Menningarsmyglið svaf vorbókaflóðið af sér – en til þess að bæta úr því tókst okkur að gera ærlegan smyglara úr einum höfundi vorbókaflóðsins. Hann heitir Haukur Már Helgason, sem auk smyglstarfa og bókaskrifa hefur fengist við kvikmyndagerð og blaðamennsku – já, og líka iðnaðarþýðingar og námsbókagerð. Bók vorsins heitir Ó – um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru. Það eru tveir fuglar framan á kápunni, annar þeirra með svartan gogg sem myndar broddstafinn í Ó-inu. Kannski fannst honum O ekki nógu gott nafn og ákvað að breyta þessu í Ó – kannski var hann að ljúka við að húðflúra stóra svarta fuglinn með titlinum. Ég veit það ekki og höfundur gefur lítið upp.

Hvaða fuglar eru þetta á kápunni? (beðið er um bæði tegund og eiginnöfn fuglana)

Einn stór, svartur og annar smærri, rauður. Með svartan gogg. Meira veit ég ekki.

Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?

Takk fyrir að spyrja. Ég myndi biðja um Joaquin Phoenix. Með grárra hár og svolítið gisnari tanngarð – spurningin er kannski frekar hver farðar eða kýlir úr honum tennurnar en hver leikstýrir. Mér finnst sjónvarpsleikstjórar í Bandaríkjunum á síðustu árum svolítið spennandi. Til dæmis Katja Blichfeld, sem gerði þættina High Maintenance. Ég held að ég myndi treysta henni ágætlega til verksins.

Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin? Eða, búandi í útlöndum, eftirminnilegasta heimferðin?

Þegar ég var liðlega tvítugur gerðum við vinur minn samning við Námsgagnastofnun um ritun tveggja kennslubóka. Þá lenti ég í klípu því ég hafði lofað sjálfum mér að fara til Frakklands þetta sama sumar og ná betri tökum á tungumálinu. Úr varð að við dvöldum í Montpellier í heilt sumar og lögðum grunn að bókunum þar. Við vorum hræðilega iðjusamir og samviskusamir, ég held að við höfum varla varið út úr húsi nema til að kaupa í matinn. En að þetta væri hægt opnaði einhverja nýja möguleika í tilverunni. Sem ég hef meira eða minna setið fastur í síðan.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?

Einhverju eftir Ásmund Sveinsson. Einhverju stóru.

Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?

Nú síðast las ég bók um sögu fyrirtækisins Rio Tinto, sem rekur álverið í Straumsvík. Þetta er reyndar ekki saga fyrirtækisins út af fyrir sig heldur saga af fjöldamorði sem framið var gegn umhverfisverndarsinnum og verkafólki sem mótmæltu mengun af völdum starfsemi fyrirtækisins árið 1888. Þetta er við fyrstu námu fyrirtækisins, við ána Riotinto í Andalúsíu, þar sem skyggni í þorpunum féll niður í tíu metra árum saman og öll ræktun lagðist niður á 2.000 ferkílómetra svæði. Þegar mótmælendur reynast loks hafa lögin með sér var herinn sendur gegn þeim. Opinbera talan var að herinn hefði drepið 13 manns úr hópi mótmælenda á aðaltorgi bæjarins Minas de Riotinto, en í dag telja sagnfræðingar að tala látinna hafi verið nær tvö hundruð. Námufyrirtækið hafi aftur á móti verið vel í stakk búið til að fela líkin. Þá hafi reynst hjálplegt í tiltektinni að aðflutt verkafólk var upp til hópa óskráð hjá yfirvöldum. Höfundur bókarinnar heitir Chastagnaret. Hana mætti gjarnan þýða.

Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?

Ótakmörkuð fjárráð – veistu hvað þú ert að kalla yfir þig? Ég held að ég myndi fá liðsmenn gervigreindarfyrirtækisins DeepMind til að fóðra vélarnar sínar á kvikmyndasögunni og láta þær expanda þaðan í vikulanga dagskrá, sjá hvernig þróttmesta gervigreind samtímans sér og skilur bíó. Mér þætti það forvitnilegt.

Forvitnilegasta ljóðskáld 21. aldarinnar?

Á Íslandi var það Eiríkur Örn síðast þegar ég gáði. Og það síðasta sem greip mig annars staðar að var Hvítsvíta Athenu Farrokhzad, sem Eiríkur þýddi. En ég verð að viðurkenna að ég hef almennt ekki verið innstilltur til að lesa ljóð á síðustu árum. Það þarf einhverja tiltekna getu til þess að njóta ljóða, sem maður áttar sig ekki endilega á fyrr en maður fer á mis við hana. Ég sé ekki lengur ljóð þegar ég lít á ljóð heldur orð, í besta falli texta. Ég er ekki viss hvað það þýðir. Nú þegar ég nefni þetta hvarflar að mér að kenna samfélagsmiðlum um. Ég hef ekki verið læs á ljóð síðan við fluttum öll á Facebook.

Nú hefurðu ýmist starfað við skáldskap, kvikmyndagerð og blaðamennsku – hvernig gengur að samræma þetta?

Þú gleymir iðnaðarþýðingum. Í dag tók ég að mér gigg í iðnaðarþýðingum í fyrsta sinn í tólf ár, skjalaþýðingum þar sem er greitt fyrir hvert nýþýtt orð. Tölvukerfið sér um að fjölfalda endurteknar setningar og setningabrot, halda þeim utan talningar og þýðandanum undir skattleysismörkum. Ég held að þetta sé ótvírætt botninn á tekjuöflun kringum ritstörf. Skjalið sem ég er að þýða er kæruskjal til íslenskra foreldra sem teljast brjóta þýsk skattalög með því að flytjast búferlum án þess að tilkynna það þartilbærum yfirvöldum, og hirða þarmeð óréttmætar barnabætur. Karmískt mun þessi liðveisla mín áreiðanlega kosta mig meira en ég fæ greitt fyrir nýþýddu orðin. Síðast skrapaði ég þennan botn einmitt þegar ég var nýbúinn að gefa út skáldsögu, eins og núna. Það var líka rétt áður brast á með Facebook. Kannski er ég að ljúka einhvers konar hringferð og verð þá bráðum læs á ljóð aftur.

Hvaða kennari hafði áhrif?

 Gérard Lemarquis. Ég veit ekki hvernig maður festir fingur á hvað það er. Hann var góður frönskukennari, auðvitað, jafnvel framúrskarandi, og fór langt út fyrir orðabækur og málfræði í þeirri kennslu. En það sem hann færði nemendum umfram það var að vera til staðar sem manneskja – hvernig kemur maður orðum að þessu án þess að það verði væmið? Kannski finnst mér ég sjálfur og margir í kringum mig ekki okkúpera eigin líkama nema að takmörkuðu leyti, en hann hefði numið land í sjálfum sér fram í fingurgóma. Kannski er það það að vera militant, í ákveðnum skilningi. Einhvern tíma minntist nemandi á Front National í tíma og umsvifalaust fórnaði Gérard höndum, gretti sig og sagði: Le Pen, hann er ógeðslegur! Ég hef aldrei átt annan kennara sem hefði verið fær um þessa einföldu en skýru, afdráttarlausu og mikilvægu tjáningu. Og ég er enn að læra af því.

Hvar er draumurinn?

Það bendir allt til að hann sé einhvers staðar í símanum.

Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?

Heyrðu, ég lenti í þessu. Ljósmyndari var látinn taka mynd af mér og bað mig að stinga upp á umhverfi fyrir myndina. Ég stakk upp á náttúrugripasafni, þar sem uppstoppuð dýr eru geymd í sviðsmyndum sem eiga að líkjast náttúrulegu umhverfi þeirra. Ég veit ekki enn hvort þetta var vel valið, óttast að þetta hafi jafnvel orðið tilgerðarlegt en ég veit ekki hverju ég ætti annars að stinga upp á. Fara aftur í náttúrugripasafnið og biðja uppstoppuðu dýrin að slaka betur á í þetta sinn, vera bara þau sjálf.

Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?

Ég veit það ekki en ég veit að það að tala er svolítið óuppgötvuð listgrein. Eða svolítið vanrækt, í öllu falli. Ingibjörgn Magnadóttir var með gjörninga á síðasta áratug sem hún kallaði „að segja“. Hún flutti þá á ljóðalestrum, þar sem skáld tróðu upp með skrifaða texta og lásu þá, en hún settist í stól á sviðinu og byrjaði að tala. Eða, semsagt, segja. Fá orð, vel valin, hægt. Þessir gjörningar hafa setið í mér, það er eitthvert lykilatriði þarna.

Hver er merkilegasti maður sem þú hefur dottið í það með?

Ég hef ekki átt hádegisverð með Werner Herzog en ég hef átt hádegisverð þar sem hann sat á þarþarþarþarþarnæsta borði. Þeir Hermann Stefánsson eru annars svolítið líkir. Og ég hef drukkið bjór með Hermanni. Það er gaman, það er skemmtilegra en að borða á þarþarþarþarþarnæsta borði frá Herzog. En fyllerí, ég held að þau hafi ekki borið sitt barr frá því gamli Grand Rokk vék fyrir Sirkus, sem vék svo fyrir uppbyggingu og framförum.

Werner Herzog. Eða Hermann Stefánsson?

Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?

Ég sólundaði honum í LÍN og leigu. Ef ég átti afgang drakk ég kaffi fyrir hann og hafði áhyggjur.

Uppáhalds fugl í bókmenntasögunni?

Má segja Hábeinn heppni? Til vara fuglinn trúr sem fer með fjaðrabliki háa vegaleysu. Þessir tveir hafa annars aldrei sést á sama stað á sama tíma, sem vekur auðvitað ákveðnar spurningar.

Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?

Til er plata sem heitir This New Century með tónlistarmanni sem heitir Dan Reeder. Á þessari plötu er til dæmis lagið Beachball. Allt sem Dan Reeder lætur frá sér eru einhvers konar hækur, írónískar og stundum subbulegar hækur í formi bandarískrar þjóðlagatónlistar. Ég kann ekki að gera fyllilega grein fyrir því hvers vegna mér finnst það svona gott, en mér finnst margt af því mjög gott.

Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?

Sú síðasta sem ég man eftir var Borderline, breskir gamanþættir um landamæraverði á eymdarlegum jaðarflugvelli. Vinalegir embættisrasistar, mann langar til að knúsa úr þeim allt óyndið.

Skemmtilegasta kvikmyndahátíð sem þú hefur farið á?

Mér finnast kvikmyndahátíðir yfirleitt kvíðavaldandi. Kannski vegna þess að þær eru bundnar í stundatöflu, eins og skóli á skólaskyldualdri. Ég sótti einu sinni litla kvikmyndahátíð sem haldin var á bar, það var opið frá barnum inn í bíósalinn og fólk ráfaði þar á milli að vild með mat, drykk, tóbak og annað eftir hentisemi. Það þótti mér gott fyrirkomulag. Það er líka einhver sadismi í því að leyfa fullorðnu fólki ekki að hafa eitrið sitt þegar það á að heita að það sé komið til að njóta. Það er ekki gaman að fallast á þess háttar skorður og ekki alveg mannsæmandi.

Uppáhaldsorðið þitt?

Ég hef átt í smá vandræðum með að velja nafn á bloggið mitt. Síðast datt ég á Barbarí. Í fyrsta lagi er gaman að bera orðið fram. Í öðru lagi hefur merking þess hlaupið um: fyrst notuðu Rómverjar það yfir okkur, barbarana í norðri, síðan brúkaði norðrið það um Arabana í suðri. Loks notuðu sósíalistar það um kapítalið – en nú notar það enginn. Ég leit á Google Ngram Viewer til að tékka, fyrst ég fullyrði þetta, og það er hér um bil satt: hugtökin barbarism og barbarity náðu hátindi í útbreiðslu innan bóka upp úr miðri 18. öld, en hnignar síðan þá, afgerandi frá um 1900 og hafa nú varla verið í notkun frá því um 1974. Það er freistandi að hafa það til marks um að nú séum við öll í barbaríinu, en það væru gífuryrði.

Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?

Góðir hedfónar eru vottur um mildi heimsins, eins og regnvatn, bláber, bananar og kaffi.

Þú færð að gera bíómynd erlendis, hvar sem er nema á Íslandi, hvar og hvers vegna?

Í Bandaríkjunum. Maður á ekki að rökstyðja langanir sínar, sagði frægur Frakki.

Spurning frá Kristínu Svövu, síðasta smyglara: Hver er munurinn á klámi og erótík?

Klám er bannað.

Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?

Hvort landið telurðu að reki harðari stefnu gegn aðkomufólki, Ísland eða Bandaríkin?

Að lokum: Ættirðu ekki að vera farinn að sofa? Þarftu ekki að vakna í fyrramálið?

Jú, ég ætti að vera löngu farinn að sofa. Ég þarf að vakna í fyrramálið.