd aftur og aftur og aftur.

Þið lentuð í smá prent-hrakförum með útgáfuna, hvernig blessaðist það allt saman?

Bókin átti að koma út í nóvember, en þegar við fengum fyrstu eintökin í hendurnar sáum við strax stóra prentgalla. Bókin var óboðleg og nýtt upplag hefði ekki náð til landsins fyrir jól. Bömmer.

En þetta fór allt vel því það er lítið samfélag sem fylgist með bókinni og vinnuferlinu á Facebook-síðunni Maram Myndasaga. Þar auglýstum við jólapakka til sölu á heildsöluverði bókarinnar. Í pakkanum voru áritaðar teikningar, boðskort í útgáfuhóf og gjafabréf sem myndi gilda fyrir bókinni þegar hún kæmi loks út í mars. Þetta gekk vel og seldist upp á nokkrum klukkutímum. Og þegar bókin kom loksins út í síðasta mánuði vorum við lausir við jólabókaflóðið og búnir að selja hálft upplagið.

Uppáhalds myndasöguhöfundar, íslenskir sem erlendir?

Khmerarnir, sem flúruðu Angkor Wat; Jagúarastríðsmennirnir, sem skreyttu Teotihuacan; Will Eisner, sem fangaði sál New York borgar; Jodorowsky, sem gefur rúmlega áttræður út sínar bestu sögur; Moebius, sem tók rétt mátulega mikið af LSD; Frederik Peeters, sem tók við keflinu af Moebiusi; Neil Gaiman, sem kann ekki að slá feilnótu; Katsuhiro Otomo, sem færði heiminum Akira og Domu.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inn á öll heimili?

Myndasögunni Maram, í viðhafnarútgáfu.

Hvaðan kemur titilinn?

Mig langaði að gefa titilpersónunni fallegt töfranafn. Ég var eitthvað að pæla í sjónum, þar sem drengurinn er nú einu sinni perlukafari. Þar kom orðið Mar, sem varð Mara. En þegar vinur minn bætti emminu aftan við var ég kominn með fallegan palindróma sem er eins aftur á bak og áfram.

Þegar ég svo fletti orðinu Maram upp komst ég að því að það er til víða, en upphaflega rótin er úr arabísku, þar sem það þýðir ósk eða von. Þar með var hringnum lokað.

Hvernig er kófið að leika sköpunarkraftinn? Jafnvel að kveikja einhverjar hugmyndir?

Ég hef aðallega verið að vinna í seinni hlutanum að Maram.

(Spurning frá síðasta smyglara, Kristjáni Hrafni Guðmundssyni):

Ef þú yrðir að velja annaðhvort til að setja lifandi ofan í sjóðandi pott, hvort veldirðu: tíu humra eða einn gullfisk sem barn hefur átt sem gæludýr í nokkur ár?

Ég ákalla humardrottninguna sem kemur fljúgandi á sæhestaprinsinum ásamt herskara gullfiska. Það sem gerist næst er auðvitað ekki í mínum höndum, en ef ég þekki hana rétt, vill drottningin helst sjóða eitthvað af Kristjáni í pottinum og bjóða svo drengnum í veislu þar sem engu verður til sparað.

Þú ert menntaður heimspekingur, laumast heimspekin inn í skrifin?

Alveg örugglega. Allt sem ég set í mig, jákvætt eða neikvætt, verður hluti af mér, eitthvað sem ég þarf að vinna úr. En það er dálítið síðan ég var í námi, svo ég held að skólaheimspekin hafi kannski náð að renna saman við eigin reynslu: ferðalög innávið og útávið, vinabönd og drauma.

Prófaðirðu köfun þegar þú varst að undirbúa bókina, jafnvel perluköfun?

Nei, en meðvitundin er botnlaus og geymir allt sem við getum og getum ekki hugsað okkur, svo það er hægt að kafa eftir perlum á ýmsa vegu. Við þurfum bara að finna leiðir til að vingast við þetta óþekkta þarna niðri í djúpinu; þetta sem við þorum ekki að horfast í augu við. Og þá finnum við kannski af og til perlur og fjársjóði sem við megum færa upp á yfirborðið.

Hvaða kennari hafði áhrif?

Öll stórfjölskyldan bjó undir einu þaki á æskuheimilinu mínu. Og amma og afi á efstu hæðinni, með yfirsýnina. Ég var alltaf í heimsókn hjá þeim eða þau hjá okkur niðri í kjallara. Þau kenndu mér ótal margt, til dæmis að synda.

Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?

Adrien Roche.

Hvar er draumurinn?

Hér og nú.

Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?
Apavatn á ágústkvöldi.

Hver er merkilegasti maður sem þú hefur dottið í það með?
Einu sinni sat ég á bar í austur London með manni sem hét Phil. Hann var mjög ógnandi og með mikla valbrá í kringum augun. Hún var í laginu eins og eldur, og logarnir teygðu sig langt upp á enni, aftur fyrir eyru og niður kinnbeinin.

Af útlitinu og látbragðinu að dæma var eins og Phil hefði horft nokkrum mínútum of lengi ofan í helvíti.

Hann var alveg ægilegur og allir voru hræddir við hann þarna inni, en af einhverri óskiljanlegri ástæðu var ég ekki hræddur. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna, því undir eðlilegum kringumstæðum hefði mér ekki liðið vel þarna. Kannski var ég svona barnalegur en ég bara kenndi í brjóst um hann og hugsaði: greyið Phil, honum hefur verið strítt, þess vegna lætur hann svona. Og á einhvern hátt held ég að honum hafi þótt róandi að hafa mig þarna, svona ligeglad og barnalegan. Við áttum saman London þessa nótt og klúbbuðum í góðum fíling.

Seinna komst ég svo að því að Phil var alræmdur gangster og morðingi. Merkilegur kall.

Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?
Gróf hann í jörðu og bjó til fjársjóðskort sem enginn kann að lesa nema fuglinn fljúgandi.

Uppáhalds dýr í bókmenntasögunni?

Fyrir einhvern galdur vex ást mín á Rattatata í jöfnu hlutfalli við heimskupörin.

Hvaða kóf-takmarkanir hafa haft mest áhrif á líf þitt?

Allt í einu varð Ísland réttrúnaðarkirkja, og enginn má fara út.

Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?
Mondo Cane, eftir Mike Patton.

Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?

Lost Kingdoms of South America.  Dr. Jago Cooper er breskur fornleifafræðingur sem leiðir áhorfandann um slóðir horfinna konungdæma Suður-Ameríku. Ég fæ ekki nóg af þessu og er hálfnaður með Mið-Ameríku líka.

[innskot ritstjóra: þættina má finna alla á Youtube]

Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?

Hvað eru margir dropar í hafinu?

Uppáhaldsorðið þitt?

Takk.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Mynd af Magnúsi: Bóas Kristjánsson. / / Aðrar ljósmyndir eru eftir Magnús sjálfan.

Allar teikningar eru eftir Addroc, nema einn myndrammi sem er úr verki eftir Frederik Peeters, sem er við umfjöllun um aðra myndasöguhöfunda.