Ský til að gleyma

Arngunnur Árnadóttir

„Nauðsynlegt að líta á gamansömu hliðarnar.“ Þetta var fyrirsögn á viðtali við Sigurstein Másson um bók sem hann hefur nýlega skrifað um baráttu sína við geðsjúkdóma og kunningi minn fáraðist yfir því að geðsjúkdómum væri alltaf breytt í gamansögur, það talaði enginn um botnlaust svartnættið sem þetta raunverulega snérist um.

Mig langaði að segja honum að þannig fúnkeruðum við bara, þetta væri hluti af ferlinu – ekki bara gagnvart geðsjúkdómum heldur erfiðri reynslu almennt; þetta verður oft að gamansögu síðar. Eða verður að minnsta kosti að sögu. Annars erum við ekki tilbúin til að tala um það. Svo þurfum við auðvitað að komast aftur inní augnablikið, til þess að raunverulega tjá upplifunina, sem gæti vel verið að Sigursteini hafi tekist – ég á bókina ólesna.

Ég sagði honum þetta aldrei, Facebook-statusinn var horfinn þegar ég hafði hugsað málið – en þetta var bak við eyrað á mér þegar ég las Ský til að gleyma eftir Arngunni Árandóttur seinna sama kvöld. Ekki af því hún fjalli um geðsjúkdóma, heldur af því fyrsti kaflinn er einmitt passlega fjarlægur – eftir óræða byrjun þá birtist okkur Reykjavík háskólaáranna, sbr. eftirfarandi mynd:

Á föstudegi umferðarniður
námsmenn með bílinn í láni
á leið í Ríkið í Kringlunni

Þetta er sterk mynd af snemmfullorðnu fólki, það má keyra og kaupa áfengi, en það er enn með allt á láni. Inní þessari minningu um þrítugsaldurinn liggur svo minning um unglingsárin, það er bent á götuhorn í umferðarniðnum og rifjað upp:

stóðum við einu sinni
og vorum vandræðaleg

Bókarkápan ýtir líka undir þessa túlkun, kápumyndin er lúmsk og óræð, en mér finnst ég sjá í fæturna á ungri stelpu sem breytist í fullorðna konu – svo er maður að tipla á konunni, skuggi, minningar. Þetta er samsett mynd, klippimynd, mögulega af nokkrum sjálfum, nokkrum æviskeiðum og nokkrum viðfangsefnum. Á baksíðu er svo vitnað í eitt ljóðið, línur sem krystalla bókina öðrum fremur:

Um þrítugt hverfa allir
inn í hús
(öðru nafni fasteignir)

Maður veit ekki hvort ljóðmælandi sé að tala um sjálfa sig eða jafnaldra sína, en þetta súmmerar ágætlega upp rauða þráðinn – að vinna úr minningum og hugsa um það að eldast, strax um þrítugt.

Inni í þessum fasteignum búa enn minningar, í öðru lífi eru þau:

síung
á þessum dimma bar

Þegar á líður ber sífellt meira á óræðum söknuði – ekki endilega eftir „þér“ – heldur öllu sem tengist „þér“:

Ef ég sakna einhvers
þá sakna ég ekki þín
heldur litar og áferðar hlutanna

Minningarnar taka völdin, skáldið er hugsi yfir þessari eyju sem hún býr á, reynir að lesa í þessi ský. Hér eru einnig skemmtilegt skot á lesendur, bókum er líst sem:

(þetta sem maður raðar í hillur
til að segja: ég er þessi tegund
af intellektúal)

Tvö bestu ljóðin tengjast hins vegar áðurnefndum þemum takmarkað, en þau tengjast þó bæði baksíðuljóðinu um fólk sem hverfur inn í hús. Þau eru hlið við hlið, númer VI og VII (en það eru 25 tölusett en nafnlaus í bókinni) og fjalla minna um hús sem fasteignir, frekar sem vettvang draugagangs og drauma.

Það fyrra lýsir draumi um byggingar í ókunnum borgum, en samt kunnuglegum:

kunnuglegum borgum
með stökkbreytt hverfi
sem ég týnist í

Ég sagði vinkonu minni um daginn frá því að ég mig hefði dreymt gamla herbergið mitt um nóttina, herbergi í sömu íbúð, ég hafði bara flutt á milli herbergja. Við komumst að þeirri niðurstöðu að líklega tæki mann svona tvo mánuði að byrja að dreyma um staði sem maður hefði yfirgefið, hversu langt sem maður hefði farið. Þegar það er hins vegar heil borg sem maður yfirgefur verður landafræðin aðeins flóknari, stökkbreyttari.

Já, mig hefur nefnilega dreymt þennan draum sem lýst er í ljóði númer VI margoft – og hann virðist vera ansi algengur, fyrst ég, vinkona mín og ljóðskáldið könnumst öll við hann. Þannig eru uppáhaldsljóðin oft þau sem maður getur speglað sig í, þau sem maður kom ekki orðum að sjálfur fyrr en maður las þau í orðum annarra.

Það á líka við um næsta ljóð, hugmynd sem vitraðist mér þegar ég labbaði fram hjá blokkum í fjarska, fékk einkennilegan hroll og áttaði mig á því að draugagangur væri raunverulegur, burtséð frá allri yfirnáttúru, hann byggi einfaldlega í arkítektúrnum og áhrifum okkar á hann. Í ljóðinu er rætt um klisjuna „hús með sál“ og ýjað að því að það sé bara annað orð yfir draugagang.

hegðunarmynstur
runnin saman við veggfóðrið

Minningar annarra hafa runnið saman við okkar eigin og á endanum verða allar bækur um okkur öll, þótt ekki sé nema vegna þess að við búum í sama heimi og þetta hegðunarmynstur hefur runnið saman við skýin.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Greinin birtist upphaflega í Reykjavíkurblaðinu, en pappírsútgáfu þess má nálgast hér.