Bókin heitir Hrafnaklukkur og ljóðið „Ljóð um kaffiást.“ Þetta er fjórða ljóðið í bókinni sem hefst á tilvitnun í Søren Kierkegaard sem fjallar að mestu um sjálfið og bókin er tileinkuð sjálfinu: „Til sjálfsins.“ Hvort það er sjálf ljóðmælanda eða ljóðskálds skal ósagt látið – en það er forvitnilegt að ljóðskáldið lætur eftirnafnið duga á kápunni, Kristian Guttesen er núna bara Guttesen.

Kaffiást1En allavega, fram að þessu, í fyrstu þremur ljóðum bókarinnar, höfum við verið á óræðum stöðum, mest úti, máski í fjöru – en núna er þetta aðeins nákvæmara: við erum stödd á kaffihúsi. Fram að þessu hafði sjálfið verið órætt, fljótandi – nánast eins og andi, en hér kemur jarðtengingin. Við erum á kaffihúsi. Árið 2012. Árið skiptir samt líklega ekki máli: „Ég gæti nefnt að árið er 2012 en það er ekki aðalmálið nú þegar ég hripa þessar línur.“

Það er eitthvað fallegt við það að hafa svona skýrt orð á óþarfanum, skrásetningarþörf ljóðskáldsins. Þetta segir manni eitthvað um skrif – að vilja tálga, vilja bara segja það sem skiptir máli – en þurfa samt að koma ómerkilegu ártali fyrir einhvern veginn. En ártöl eru samt sjaldnast ómerkileg, sum prentast í alheimsvitundina og sum aðeins í vitund sjálfsins. 2012 er árið sem að _________.

Þið getið fyllt þessa línu út sjálf – og jafnvel ef 2012 var auðgleymanlegt fyrir ykkur persónulega eigum við öll okkur ártöl sem eru eins og einkennilegar vörður í lífinu. Ártöl sem skipta ekki máli, en samt.

Kaffiást2.jpg

En sumsé, við erum stödd á kaffihúsi. Enn eitt helvítis kaffiljóðið, bóhemarómantískt runk? Ekki alveg, seinni helmingur þessa fjögurra síðna ljóðs gerist allt annars staðar. Fjórar síður er svosem ekki mikið, bókin er í litlu broti og það er eitt paragraf á hverri síðu.

Kaffiást3

Við hverfum 25 ár aftur í tímann og þar finnum við loks alvöru snertiflöt við þetta sjálf sem hefur hingað til flotið um síðurnar. Þriðja erindið fjallar um pabba sem mútar ungum syni, ringluðum nýfluttum syni.

„Ég er samt ekki almennilega kominn með orðaforða til að tjá viðbrögð mín við þessari bón og líka búinn að týna dönskunni.“

Skyndilega áttum við okkur: hann er á milli heima. Milli orða og milli tungumála og milli tveggja manneskja. Mögulega er hann það ennþá, mögulega verður hann það alltaf.

Lokaerindið fjallar svo um mömmu sem setur ofan í við þennan sama son.

Kaffiást4

„ […] og ég sit uppi með tilfinningar sem ég hef engin orð yfir.“

Tilfinningar sem eru þarna ennþá? Að minnsta kosti ekki gleymdar, 25 árum síðar.

Þetta minnir mig á tyrkneska mynd sem ég sá nýlega, mynd um mann sem getur ekki talað og drukkið te samtímis, kúrda sem er týndur á milli orða. Minnir mig líka á sýrlenskan kunningja sem hefur áhyggjur af börnunum sínum sem eru á milli tungumála hér í Evrópu og þótt þau hafi flúið stríðið þá fá þau ekki flúið óskiljanlegt og skilningssljótt erlent menntakerfi.

KaffiástFramhald

Næsta ljóð á eftir er svo framhald, heitir „Hér er skyndilega klippt yfir í fyrri senu“ og undirtitillinn er „Int. Ljóð um kaffiást“ – en fyrir þá sem ekki þekkja hefðir kvikmyndahandrita þá þýðir „Int.“ Interior – innisena. Ext. er útisena, þetta er hugsað til að fá hugmynd um kostnaðinn við handritið, hversu mikið er úti og hversu mikið inni. Þetta er sniðug tilraun í ljóðabók, hefði jafnvel mátt vera meira um þetta – ljóðin tengjast auðvitað þvers og kruss og hefði verið gaman að ganga lengra í þessari óvenjulegu leið til þess að tengja þau með nýjum meðulum.

Í þessu ljóði eru svo óræð framtíð sem hvíslar. „Þú ert hér, við erum hugsanir þínar, blóðið í sturtunni mun hreinsa þig af syndum …“

Blóð í sturtu, bíóhandrit – er þetta kannski Anthony Perkins sem talar? Veit samt ekki hvort hann hafi nokkru sinni kunnað dönsku. Svo les maður lengra og fær aðrar hugmyndir í kollinn um blóðið í sturtunni, les „Viðtal“ sem fjallar um skipper sem kann að öðlast traust ungra drengja með því að leyfa þeim að horfa á bannaðar myndir, leyfa þeim að stýra skútunni og að fara með þeim í gamnislag um kvöldið.

„Þá máttum við Tommy aðeins vera á nærbuxunum en sjálfur var skipperinn nakinn og í öllum æðiganginum sveiflaðist typpið og pungurinn á honum til og frá. Eftir það man ég ekki hvað gerðist.“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson