Við ætlum að leggjast í landafundi um lendur myndasögunnar næstu vikurnar og skoða mannkynssögu síðustu 250 ára eða svo í gegnum nokkrar vel valdar myndasögur. Og við byrjum bókstaflega á landafundum sjálfum, á leitinni að Suðurálfu.
Ástralía var einu sinni hulduland, óþekkt sunnanland. Meira en þúsund árum áður en vestrænir menn fundu Ástralíu voru uppi hugmyndir um að það hlyti að vera heimsálfa á suðurhveli sem jafnaðist á við allan landmassann á norðurhveli – og þá álfu kölluðu menn Terra Australis Incognito. Eftir að Ástralía loks fannst var hún vitaskuld ekki eins og sú álfa sem menn höfðu ímyndað sér, menn leituðu enn að suðurálfu – og fundu að lokum Suðurskautslandið, en nafnið Ástralía festist þó á endanum við álfuna sem James Cook fann árið 1770.
Cook er þegar kominn í sögubækurnar þegar myndasagan Terra Australis eftir Frakkana LF Bollée og Philippe Nicloux hefst. Ástralía hefur verið uppgötvuð og færð á landakortið, en hvíti maðurinn hefur þó ekki enn numið þar land.
Hugmynd Breta um fanganýlendur kviknar
En það eru viðsjárverðir tímar í gamla heiminum. Bretland og Frakkland eru stórveldi í krafti nýlenduveldis síns en samt er örbirgðin alltumlykjandi heimavið, í París jafnt sem London. Yfirvöld voru refsiglöð og í Bretlandi voru öll fangelsi stútfull, enda fengu menn margra ára fangelsisdóma fyrir smáþjófnað. Eymdin virðist algjör og svipaðar aðstæður hinum megin Ermasundsins áttu eftir að leiða til frönsku byltingarinnar fáeinum árum síðar. En tveimur árum fyrir þá byltingu fengu bresk yfirvöld snilldarhugmynd.
Nei, vitaskuld ekki að róa sig í refsigleðinni, taka upp manneskjulegra stjórnarfar og náða jafnvel einhverja fanga. Auðvitað ekki. Snilldarhugmynd breskra yfirvalda var að búa bara til fanganýlendu hinum megin á hnettinum.
Draugar vestrænna höfuðborga
Ein helsta ástæða þess að Bretana vantaði nýja nýlendu var sú að örfáum árum áður unnu Bandaríkin frelsisstríð sitt gegn Bretum. Í því stríði höfðu Bretar veitt ótal svörtum þrælum frelsi með því skilyrði að þeir berðust með Bretum í stríðinu – og þegar Bretar töpuðu hröktust þeir svo með þeim til gamla heimsins. Sem frjálsir menn en dæmdir til örbirgðar, sem kostar menn frelsið ansi fljótt. Eða eins og einn þeirra orðar örlög þeirra; „Við negrarnir, fyrrum þrælarnir, hinir gleymdu hermenn byltinga, draugar vestrænna höfuðborga.“

Þannig mælist tröllinu Ceasar sem tekur kornungan strák, John Hudson, undir sinn verndarvæng í bresku fangelsi. Stráksi var ekki nema níu ára gamall þegar hann var dæmdur til sjö ára fangavistar fyrir að stela tveimur smástyttum þegar hann átti að vera að þrífa stromp eins heldri mannsins. Báðir eru þeir svo á fyrsta skipsflotanum til Ástralíu, sem Arthur Phillips stýrir, ásamt áhöfn og þúsundum fanga.
Villimennska og hengingar
Saman sigla þeir fram hjá landi Van Diemens, sem seinna varð Tasmanía, og enda að lokum í fanganýlendunni sem seinna varð Sidney. Á leiðinni stoppa þeir meðal annars í Ríó de Janeiro og heyra þegar þrælaskip siglir fram hjá og þrælarnir syngja sorgarsöngva sem eyðileggja fyllerí hjá bleiknefjum á leið til Ástralíu. Óþægilegur raunveruleikinn eyðileggur gott partí fyrir sjóurunum það kvöldið.
Þetta er langur bálkur, heilar 500 síður, og þeir komast ekki til Ástralíu fyrr en undir lokin. Þar kynnast þeir Bennelong, frumbyggja sem þeir kenna ensku, frumbyggja sem sér framtíðina, sér villimennsku hvíta mannsins þegar maður er hengdur og fær vægt áfall við eitthvað sem þótti á þessum tíma hversdagsleg sjón á götum Lundúna.
Það er svo vitaskuld alvitur kengúra sem segir söguna, sem að öðru leyti er afskaplega realísk, og framhaldið er þegar komið út á frönsku undir heitinu Terra Doloris, en Terra Australis er þegar fáanleg á ensku.

Að leita rótanna
Nú er hins vegar löngu búið að kortleggja gervallan hnöttinn – og hverju getur þá nútímafólk leitað að? Jú, það getur leitað að sjálfu sér og sú leit verður ekki síður leit að rótunum, upprunanum, fyrir allan þann fjölda sem nýlendustefna og landafundir fyrri alda skoluðu upp á erlendar fjörur fjarri hinu goðsagnakennda heimalandi forfeðranna, hvort sem það er England, Kína eða Afríka.
Við skulum fara næst nyrst í Afríku, til Alsír. Þaðan komu forfeður Oliviu Burton, sögumanns okkar í hinni sjálfsævisögulegu myndasögu Algeria is Beautiful Like America, Alsír er falleg eins og Ameríka. Titillinn er dálítið skringilegur í ljósi þess að hér eru engar amerískar aðalpersónur. Olivia er frönsk en forfeður hennar dásama gamla heimalandið, Alsír, við hvert tækifæri. Þegar hún finnur svo gamlar dagbækur látinnar ömmu sinnar heldur hún til Alsír að grafast fyrir um fortíð sína. Nema hvað, þótt ræturnar séu í Alsír er hún ekki arabi, fjölskyldan var það sem kallað var svartfætlingar, pied-noir, Frakkar sem höfðu numið land í Alsír en snéru svo til baka í kringum frelsisstríðið sem frumbyggjar Alsír unnu.
Öfugsnúin örlög
Fjölskylda Oliviu hafði búið í Alsír í nokkrar kynslóðir og þetta var orðið þeirra föðurland. En þau voru nýlenduherrar með ýmislegt á samviskunni og það er ekki fyrr en Olivia kemst til vits og ára sem hún áttar sig betur á því, enda fær hún framan af aðeins ritskoðaða og hlutdræga útgáfu forfeðranna af fjölskyldusögunni.

En þótt hún finni sögubækur sem rekja glæpi Frakka í Alsír þá er hún ennþá ansi ringluð varðandi þátt hennar eigin fjölskyldu í þeirri sögu allri, hvort hún hafi verið réttum megin í mannkynssögunni. Þau voru að flýja sára fátækt heima fyrir, eins og stór hluti evrópskra landnema í öllum nýjum heimum, og í þetta vísar titilinn; Alsír var nýji heimurinn fyrir kynslóð Frakka rétt eins og Ameríka var nýji heimurinn fyrir stóran hluta Evrópu. Aurés-hásléttan þar sem fjölskylda hennar bjó, fjarri höfuðborginni Algeirsborg, minnir um margt á hrjóstrugt Villta vestrið. Þannig að Olivia ferðast til Alsír og þótt vísbendingarnar um dvöl fjölskyldu hennar þar séu fábrotnar þá lærir hún ýmislegt um það föðurland sem öfugsnúin örlögin ásköpuðu henni.
Að lokum er svo rétt að bregða sér snöggvast til Ameríku sjálfrar og fara úr ævisögulegu og sögulegu nálguninni yfir í skáldskapinn. American Born Chinese eftir Gene Luen Yang segir okkur þrjár sögur sem framan af virðast lítið tengjast. Söguna af apakonunginum fræga úr kínverskum þjóðsögum, söguna af Jin Wang, ungum strák úr Kínahverfi San Fransisco sem flyur í nánast al-hvítt hverfi, og svo söguna af Danny, hvítum strák sem af einhverjum dularfullum ástæðum á kínverskan frænda, Chin-Kee, sem er hin versta plága og eyðileggur iðullega allt fyrir greyið Danny.
Hinn asíski krakkinn í bekknum
Sagan af Jin Wang er miðlægust, enda sú eina sem virðist beintengd raunveruleikanum. Jin Wang er að fá hvolpavitið, með öllu því drama sem því fylgir, en ofan á það bætist allt það drama sem fylgir því að vera einn af örfáum asísk-ættuðum krökkum í skólanum. Kennararnir bera nöfnin þeirra alltaf vitlaust fram og fordómarnir koma líka innan frá. Það er bara einn annar asískur krakki í bekknum, hin japansk-ættaða Suzy Nakamura, sem er kynnt til sögunnar með þessum orðum:
„Þegar bekkurinn loksins áttaði sig á því að við vorum ekki skyld fór orðrómur af stað um að þegar hafi verið samið um að við myndum giftast á þrettánda afmælisdegi Suzy. Við forðuðumst hvort annað eins og við mögulega gátum.“

Seinna meir neitar hann vinarumleitunum nýja stráksins í skólanum, Wei-Chen, og kallar hann FOB – fresh off the boat. Nýstiginn af skipinu. Það er nefnilega stigveldi á meðal innflytjenda líka, fyrsta kynslóðin er alltaf undirsett. En á endanum verða þeir vinir, bæði af því báðir eru vinalausir og líka af því Wei-Chen á geðveikt töff kínverska útgáfu af Transformers kalli, en Transformers og merking þeirra fær meiri dýpt í þessari bók en í nokkurri Hollywood-mynd um þessi skrítnu leikföng.

Hinar sögurnar tvær eru forvitnilegar táknsögur, útlegging á tvenns konar mýtum. Annars vegar er Apakonungurinn dæmi um mýtur og sagnaarf Kínverska föðurlandsins og svo er frændinn óþolandi í þriðju sögunni holdgervingur allra rasísku staðalmyndanna sem Ameríkanar hafa búið til um Kínverja, gulu hættuna. Framan af virðast hinar sögurnar tvær þó aðeins spegla sögu Jin, en þær gera miklu meira en það og eru lykilinn af hans eigin brotnu sjálfsmynd. Landakortið sem gerir honum fært að finna sitt goðsagnakennda heimaland, á sinn hátt.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni á Rás 1 þann 14. september 2019.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson