Þetta byrjaði allt með Bretum að drekka te. Með löngu gleymdum breskum lávarði, Balfour lávarði. Fyrir rúmum hundrað árum ákvað hann að skrifa upp á viljayfirlýsingu um að gyðingar gætu snúið aftur til Palestínu. Yfir tedrykkjunni sagði Balfour eftirfarandi:

„Zíónismi, hvort sem hann er góður eða slæmur, á rætur í aldagamalli hefð, í þörfum nútímans og vonum framtíðar, og skiptir því miklu meira máli en vonir og væntingar 700 þúsund araba sem nú búa á þessu forna landi. Við stingum ekki einu sinni upp á því að ráðgast við núverandi íbúa landsins.“

Hann er að minnsta kosti að drekka te þegar hann segir þetta í upprifjun í bók Joe Sacco um Palestínu, sem heitir einfaldlega Palestine. Sacco er frumkvöðull í myndasögufréttamennsku og enn þá sá langbesti í þeim bransa, hefur sent frá sér magnaðar bækur um bæði ástandið á Vesturbakkanum sem og um Júgóslavíustríðin á tíunda áratug síðari aldar – sem ég fjallaði um í gömlum Talblöðruþætti fyrir fáeinum árum.

Talandi um talblöðrur, Sacco liggur mikið á hjarta og talblöðrurnar eru lifandi, rekast á, keppast um að hafa orðið. Enda er Palestine margradda bók, hér eru margir sem þurfa að segja sína harmsögu – þegar hinum þöglu er gefin rödd þá kemur nefnilega í ljós að þeir hafa nægu frá að segja.

Valdaójafnvægið sett í samhengi

Það eru ótal sögur af lögregluofbeldi og fangelsisdvöl, það þykir beinlínis óvenjulegt meðal palestínsku karlanna sem hann talar við að hafa aldrei farið í fangelsi. Jafnvel tólf ára strákar eru sendir í fangelsi í nokkra mánuði.

Einföld straðreynd á einum stað í bókinni setur valdaójafnvægið í ágætis samhengi. Þar kemur fram að landnemarnir hafi drepið 42 manns, það hafi ekki kostað nema 5 réttarhöld og harðasti dómurinn var þrjú ár. Hins vegar höfðu Palestínumenn drepið 17 manns á sama tíma, níu þeirra náðust og af þeim fengu sex þeirra lífstíðarfangelsi, einn tuttugu ára og það var enn þá verið að rétta yfir hinum tveimur þegar bókin var skrifuð. Þá eru þeir ekki einu sinni öruggir á spítala, ef þeir á annað borð komast þangað, því þar eru sífellt hermenn að ónáða.

Afmennskunarhlutverk herþjónustunnar

Landnemarnir svokölluðu eru vel að merkja nýir landnemar – enda flestallir Ísraelsmenn í raun landnemar, þótt það séu mögulega nokkrir áratugir síðan. Þeir sem eru hins vegar kallaðir landnemar eru nýbúarnir sem eru að byggja sér hús á svæðum Palestínumanna. Þeir fá alls kyns skattaívilnanir og ódýrari íbúðir og aðra efnahagslega hvata, allt kerfið er ávallt þeim í hag og þeir fá nánast frítt spil fyrir frekju og yfirgang – og þetta þýðir oft í praxís að landnemarnir eru ýmist fátækir Ísraelsmenn, sem geta níðst á enn fátækari Palestínumönnum, eða bara Ísraelsmenn sem fá þarna auðvelda útrás fyrir eigin árásargirni. Herþjónustan sem nánast allir Ísraelar þurfa að sinna gegnir líka afmennskunarhlutverki, þeir sjá Palestínumenn í fjarska, jafnvel í fangelsunum, við skelfilegar aðstæður, oft dýrslegar.

Sacco hins vegar sest niður með Palestínumönnunum, drekkur heil ógrynni af tei, mér er til efs um að meira te hafi verið drukkið í öðrum myndasögum, rækilega sykrað – og hlustar. Það er hans stærsti hæfileiki sem höfundar, að hlusta. Finna fólk, öðlast traust þeirra, og leyfa því að tala. Segja sína sögu. Þessar sögur rekast oft á, eru skelfilegar, óþægilegar, byggja upp heildarmynd sem stöku sögur rústa svo.

Hvað mótar þetta fólk?

Palestínumenn sögunnar eru alls engir englar. Það er mikið hatur á Ísrael, sem sannarlega er þó skiljanlegt, og þeir koma oft illa fram við konur. En, það er samt þetta en. Þetta svakalega valdaójafnvægi sem Sacco lýsir ágætlega þegar honum verður starsýnt á ungan strák í rigningu, sem hermaður gnæfir yfir. Hann veltir fyrir sér: „Hvað hugsar hann?“ Þegar annar þeirra hefur öll völdin og hinn engin völd – og mun aldrei hafa – hvað hugsar hann? Hvað mótar þetta fólk?

Og á einhvern hjartaskerandi hátt er eitt saklausasta atriði sögunnar líka það sorglegasta. Ammar er miðaldra karlmaður með takmarkaða menntun en ágætis verkvit. Hann hefur ekki unnið í tvö ár, enda mikið atvinnuleysi, um 40 prósent. Það er farið að setjast á sálina á honum, hann er klökkur og spyr Sacco hvort það sé líklegt að hann gæti fengið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum eða Evrópu. Sacco vill ekki gefa honum neina táldrauma, viðurkennir að líklega yrði það mjög erfitt. Draumurinn brestur, tálsýnin brestur, og eitt lítið tár. Ahlan wa sahlan! segir hann svo, velkominn, og veit að kannski fær hann aldrei vinnu aftur. Hans núverandi örlög séu hans endanlegu örlög.

Borða sama morgunkornið

Þetta er saga full af drullugum og þröngum götum, troðfullum af fólki, og mitt í öllu þessu er gleraugnagámurinn Sacco sem veit að flestir lesendur hans eru vestrænir forréttindapésar eins og hann sjálfur og er því ekki að ritskoða eigin fyrirfram fordóma, til þess að hjálpa lesandanum að tengja við söguna, þótt oftast leyfi hann Palestínumönnum að eiga orðið. Hann rifjar upp þessa tilfinningu að Ísraelsmenn séu teiknaðir upp eins og hann sjálfur, borði sama morgunkornið.

Hann er líka í þeirri óvenjulegu stöðu að þurfa að finna átök fyrir þessa verðandi metsölubók, „friður borgar ekki leiguna.“ En hann getur alltaf flúið, þegar ástandið verður of erfitt getur hann alltaf farið á diskótek í Jerúsalem og fengið útrás og hitt vestrænar stelpur. Sumar annars staðar frá, sumar ísraelskar. Ein þeirra virðist vera á móti hernáminu – en segir samt, þar sem hún situr úti með sólgleraugu og púar sígarettu, að þær séu svo þreyttar á ástandinu, þær vilji bara hugsa um annað, eiga sér líf, þótt rétt hjá eigi ótal fólk sér einmitt ekkert líf – altént ekki í þeim skilningi sem þær setja í hugtakið. Svo halda þær vinkonur áfram og nefna dæmi um hermann sem þær þekktu sem nefbrotnaði, týna til alls kyns smáatriði sem fölna við hlið allra sagnanna sem Sacco hefur safnað.

Sacco ræðir líka við palestínskar konur, fer í kvennaathvarf og ræðir við kvenréttindakonur. En það er erfiðara að fá viðtal við konur, þetta er kúltúr þar sem hann er alltaf dreginn inn í karlaklúbbana. Og hann viðurkennir að hann kunni ekki almennilega að nálgast þær, í sínum hijab birtast þær honum eins og ósýnilegar dúfur. Þangað til þær koma honum á óvart og fara að segja honum sögur. Eða hefja upp raust sína, eins og Oum Kolsoum, sem hann segir okkur að líti út eins og Roy Orbison á vondum degi – en þvílík rödd!

Hylur slæðan nógu mikið?

Þetta byrjaði allt með Bretum að drekka te. Eins og margar vanhugsuðustu ákvarðanir mannkynssögunnar, ákvarðanir sem við erum enn að súpa seyðið af í dag. Núna erum við ekki lengur stödd í Palestínu, heldur Íran, þar sem blómstrandi lýðræðisþróun að vestrænum hætti var komin lengra en víðast hvar annars staðar í Mið-Austurlöndum um miðja síðustu öld. En Bretar vissu að þarna var olía, og þurftu að finna sér leppstjóra til þess að eiga auðveldan aðgang að henni.

Allt þetta leiddi til óstjórnar sem leiddi svo til klerkaveldisins sem við þekkjum í dag. Í Persepolis er okkur sögð þessi saga eins og við séum börn, enda er hún sögð barni – henni Marjane Satrapi, sem er höfundur og sögumaður og er að rifja upp eigin litríku bernsku í fyrstu köflunum. Þetta er þroskasaga, en Satrapi eldist, og það sem er einfalt í byrjun á bara eftir að flækjast.

Satrapi er barnabarnabarn síðasta keisara Persaveldis en það er þó liðin hálf öld frá því valdatíma hans lauk þegar sagan hefst og þá er fjölskyldan ágætlega efnuð, en ekkert umfram það. Hún er hins vegar óvenju frjálslynd, sérstaklega eftir uppreisnina árið 1979 sem leiddi til klerkastjórnar þeirrar sem við þekkjum í dag. Það er ekki auðvelt fyrir unga stúlku sem er vön frelsinu að þurfa skyndilega að bera blæju á götum úti.

Hin eilífa útlitsuppreisn

Við fáum greinargóða mynd af Íran en þó alltaf í gegnum manneskju sem er að berjast við það að þroskast þegar flestar ytri aðstæður eru þroskahamlandi. Þó er þroskasaga hennar merkilega lík hinum vestrænu, þótt öfgarnar séu meiri. Uppreisn unglingsáranna verður um leið uppreisn gegn stjórnvöldum sem þykir ekki mikið til vestrænna poppstjarna, tískuklæðnaðar og varalitar koma.

Satrapi fegrar sjálfa sig ekki. Í kjölfar erfiðra unglingsára svíkur hún sjálfa sig og allt það sem hún trúir á og lætur ekki segjast fyrr en við rækilega ofanígjöf ömmu sinnar, sem veit vel hvaða töggur leynist í barnabarninu þrátt fyrir tímabundinn heigulshátt. Hún er ekki síður gagnrýnin á það samfélag sem hún hjálpar okkur að skilja. Hún lýsir því hvernig vinkonur hennar eru í eilífri útlitsuppreisn og ganga flestar eins langt og þær geta í að sýna lokk af hári, nota varalit eða andlitsfarða.

Myndasagan speglar mannkynssöguna

En það kemur í ljós að allar þessar litlu uppreisnir standa að lokum í vegi fyrir hugleiðingum um raunverulega uppreisn og þessi hversdagslegi ótti lamar gagnrýna hugsun: „Valdhafar vissu að manneskja sem spyr sig í sífellu: „Eru buxurnar mínar nógu langar? Hylur slæðan nógu mikið? Er hægt að sjá að ég er förðuð? Munu þeir húðstrýkja mig?“ spyr sig ekki lengur: „Hvar er réttur minn til þess að hugsa? Hver er réttur minn til þess að tjá mig? Er líf mitt þess virði að lifa því? Hvað fer fram í pólitísku fangelsunum?““

Þessi texti er þó mun áhrifameiri í myndum, í sögunni eru þetta tveir rammar sem spegla hvorn annan – það sem er hugsað og það sem ætti að vera hugsað. Manneskjan orðin spegilmyndin af sjálfri sér, dauft ljósrit af eigin óskum.  Og þannig speglar myndasagan mannkynssöguna best – ramma fyrir ramma, með römmum sem kallast á og þvælast hver fyrir öðrum, svona eins og allar þessar ófullkomnu og breysku manneskjur sem skrifa hana.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni á Rás 1 þann 6. október 2019.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson