Nýlega var sérstök hátíðarsýning í Bíó Paradís á rúmensku myndinni Ecaterina Teodoroiu frá 1978 í tilefni hundrað ára afmælis sjálfstæðis Rúmeníu. Sýningin var hluti af hátíðardagskrá sem Rúmenski sagnfræðingurinn Florin Nicolae Ardelean heimsótti Ísland út af, en hann ræddi við kollega sinn Val Gunnarsson fyrir sýningu um hlut rúmenskra kvenna í fyrri heimstyrjöldinni. Við gripum tækifærið og spurðum hann nokkurra spurninga um rúmenskar listir og menningu, og söguna auðvitað.
Florin er fæddur árið 1983 og vinnur við Babeş-Bolyaiháskólann í Cluj-Napoca, stærstu borg Transylvaníu. Hann hefur unnið við menntamál, sagnfræðirannsóknir og verið sagnfræðilegur ráðgjafi tölvuleikjafyrirtækis, en undanfarið hafa rannsóknir hans helst beinst að fyrri heimstyrjöldinni og hlutskipti Rúmeníu í því stríði.

Segðu okkur aðeins frá myndinni sem þið sýnduð, Ecaterina Teodoroiu.
Myndin var gerð árið 1978 (svo var líka þögulmynd gerð um Ecaterinu árið 1931), leikstýrð af Dinu Cocea og segir sögu Ecaterinu Teodoroiu, sem var eina rúmenska konan sem barðist í fyrri heimstyrjöldinni. Rúmlega 3,5 milljón manns sáu myndina þegar hún var sýnd í Rúmeníu. En þetta er mynd sem er gerð á kommúnistatímanum og endurspeglar gildi og hugsjónir þeirra tíma. Það er samt ýmislegt spunnið í myndina og Ecaterina Teodoroiu er persóna sem á meiri athygli skilið, því hún er táknmynd fyrir þá frelsisbaráttu kvenna sem átti sér stað við upphaf tuttugustu aldarinnar.
Þá sjáum við í gegnum hana þau fjölbreyttu hlutverk sem rúmenskar konur tóku að sér í fyrri heimstyrjöldinni. Aðalpersónan er merkileg, hún er hermaður en áður en hún getur orðið hermaður þarf hún að taka að sér ótal hlutverk sem rúmenskum konum var ætlað á árum styrjaldarinnar. Við sjáum mismunandi birtingarmyndir stríðsins: dramatík orustunnar, harmleik dauðans og baráttuanda manneskjunnar við ótrúlegt mótlæti.
En hver er staða Ecaterinu núna í rúmenskum sögubókum?
Henni var beitt í pólitískum áróðri á kommúnistatímanum og þess vegna hlýtur hún ekki réttmætrar athygli núna. Það er vissulega svo að ýmsir sögulegir atburðir og persónur voru túlkuð með óraunsæumhætti í sagnfræði kommúnistanna, en það er ekki góð ástæða til þess að afskrifa viðkomandi persónur. Gildi þeirra sem viðfangsefni heiðarlegrar sagnfræði er óskert.
María Rúmeníudrottning og skosku kvennaspítalarnir komu einnig við sögu í heimstyrjöldinni.
Já, María Rúmeníudrottning, sem var uppi árin 1875-1938, var einhver mikilvægasta persóna sögu Rúmeníu í heimstyrjöldinni. Hún var afkomandi bresku konungsfjölskyldunnar og giftist erfðaprinsinum Ferdinand árið 1893. Hún var fyrirmynd á eins nútímalegan hátt og mögulegt er og í gegnum þátttöku sína í opinberu lífi og góðgerðarstörfum varð hún mörgum kynslóðum Rúmena mikill innblástur. Hún heimsótti spítala á vígstöðvunum, mætti á viðburði hjá hernum og almenningi og safnaði fé til handa hinum særðu, stríðsföngunum og ekkjunum. Drottningin gegndi einnig mikilvægu hlutverki í friðarviðræðum eftir stríðið. Persónuleg tengsl hennar við mikilvægustu konungsfjölskyldur Evrópu og stjórnmálastétt álfunnar skipti miklu máli þegar kom að því að tryggja stöðu Rúmeníu eftir stríðið. Það er óhætt að segja að hún hafi gegnt lykilhlutverki í því ferli sem endaði með sameiningu Rúmeníu árið 1918, þegar Transylvanía, Bessarabía (núna Moldóva), Búkóvína og Banat gengu inní Rúmeníu (sem missti stóran hluta þessara svæða svo í næstu heimstyrjöld).
Í árslok 1916 settu skosku kvenspítalarnir tvo herspítala og herdeild sjúkrabíla upp á rúmensku vígstöðvunum. Þær voru einnig kallaðar „Gráu fashanarnir” út af litnum á búningunum. Samtökin voru stofnuð í upphafi fyrri heimstyrjaldarinnar og markmið þeirra voru tvíþætt: að koma að gagni í stríðinu með læknishjálp og að stuðla að auknum kvenréttindum. Kvenlæknarnir og hjúkrunarfræðingarnir í Rúmeníu voru undir stjórn Dr. Elsie Inglis, sem var fædd árið 1864 í Indlandi. Þær eyddu ári á rúmensku vígstöðvunum og tókst að bjarga lífum þúsunda rúmenskra og rússneskra hermanna, sem og lífum almennra borgara. Þær máttu lifa við sama harðræði og rúmenski herinn og rúmenskur almenningur, sem hörfuðu norður á bóginn þegar stór hluti landsins var hertekinn af óvinaher.
Rúmensk kvikmyndagerð er í blóma og menn hafa talað um rúmenska nýbylgju í meira en áratug. Hvað olli þessari bylgju?
Rúmenska nýbylgjan hófst á fyrsta áratug aldarinnar, með raunsæismyndum eins og Dauði herra Lazarescu eftir Cristi Puiu og 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar eftir Cristian Mungiu. Leikstjórar á borð við Radu Muntean, Corneliu Porumboiu, Radu Jude, Tudor Giurgiu og fleiri fengu einnig verðlaun á alþjóðlegum hátíðum og urðu hluti af þessari nýbylgju.
En svo eru eldri myndir sem vert er að kynna sér líka: Endursköpunin eftir Lucian Pintilie – og raunar allar myndir hans. Eins má nefna leikstjóra eins og Mircea Saucan, Alexandru Tatos og Dan Pita.
Rúmenskar myndir unnu aðalverðlaunin á tveimur stæstu kvikmyndahátíðum Evrópu í ár – Touch Me Not á Berlinale og Mér er sama þótt mannkynssagan afgreiði okkur sem villimenn á Karlovy Vary. En hvernig hafa viðbrögðin við þessum tilraunakenndu myndum verið í Rúmeníu?
Það er ekki um auðugan garð að gresja þegarkemur að kvikmyndahúsum í Rúmeníu um þessar mundir, sem þýðir að margar þessar myndir eru aðeins sýndar í eina eða tvær vikur og trekkja ekki að marga áhorfendur. Sumir elska þær, aðrir ekki 🙂 Þetta eru mjög persónulegar myndir um annars vegar nánd og hins vegar mannkynssöguna, sem er gott að hafa í huga þegar maður horfir.
En nóg um bíómyndir, eru einhverjar rúmenskar bókmenntir sem þú getur mælt með?
Þessar klassísku hafa flestar verið þýddar á ensku, en það má einnig nefna nútímahöfunda eins og Ioana Pirvulescu, ClaudiuFlorian, Dan Lungu og Varujan Vosganian. Það má lesa sér til um nýlegar þýðingar hérna.
Einn af mínum uppáhaldshöfundum er Mircea Eliade, sem er mjög þekktur trúarbragðasagnfræðingur en skrifaði einnig frábærar skáldsögur sem sumar voru töfraraunsæi, aðrar raunsæislegri og enn aðrar innblásnar af rúmenskum ævintýrum.

En hvað með rúmenska tónlist?
Við eigum kannski ekki okkar Björk né Sigur Rós, en við erum ansi stór í óperunni með Angela Gheorghiu fremstan í flokki, og í hefðbundinni balkantónlist, þar sem nefna má Fanfare Ciocarlia og Taraf deHaidouks. Svo er auðvitað klassíkin. George Enescu er frægasta tónskáld Rúmeníu og auk þess eru nokkrir píanistar og fiðluleikarar sem vert er að fylgjast með, eins og Alexandra Dariescu, Daniel Ciobanu og Remus Azoitei.
Saga Rúmeníu síðustu hundrað árin hefur verið ansi dramatísk. Hvernig sérðu næstu hundrað ár fyrir þér?
Ég held það freisti flestra sagnfræðinga að spá fyrir um framtíðina, vegna eðlis starfs okkar. Ég forðast venjulega að spá neinu því ég á nóg með að reyna að skilja fortíðina og ég held að sagnfræðingar ættu ekki að eyða of mikilli orku í spádóma. Hins vegar held ég að það sé gagnlegt að ímynda sér jákvæða möguleika í framtíðinni. Þannig að ég vil ímynda mér að í framtíðinni verði litið á allan hernað sem einkennilega sérvisku úr fortíðinni og stríð muni aðeins eiga sér stað á söfnum og í sýndarveruleika. Hvað Rúmeníu og okkar samfélag varðar vona ég að næstu hundrað árin byggjum við upp öflugra lýðræði með meðvituðum borgurum sem munu standa með frelsi og lýðræði. Ég vona líka að með aukinni menntun og gagnrýnni hugsun muni Rúmenar fá aukinn áhuga á alþjóðlegum málefnum eins og umhverfisvernd. Á sama tíma vona ég aðfólk átti sig á því að þjóðernisást og það að vera stoltur af menningu okkar og sögu hefur ekkert með öfgafulla þjóðernishyggju að gera og það verði nóg pláss fyrir þjóðlega og menningarlega fjölbreytni í alþjóðavæddum heimi.