Sverrir Norland gaf nýverið út skáldsöguna Klettinn, hans tólftu bók. Tæplega helmingurinn af hinum kom út í bókaknippi sem innihélt fimm bækur; Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst, Hið agalausa tívólí, Manneskjusafnið, Erfðaskrá á útdauðu tungumáli og Heimafólk. Þá hefur hann einnig gefið út skáldsögurnar Kvíðasnillingana og Fyrir allra augum, esseyjubókina Stríð og klið, Tunglbókina Kvíðasnillingurinn og ljóðabækurnar Með mínum grænu augum og Suss! Andagyðjan sefur. Svona fyrir utan að starfa sem útgefandi hjá AM Forlagi og gefa þar út barnabækur eins og Þar sem óhemjurnar eru, starfa sem blaðamaður, gagnrýnandi og pistlahöfundur og skrifa lokaritgerðina „Lögskýringaraðferð umboðsmanns Alþingis í skýringum hans á 1. mgr. 76. gr. Stjórnarskrárinnar.“
En víkjum nú að Klettinum.

Hvaða fígúrur eru þarna á kápunni? Og af hverju er kletturinn svona rauður?
Á kápunni eru Einar og Brynjar – en bara skugginn af Gúa.
Vinirnir þrír fóru í útilegu fyrir hartnær tveimur áratugum, þá nýútskrifaðir úr menntó. Gúi sneri ekki aftur. Einar og Brynjar hafa aldrei sagt frá því sem gerðist eða jafnað sig fyllilega.
Kletturinn er rauður því að … (Lesið bókina.)
Nú stúderaðirðu bæði ritlist og lögfræði í háskóla – hvaða áhrif hafði það á þig sem skáld?
Engin.
Nú ertu bæði höfundur og útgefandi – hver er helsti munurinn á að gefa út eigin bækur og annarra?
Ég hef bara gefið út erlendar barnabækur sem ég hef sjálfur þýtt. Það er því allt hluti af íslenska höfundarverkinu.
Ég mundi gjarnan vilja gefa út bækur eftir aðra en sólarhringurinn rúmar það ekki.
Og hvernig er tilfinningin að koma út með bók, hafandi unnið við að gagnrýna þær í sjónvarpi?
Gagnrýnin í Kiljunni var listrænn gjörningur.
Í raun og veru er ég enginn gagnrýnandi. Þegar ég les er það fyrst og fremst til að stela því sem mér finnst gott svo að ég geti notað það sjálfur.
Ég lifi hins vegar fyrir það að skrifa og hef alltaf gert.
„Kletturinn er spennandi skáldsaga um fyrirgefningu, metnað, siðferðileg álitamál og ekki síst tilfinningasambönd karlmanna,“ segir í kynningartexta. Þetta kveikir alveg nokkrar spurningar – eins og:
Hafa tilfinningasambönd karlmanna breyst mikið í gegnum árin, jafnvel bara á allra síðustu árum og áratugum?
Það er góð spurning sem ég get auðvitað einungis svarað út frá takmarkaðri lífsreynslu minni.
Einhver sagði við mig um daginn: „Við tilheyrum fyrstu kynslóðinni sem má tala opinskátt um tilfinningar sínar.“ Kannski er það satt.
(En ég geld líka varhug við þeirri tilhneigingu okkar að halda að við sem mannkyn séum alltaf að taka einhver risastór þroskastökk. Ef eitthvað einkennir okkar tíma þá er það hálfgerð sögublinda – skortur á skilningi eða yfirsýn um fortíðina.)
Er fyrirgefning mögulega problematískt hugtak?
Ég held að getan til að fyrirgefa öðrum einkenni sterkt og örlátt fólk sem líður vel í eigin skinni.
Er metnaður jákvætt eða neikvætt hreyfiafl?
Hvorttveggja. En mér finnst hugtakið oft notað í úrkynjaðri mynd í opinberri umræðu. Metnaður snýst um völd, peninga, að „ná langt“.
En hvernig skilgreinum við vel heppnað líf? Slíkar spurningar sækja alltaf á mig og eru undirliggjandi í bókunum mínum.
Hvað er uppáhalds siðferðislega álitamálið þitt? Eitthvað sem þú getur íhugað og/eða rifist um dögum saman?
Í Klettinum er einföld spurning undir:
Mætti hugsa sér aðstæður þar sem einhver fremur voðaverk – og síðan er öllum fyrir bestu að það komist ekki upp hvað gerðist í raun?
Ber fólki jafnvel siðferðileg skylda til að segja ekki frá?
Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?
Hef bara ekki grænan grun. John Carpenter og Julia Roberts?
Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?
Líf mitt hefur verið ein samfelld utanlandsferð. Mér líður alltaf eins og gesti, túrista.
Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?
Sólskininu.
Þú hefur talað um að hafa skrifað bókina í innblástursflogi en eytt svo mörgum mánuðum í að umrita og laga. Hvaðan spratt þessi innblásur – og er það eitthvað sem hægt er að pródúsera, eða þarf bara að bíða eftir eldingunni í hausinn?
Einu sinni gekk ég alltaf með ljóðabók á mér því að það var vís leið til að fá eldingu í hausinn: að lesa eitthvað gott.
Í seinni tíð þarf ég þess ekki því ég er alltaf með svo mörg járn í eldinum og takmarkaðan tíma til að vinna úr þeim. Ég sest bara niður og skrifa.
Ég er líklega svolítið obsessífur þegar ég fer af stað. Þá get ég unnið stanslaust og það er engin kvöð, bara eins og að draga andann og vera til: hrein gleði.
Fyrir allra augum (2016) var 500 blaðsíðna uppkast sem ég henti – og umritaði á tveimur, þremur vikum í stutta nóvellu. Þá bjó ég í New York og vann inni í gluggalausum kústaskáp.
Stríð og kliður mallaði í kollinum á mér í svona tvö ár – svo skrifaði ég hana á mánuði. Klukkan 5 á morgnana á meðan aðrir í húsinu sváfu. Í vetrarmyrkri.
Þetta virkar oft svona. Ég skrifaði Klettinn hratt en eyddi svo örugglega ári í að fita hana og dýpka.
Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?
Auðvitað væri æðislegt að eiga helstu bókmenntaverk sögunnar komplett á íslensku. Við eigum stóran hluta Dostojevskís, líka slatta af Tolstoj – ég væri til í allan Tsjekhov.
Forvitnilegasta ljóðskáld 21. aldarinnar?
Enga hugmynd. Ég ætla að gista á að forvitnilegasta skáld samtímans yrki á tungumáli sem ég tala ekki. Líkurnar benda til þess. Reyndar magt gott sem kemur út á íslensku þessa dagana …
Hvaða kennari hafði áhrif?
Þórey bókmenntakennari í Hlíðaskóla til dæmis. Það er sena í Klettinum sem er innspíreruð af atviki í tíma hjá henni.
Þórey gaf mér einu sinni 15 fyrir ritgerð á skalanum 1-10. Það benti sterklega til þess að henni finndist ég geta skrifað og tjáð mig … Ég hef aldrei fyrirgefið henni þetta!
Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsi í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?
Gamlar hryllingsmyndir. Og The X-Files. Aftur og aftur og aftur.
Hvar er draumurinn?
Allt í kringum okkur.
Ef þú ynnir sem skólabókavörður, hvaða bókum myndirðu helst lauma að börnunum?
Ég mundi banna þeim að fá lánaðar bækur og skipa þeim að spila frekar tölvuleiki og hanga í símunum sínum.
Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?
Síðasta bók mín á undan Klettinum, Stríð og kliður (2021), fjallaði um loftslagsbreytingar, tækni og ímyndunaraflið. Stórar áhyggjur þar.

Ég reyni samt að fara ekki í gegnum lífið sligaður af áhyggjum.
Árið 2015 fór ég í sumarskóla fyrir unga norræna höfunda, á Bisköps Arno í Svíþjóð. Lóa Hjálmtýs var hinn fulltrúi Íslands.
Ég man að við stóðum öll úti í sumarsólskininu, nokkrir ungir norrænir höfundar, þegar hún leit skyndilega í augun á mér og sagði:
„Sverrir, þér finnst þú þurfa að leysa svo mörg vandamál sem er ekkert endilega undir þér komið að leysa.“
Ég veit ekki hversu oft ég hef rifjað þetta upp. En sem sagt – ef ég væri ekki rithöfundur (og fyrirlesari, handritshöfundur, útgefandi, allt þetta) væri ég til í að vera í stjórnmálum eða reka stórt fyrirtæki. Eitthvað svoleiðis, þar sem ég væri mjög virkur og athafnasamur. Ég hef svolítið glímt við samviskubitið sem hlýst af því að verja dögum sínum í að endurhugsa heiminn frekar en að endurgera heiminn með aðgerðum.
Hins vegar veit ég að skrifin skipta líka máli. Stríð og kliður hlaut ótrúleg viðbrögð – ég hef ekki tölu á þeim skeytum (og símhringingum!) sem ég hef fengið frá lesendum. Það hvetur mann til dáða og segir okkur að bókmenntir skipta máli.
Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?
Gjörningaþoka.
Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?
Ég veit það ekki. Snæfellsjökull?
Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?
Mér finnst hvorug tilhugsunin óþægileg.
Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?
Sennilega ekki neitt. Ég hélt bara áfram að skrifa, semja, spila tónlist. Að þessu leyti er ég mjög leiðinlegur. Peningar eru ekki stórt hreyfiafl í lífi mínu, bara ill nauðsyn eins og hjá svo mörgum öðrum.
Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?
Já, ég lifa bæði í og af listinni.
Hvernig? Til dæmis með því að vera í mörgum verkefnum samtímis. Erlendi agentinn minn sagðist stundum fá svimakast þegar ég súmmera upp fyrir henni þau verkefni sem ég er með á prjónunum. En þannig er veruleikinn bara. Ég væri alveg til í að dúlla mér lengi í einu og sama verkefninu en það er ekki í boði.
(Spurning frá síðasta smyglara, Magnús Björn Ólafsson) Hvað eru margir dropar í hafinu?
Eins margir og til þarf.
Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?
Eitthvert stuð með Dolly Parton auðvitað.
Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?
Tvær sem mér fundust góðar og ég sá frekar nýlega: The White Lotus og Beef.
Að horfa í einni lotu er samt sjaldan í boði fyrir mig. Tvö lítil börn og margt á könnunni …
Hvað er draumaverkefnið?
Hvít blaðsíða. Nægur tími. Einu sinni, endur fyrir löngu …
Nú ertu nýbúinn að halda útgáfuhóf. Voru einhverjir góðir skandalar eða saklausari uppákomur sem hægt er að segja frá?
Heyrðu, þetta gekk eins og í sögu. Engin fótbrot og allar bækurnar seldust. Smartland dókúmentaði og ég flutti nokkur frumsamin lög með hjálp Huma vinar míns auk þess sem hún Alma dóttir mín söng eitt með mér.
Og hvernig hefur rithöndin þróast á milli bóka?
Ég skrifa verr og verr.
Uppáhaldsorðið þitt?
Orð sem tók mig allmörg ár að læra að segja:
Nei!
Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?
Má ég segja með eyrunum?
Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?
Hvað gerirðu á hverjum degi fyrir annað fólk?
Síðasta spurningin er svo opin, tækifæri fyrir smyglarann að bæta spurningunni við sem blaðamaður gleymdi – smyglarinn spyr sjálfur og svarar.
Hver eru leiðarstefin þrjú í tilverunni?
Ást, forvitni og listir.