Ást og appelsínur, Og svo kom nóttin, Vera & Linus, Í felum bak við gluggatjöldin, Saga af bláu sumri, Sónata fyrir svefninn, Nötur gömlu nútíðar. Þórdís Björnsdóttir gaf út sjö bækur á níu árum (eina af þeim í samvinnu við Jesse Ball og aðra með teikningum eftir hann) og þegar þær eru taldar upp í réttri röð þá hljómar ferillinn eins og ljóð. En svo liðu sjö ár – og loksins kom ný bók. Núna er Þórdís orðin Þúfa og bókin heitir Sólmundur og kannski voru árin jafnvel tíu.
Við heyrðum í Þórdísi þar sem hún var nýlent úr netlausri utanlandsferð og spurðum hana um nöfnin og þessa löngu bið. Og líka um Will Smith og útigangsketti.
Hvernig velurðu nafn á persónur? Sérstaklega þegar þær enda líka sem titill á bókinni?
Sum nöfnin koma frá dýrum sem hafa fylgt mér, önnur frá forfeðrunum, og enn önnur gegnum hugljómanir. Nafnið Sólmundur var hugljómun.
Núna gafst þú út sjö bækur á níu árum – en svo kom sjö ára bið. Hvað gerðist á meðan?
Ég á erfitt með að eigna mér þá sjöundu, því hún varð til með aðstoð pendúls og mér finnst ég ekki vera höfundurinn, enda gaf ég hana út undir dulnefni. Svo í rauninni var þetta tíu ára pása frá mínu sjónarhorni. Það sem gerðist á meðan var að ég skrifaði rosalega mikið, henti rosalega miklu, þjálfaðist og þroskaðist sem penni þar til mér fannst ég vera lent. Mikill umbreytingatími hjá mér, bæði sem manneskju og sagnahöfundi.
Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?
Ætli ég myndi ekki fá Grím Hákonarson til að leikstýra. Og svo þyrfti væntanlega kött í aðalhlutverkið. Hrútar … Köttur, væri það ekki vel við hæfi?
Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?
Ferskust í minninu er sú sem ég er nýkomin úr, stórfengleg Krítarferð með fjölskyldunni.
Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?
Mér þætti ég nú fremur ósvífin að smygla listaverki inn á heimili fólks, en í hlutverki heimilissmyglara myndi ég þó örugglega nýta tækifærið – setja nokkra góða steina hér og þar, tengja netsnúru við ráderinn, og slökkva svo á wi-fi-inu.

Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?
Seinasta bók sem ég varð yfir mig hrifin af er The Book of Strange New Things eftir Michel Faber. Það væri frábært að geta gefið mömmu hana í jólagjöf, hún les ekki ensku.
Kvikmynd sem þig langar að skrifa ljóð um?
Ætli ég endi ekki á að skrifa mjög langt ljóð um Sumar í Múmíndal.
Forvitnilegasta ljóðskáld 21. aldarinnar?
Mér dettur enginn í hug á þessari stundu til að nefna umfram aðra.
Það er komið nýtt nafn á kápuna hjá þér – Þúfa. Hvernig varð þetta nýja millinafn til?
Ég nefndi yndislegan útigangskött Þúfu árið 2011 í útlöndum, en hún hafði mögnuð áhrif á lífið mitt. Svo árið 2015 fékk ég textaskilaboð frá vinkonu minni hér heima sem vissi ekkert af kettinum, svohljóðandi: ,,Náttúrunafnið þitt er Þúfa Skeljavættur.“ Þannig kom til að ég bætti millinafninu við og mér fannst þetta líka tilvalin leið til marka nýtt upphaf eftir margra ára útgáfuhlé.
Hvaða kennari hafði áhrif?
Louise Hay kenndi mér ómetanlega hluti með bók sinni You Can Heal Your Life. Hef sjaldan lært jafn mikð af því að lesa um hundrað síður.
Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?
Ég myndi hafa Chaplin-daga.

Eftirminnilegasti ljóðaupplestur sem þú hefur tekið þátt í?
Sá fyrsti. Hann var á Grand Rokk og þá las ég upp úr þá óútgefinni ljóðabók minni, Ást og appelsínum. Þetta varð aðallega eftirminnilegt vegna þess hvað ég var stressuð. Fékk meira að segja slakandi náttúrulyf hjá hópópata til að ráða betur við þetta. En útkoman var mjög fín.
(Spurning frá síðasta smyglara, Þóru Hjörleifsdóttur): Hvort ertu hrifnari af Will Smith sem tónlistarmanni eða leikara?
Ég veit ekki hver Will Smith er. Ég er ótrúlega illa að mér um heiminn, það kemur fólki sífellt á óvart.
Ef þú ynnir sem skólabókavörður, hvaða bókum myndirðu helst lauma að börnunum?

Ja, ef við gefum okkur að börnin séu nokkuð vel læs, þá væru það Mómó, Sagan endalausa, Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Uppvöxtur Litla trés, og Íslensk orðabók.
Hvar er draumurinn?
Í huga mér.
Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?
Mér er umhugað um margt en ég hef engar áhyggjur.
Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?
Fjöllin á Krít.
Hvað er skemmtilegast og leiðinlegast við að gefa út bók?
Mér finnst þetta allt saman stórskemmtilegt, en ánægjulegast er að leggja lokahönd á handritið.
Hvar er framtíðin, ljóð eða skáldsögur?
Í núverandi framtíðarsýn minni eru skáldsögur, fleiri en ein og fleiri en tvær, og ein óskrifuð ljóðabók. Ég veit ekki með framtíð annarra.
Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?
Dóttir mín, Alda Ægisdóttir.
Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?
Ég trúi hvorugu og þess vegna veit ég ekki hvort er þægilegra eða óþægilegra, næ ekki almennilega að tengjast hugmyndunum. Ég trúi á mátt okkar til að skapa og eiga í samtali við lífið hér og nú, og velja farsælustu leiðina, eða ekki.
Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?
Ég fór til Krítar og átti guðdómlega daga!
Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?
Ég lifi af því sem mér finnst skemmtilegt, og það skiptir mig öllu máli. Ég vil umfram allt eiga ánægjulegt líf, hvort sem laun mín fást fyrir ritstörf eða annað.
Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?
Þá sem hann langar að hlusta á, eða enga.
Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?
Ég horfi eiginlega alltaf á þáttaseríur í einni lotu. Leyfi mér þetta á nokkurra mánaða fresti og klippi svo að mestu á allt áhorf þess á milli. Síðast var það Shameless.
Hvað er draumaverkefnið?
Næsta bók. Ég er alveg að verða tilbúin og býst við að hefja skriftir í þessum mánuði.
Uppáhaldsorðið þitt?
Ég á mér ekkert uppáhaldsorð allajafna, en í augnablikinu er það ,,kakó“ vegna þess að ég hef hlakkað til að fá mér kakó í allan dag og mun gera það um leið og ég hef svarað þessum spurningum.
Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?
Heima fyrir meðan ég er að sinna hinu og þessu smálegu. Og líka í tveimur búðum sem ég vinn í, þá hef ég huggulega tónlist í gangi meðan ég les og skrifa og spjalla við viðskiptavini.
Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?
Hver er Will Smith?