Þóra Hjörleifsdóttir gaf út skáldsöguna Kviku síðasta vor og hefur auk þess gefið út með skáldahópnum Svikaskáldum. Hún er smyglari vikunnar, enda smygl og svik náskyldar listgreinar. Það var Saga Sig sem tók meðfylgjandi mynd af Þóru, en við ákváðum að spyrja hana fyrst um sviknu orðin.
Þú ert meðlimur í Svikaskáldum – hverjir eru kostirnir og gallarnir við að vinna með öðrum skáldum?
Kostirnir eru ótalmargir, fyrir það fyrsta þá er kona ekki bara alltaf ein heima á náttbuxunum þegar hún tilheyrir kollektívi. En Svikaskáld er auk þess alveg einstakur hópur, þetta eru allt hæfileikaríkar stelpukonur sem ég lít ótrúlega mikið upp til og það er frábært að hafa svona sterkt bakland til að fagna sigrum og viðra efasemdirnar. Við höfum gefið út tvær bækur saman og sú þriðja, Nú sker ég netin mín, kemur út 19. september. Ég finn í sjálfu sér ekki neina galla á þessu samstarfi, þó að lýðræði geti auðvitað stundum verið tímafrek bestía.
Og í framhaldinu, eruð þið duglegar að svíkja?
Já við svíkjumst um daginn út og inn. Þegar við stofnuðum Svikaskáld vorum við allar þjakaðar af svikaraheilkenni á háu stigi. Það var vorið 2017, þá þorði ég ekki að kalla mig skáld, mér fannst ég ekki getað skrifað neitt af viti og var alltaf að bíða eftir að einhver myndi löðrunga mig og segja mér að hætta þessu föndri. Með hverri útgefinni bók, fjarlægist ég að einhverju leiti þessa loddaralíðan þó að hún kraumi svo sem alltaf líka á lágum hita í undirmeðvitundinni.
Kvika hefur stundum verið nefnd í tengslum við #metoo. Hvernig finnst þér sú bylting hafa þróast – og hvernig sérðu fyrir þér framtíð hennar?
Ég bið til gyðjunnar að þetta sé ekki bara bylgja, að það sé í alvörunni að hrikta í stoðkerfi feðraveldissins. Það væri náttúrulega óskandi að konur og allt fólk gæti um frjálst höfuð strokið og lifað sínu besta lífi án þess að vera áreitt eða beitt ofbeldi.

Hver leikstýrir ævisögunni, hver skrifar handritið og hver leikur aðalhlutverkið?
Ég sé fyrir mér að ævisagan byrji sem íslensk stórmynd, leikstýrð af Katrínu Björgvinsdóttur, ég myndi sjálf skrifa handritið og Steiney Skúladóttir og Halldóra Geirharðsdóttir myndu leika unga og fullorðna mig. Þetta yrði svona þroskasaga villikellingar á landamærum skáldskapar og raunveruleikans. Síðan yrði gerð amerísk endurgerð sem Greta Gerwig myndi leikstýra og Jemima Kirke myndi leika mig.
Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?
Ég fór með mömmu minni til Suður Afríku fyrir nokkrum árum, það var virkilega eftirminnileg ferð. Ég leigði bíl og keyrði um í Afrískri vinstriumferð, tók það á algjörri gaurahörku, horfði á youtube myndbönd á kvöldin um hvernig kona keyrir inn í hringtorg og reyndi að ofhugsa þetta ekki. Við mamma fórum í stórfenglegar fjallgöngur, borðuðum gúrm mat og lentum í alls konar skemmtilegum ævintýrum. Einn daginn, meðan mamma var á ráðstefnu, villtist ég óvart inn á svæði þar sem ríktu borgaróeirðir, trjádrumbar og dekk voru brennd á götunni, skothvellir heyrðust í fjarska og allt var í rugli, ég sagði engum frá þessu fyrr en eftir að við komum heim.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?
Ég held að væri bara Kvika, fyrst var ég að spá í að smygla einhverri rosa verðmætri list, eins og öllum verkum DaVincis eða eitthvað, sem fólk gæti valið hvort það myndi vilja eiga eða kassa inn. En líklega myndu verkin tapa verðgildi sínu að einhverju leyti og þá væri bara gott að eiga góða bók.
Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?
Ég veit það ekki, ég las Educated eftir Töru Westover í sumar, það er mjög flott minningabók þar sem hún segir frá því þegar hún ólst upp í fjöllunum í Idaho hjá fjölskyldu sem vantreystir ríkisstjórninni, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu algjörlega og er að undirbúa sig fyrir yfirvofandi heimsenda.

Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?
Hér væri ég ekki í styrkleikum mínum, ég myndi líklega útvista þessu verkefni og ráða til mín fólkið sem rekur Bíó Paradís, mér finnst þau vera að gera góða hluti.
Nú kláraðirðu MA í ritlist í HÍ – hvaða áhrif hafði það á þig sem skáld?
Ég myndi líklega ekki kalla mig skáld ef ég hefði ekki farið í þetta nám, væri ennþá bara í felum ofan í skúffu. Það var ótrúlega gaman og spennandi að fá tækifæri til að máta og spreyta mig á ólíkum tegundum skrifa t.d leikrit, smásögur, kvikmyndahandrit og ljóð hjá þungaviktar kennurum. Einnig er ég virkilega þakklát fyrir alla þá frábæru vini sem ég eignaðist í náminu.
Bækur verða bannaðar og þú þarft að skipta um listgrein – hvað heillar þá mest?
Mér þætti mjög spennandi að skrifa leikrit, ef það er of skylt bókunum held ég að ég myndi bara vera kennari sem hvílir sig á kvöldin og um helgar.
Forvitnilegasta ljóðskáld 21 aldarinnar?
Vá, ég veit það ekki. Ég er náttúrulega mjög svag fyrir vinkonum mínum í Svikaskáldum: Fríðu Ísberg, Melkorku Ólafsdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Sunnu Dís Másdóttur og Þórdísi Helgadóttur. Ég sæki mikinn innblástur til þeirra, og finnst þær sjúklega flinkar og áhugaverðar. En við erum kannski ekki komin nógu langt inn í 21. öldina til að fara að útnefna áhugaverðasta skáldið.
Hvaða kennari hafði áhrif?
Þorvaldur Þorsteinsson, þegar ég var snemmtvítug var ég í svakalegu basli með sjálfa mig, mér fannst ég vera búin að klúðra lífi mínu, vissi ekki hvað ég vildi verða og var í mikilli sjálfsmyndarkreppu. Mamma sendi mig á námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi, eftir að hann hafði lesið nokkra texta tók hann mig á eintal og sagði mér að sleppa öllu lauslegu, hætta hverju sem ég væri að fást við og einbeita mér að því að skrifa.
Ég gerði það náttúrulega ekki þá, en þetta invervention hans breytti lífi mínu og varpaði ljósi á eitthvað sem var mér áður hulið. Ég ætlaði alltaf að hafa uppi á honum, segja honum hvað þetta stutta námskeið olli miklum straumhvörfum og hjálpuðu mér upp af þeim botni sem ég var á þegar ég dröslaðist til hans, en náði því ekki áður en hann féll sviplega frá. Þetta hefur allavega kennt mér að koma orðum á þakklæti mitt í garð annars fólks en ekki salta það. Aðrir kennarar sem hafa líka haft mjög mikil áhrif á mig eru Sigurður Pálsson og Hlín Agnarsdóttir.

Ef þú ynnir sem skólabókavörður, hvaða bókum myndirðu helst lauma að börnunum?
Það vill svo til að ég vinn sem íslenskukennari á unglingastigi í grunnskóla í Garðabæ, þar held ég bókum grimmt að krökkunum. Laxdæla er uppáhalds Íslendingasagan mín og ég elska að kenna hana. En sem yndilestrarbækur myndi ég halda að þeim Glæpi við fæðingu eftir Trevor Noah, Eylandi eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Kláða eftir Fríðu Ísberg, Keisaramörgæsum eftir Þórdísi Helgadóttur og svo er bara um að gera að byrja að lesa Auði Övu og Guðrúnu Evu Mínervudóttur sem fyrst.
Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun: að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?
Ég er í fyrirfram ákveðnu deildinni, ég hef ekki trú á að fólk geri mistök, heldur að það sé á vegferð sem er ekki okkar að sjá fyrir. Allavega finnst mér ég hafa vaxið hvað mest og teygt á mér í kjölfar þess að koma mér í einhverjar ömurlegar aðstæður og tekið órökréttar ákvarðarnir. Við verðum bara að reyna að sýna sjálfum okkur og fólkinu okkar gæsku og skilning og flæða áfram.
Hvar er draumurinn?
Gvuð, ég veit það ekki, er allt of langt leidd í brauðstritinu til að geta svarað því. Þú lætur mig vita ef þú finnur hann.
Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?
Við hafið.
Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?
Ég veit ekki hvort það sé frábært að tala um fólk sem óuppgötvaða listamenn, en ég er rosalega spennt fyrir þremur ljóðabókum sem Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Melkorka Ólafsdóttir gefa út hjá Svikaskáldum og Brynja Hjálmsdóttir hjá Unu útgáfuhúsi í haust. Ég var svo heppin að fá að lesa handritin að þessum bókum og þetta eru algjörar neglur.
Hver er merkilegasta manneskja sem þú hefur dottið í það með?
Jón Kalman Stefánsson.
Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?
Ég keypti mér rándýrt rafhjól og fullt af sálfræðitímum, æviáskrift.
Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?
Ég vil að lesendur hlusti á Band On The Run á með Wings, bara þetta lag. Það er í lengri kantinum og er í sjálfu sér frekar fjölbreytt, það ætti alveg að geta komið í staðinn fyrir heila plötu. Ef lesendur ná ekki að lesa allt á meðan lagið spilast, vil ég að þeir setji það bara á repeat. Þetta er geggjað lag. Paul McCartney er alveg klárlega uppáhalds bítillinn minn (án þess að níða skóinn af hinum). Mér finnst svo magnað að hann hafi haldið áfram að þroskast, prófa, skapa og semja þó að tónlistinni hans hafi ekki alltaf verið vel tekið, aðallega af því að hún var ekki eins og dótið sem hann gerði þegar hann var tvítugur. Mér finnst aðdáunarvert að velja að staðna ekki og hafa hugrekki til að vaxa sem listamaður.
Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?
Ég horfði á When They See Us og Opruh þáttinn sem fylgdi með seríunni í einni lotu og grenjaði alveg svakalega mikið. Þessi saga er búin að sitja ekkert smá í mér í sumar.
Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?
Hamfarahlýnun af mannavöldum. Steinunn Sigurðardóttir hélt svo magnaða ræðu á bókmenntahátíð í Reykjavík í vor þar sem hún talaði um áhrif orða m.a. í umræðunni um umhverfisvána, að það sé of léttvægt að tala um hlýnun jarðar, eins og það sé einhver mildur júlídagur framundan. Ég er henni svo innilega sammála.
Hvað er skemmtilegast og leiðinlegast við að gefa út bók?
Mér dettur ekki neitt leiðinlegt í hug við að gefa út bækur, það er eiginlega leiðinlegast að koma bókum ekki út, að láta verk sem skipta listamanninn máli rotna inni.
Uppáhaldsorðið þitt?
Gluggi.
Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?
Þegar maður er að kynnast nýjum manneskjum og þær deila með manni lögum sem þær fíla og hvaða hugrenningarengl tónlistin skapar hjá þeim, þegar maður á svona innilegt móment í virkri hlustun, helst seint að kvöldi, eftir miðnætti. Annars er líka fátt betra en að blasta Bubba á þjóðveginum.
Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?
Hvort ertu hrifnari af Will Smith sem tónlistarmanni eða leikara?