Hvernig skiptum við tímanum niður? Í aldir, áratugi, ár, mánuði, vikur, daga, klukkutíma, mínútur, sekúndur – eða í mismunandi þáttaraðir af Stranger Things?

Ég skal viðurkenna að mér fannst fyrstu tvær seríurnar vera fyrst og fremst alhliða eitís-nostalgía, og ártölin 1983 og 1984 skiptu kannski ekki höfuðmáli. En svo brestur á með þriðju seríu og árinu 1985 og maður sér skýrt hvernig er hægt að skipta áratugnum í (að minnsta kosti) tvo hluta. Fyrst er það snemm-eitís, þar sem seventísdrunginn er hægt og rólega að dofna, áratugurinn byrjaði í jarðlitunum og færðist yfir í glimmerið og árið 1985 er léttúð eitísins tekin við af fullu.

Þannig virðast þættirnir vera að þróast í þá átt að hver ný sería er hreinlega stúdía á einu ákveðnu ári og tísku þess og litbrigðum. Sögusviðið er ennþá sami litli bærinn en hann er þó gjörbreyttur – af því þangað er komin verslunarmiðstöð sem er þegar orðin miðlæg í öllu lífi bæjarbúa. Kapítalisminn hefur tekið risastökk í Hawkins og sakleysi æskuáranna er fyrir bý, enda flestar aðalpersónurnar að verða unglingar, og nostalgían sem dreif fyrstu tvær seríurnar áfram er núna orðin þeirra eigin nostalgía  eftir nýliðinni fortíð.

Sérstaklega hjá Will, sem mögulega situr aðeins eftir í þroska eftir langa dvöl í handanheimi skrímslisins – og guð má vita hvaða áhrif það hefur á tímaskynið – en hann vill helst bara halda áfram að spila Dungeons & Dragons eins og árið sé ennþá 1983, á meðan vinirnir eru of uppteknir við að eltast við stelpur til að hafa tíma fyrir slíkt.

Fyrst hélt maður kannski að Will væri samkynhneigða persónan, sem var búið að tilkynna fyrir frumsýningu, og það er svo sem ekki útilokað að hann geti orðið samkynhneigð persóna númer tvö í næstu seríu – en í gegnum hann áttar maður sig kannski frekar á hvernig það litar seríuna að það eru tvíburar, Duffer-bræðurnir, sem skapa seríuna og ef maður hugsar til baka þá var eiginlega meira eins og strákarnir fjórir bókstaflega byggju saman heldur en að þeir væru vinir – og núna, þegar vinirnir tvístrast meira með árunum, þá upplifum við aðskilnaðarkvíða tvíburanna sem alltaf hafa verið saman öllum stundum.

Tímavilltar persónur í síbreytilegum heimi

Þessi nálgun á hin ólíku ár er forvitnileg og býður upp á ýmsa forvitnilega möguleika. En hún er þó um margt gölluð, raunar fannst mér fyrsti þátturinn svo svakalega lélegur að ég vissi hreinlega ekki hvort ég ætti að nenna þessu, en þetta batnar, hægt og örugglega. Vandi nálgunarinnar er að stökkið er of mikið, aðallega af því þetta eru ennþá sömu persónurnar að mestu leyti. Þetta sleppur kannski með unglingana sem fyrir 1-2 seríum voru börn, það er jú ekki óeðlilegt að á þeim sjáist drastískar breytingar – en versta fórnarlamb seríunnar er Hopper lögregluþjónn, sem er jú rækilega miðaldra. Hann var lágstemmdur, tragískur og eiginlega dálítið frábær persóna í fyrstu tveimur seríunum, leikinn af miklu næmni af David Harbour. Í millitíðinni lék hann svo í einni skelfilegri Hellboy endurgerð og hvort sem það er ástæðan eða breyttar áherslur þáttanna þá hefur hann skyndilega breyst úr tragískri en ljóðrænni smábæjarlöggu yfir í ofurdramatískt yfirvaraskegg. Eins og Gene Hackman væri skyndilega andsetinn af Burt Reynolds.

Mig grunar nefnilega að heimurinn breytist oft hraðar en einstaklingarnir. Þess vegna erum við mörg oft passlega tímavillt inná milli, ein persóna finnur að hennar tími er komin á meðan önnur finnur að hennar tími er liðin – og sú þriðja bíður eftir að hennar tími komi. Svo er bara komin þreyta í margar persónurnar, það er búið að segja allar bestu sögurnar um flest þeirra – og það er líklega þess vegna sem Maya Hawke sem Robin er stjarna seríunnar, hún er þetta ferska blóð sem serían þurfti – en þurfti bara meira af. Hennar saga er ný og fersk og óútreiknanleg.

Það er líka komin þreyta í eitísið sjálft – bræðurnir eru einfaldlega búnir að nota flestar uppáhalds eitísvísanirnar sínar og núna eru þeir að spila b-hliðarnar að mestu. Rússneski skúrkurinn Grigori er þó vissulega skemmtileg blanda af Tortímanda Schwarzenegger og Dolph Lundgren í fjórðu Rocky-myndinni og Never Ending Story atriðið er skemmtilegt, þótt það sé dálítið út úr kú – sem er kannski ákveðin eitísvísun, það að stoppa söguna upp úr þurru til þess að koma að lagi sem hefur sáralítið með plottið að gera er eitthvað sem var mjög móðins þá.

Vondir Rússar og skrímslið sem þeir vilja temja


Svo eru það vondu Rússarnir. Rússar sem eintóna vondu kallar er vissulega mjög eitís, en dæmi um eitís sem virkar bara ekki lengur, og ég man raunar að ég var ekkert heldur að kaupa það almennilega þegar ég var tíu ára að horfa á bannaðar hasarmyndir. Fyrir utan að Rússarnir hefðu væntanlega sent færari enskumenn til þess að standa að leynilegum aðgerðum í Bandaríkjunum, þar sem þeir þurfa jú væntanlega að reyna að falla í fjöldan. Þarna misstu Duffer-bræðurnir af prýðilegu tækifæri til þess að snúa upp á mýturnar og hefðina – og má svosem ennþá vona að það tækifæri verði nýtt í næstu seríu, sem gerist væntanlega einmitt á sjálfu Chernobyl-árinu – og ég bæði vona og óttast að þeir tengi þann viðburð við seríuna.

Þættirnir eru ennþá þrælskemmtilegir – þótt þeir séu langt frá sömu meistaraverkin og fyrsta serían var, það er einfaldlega það mikið bensín eftir á tanknum ennþá. Það er líka eitt sem hefur batnað til muna þótt persónusköpunin hafi versnað. Og það er skrímslið. Maður hummaði ósannfærandi skrímslið fram af sér í fyrstu seríunni, þar var það dæmigerður McGuffin til að halda atburðarásinni gangandi, en bjó ekki yfir mikilli dýpt. Skrímslið fór hins vegar að verða athyglisverðara í næstu seríu og er nú loks orðin afskaplega heillandi karakter, búið að gera ýmsar manneskjur af hýslum og er í hefndarhug. Óhugurinn þegar skrímslið í líkama sólstrandargæja bæjarins hótar krökkunum er til dæmis langsamlega óhugnanlegasta atriði þáttanna til þessa. Og miðað við færnina sem það hefur náð í að andsetja manneskjur verða kannski bara skrímsli eftir í fjórðu þáttaröðinni.

E.S.: Hér er svo umfjöllun Menningarsmygls um fyrstu seríuna.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson