Þið vitið hvernig músíkbransinn er á Íslandi; þeir sem á annað borð eru í hljómsveitum eru oftast í 3-4 böndum, jafnvel fleiri – og svo slær ein þeirra óvart í gegn og hinar liggja þá oft óvígar eftir.

Eitt af þessum böndum sem lagði upp laupana var Hraun. Band sem gekk ágætlega – en svo sló trommarinn Jón Geir í gegn með Skálmöld og Svavar Knútur söngvari sló í gegn sem sólósöngvari. Ég man ekki alveg tímalínuna, hvort þetta tengdist eða hvort Hraun var hætt þegar þetta gerðist, rámar jafnvel í eitthvað drama – en allavega, einhvern veginn var Hraun hálfgert húsband á seinni hluta háskólaáranna hjá mér, spiluðu reglulega á H-lista partíum og öðrum viðburðum sem ég sótti. Hápunkturinn var auðvitað alltaf þegar þeir tóku ábreiðuna sína af He-Man laginu, en þar sem það er ekki finnanlegt á youtube verður Clementine fyrir valinu.

Það er eitthvað fallegt að heyra rómantísk minni úr villta vestrinu sungin af íslensku bandi, með sínu nefi, það verður einhver fallegur samsláttur æskuminninga okkar sem erum sósuð í amerískum poppkúltúr, þar sem æskan er stundum með sterkum útlenskum keim sem maður nær ekki alltaf alveg að staðsetja. Clementine er nánast Hollywood, hún er Ingrid Bergman og Michelle Pfeiffer eða hvaða bíóstjarna þú varst skotinn í sem polli.

Lagið er af plötunni I Can’t Believe It’s Not Happiness, sem er vísun í frægt smjörlíki, enda sagði Svavar mér í viðtali fyrir löngu síðan að hún fjallaði um hamingjulíki. „að vera hjálparlaus og varnarlaus og ná ekki alveg taki í lífsins ólgusjó.“

En allavega, þetta var minnir mig fyrsta viðtalið sem ég tók á Mogganum – og þykir alltaf falleg lýsing Svavars á plötunni. Grípum niður í lokahluta viðtalsins:

„Popptónlist í dag er oft afskaplega ópersónuleg, menn eru alltaf að fela sig á bak við grímu kaldhæðni og töffaraskapar. Ég held að rosalega margir listamenn séu dauðhræddir við að láta sjást þar á bak við. En almennileg þjóðlög lifa lengi því þau eru svo hlý og einlæg. Mér finnst mjög gott fyrir okkur að geta hleypt þessu fram og verið opnir og einlægir en ekki með einhvern töffaraskap.“

Er þetta sem sagt ekki töff plata? „Við vorum einmitt að grínast með þetta: – Strákar, það er ekkert svalt við þessa plötu. Það eru ekki ein sólgleraugu á þessari plötu.“ Yrkisefnin eru líka iðulega persónuleg. Það er fjallað um ástina, sambandsslit og föðurmissi. Og Paris Hilton. „Það er kannski meira „Hiltonisminn,“ hedónisminn sem stingur mig. Að vera sama um sjálfan sig og aðra, vera sama um sjálfsvirðinguna og gufa upp. Ég varð vitni að svipaðri þróun hjá góðri vinkonu minni og þótti það mjög sársaukafullt.”

Svo er rétt að taka fram í lokin að þessi pistill er líka tónliekaupphitun – Svavar verður með tónleika á Palác Akropolis í kvöld, þeim goðsagnakennda höfuðstað Pragversks hedónisma uppi í Žižkov. Þetta er falleg bygging sem Rudolf Svoboda byggði á millistríðsárunum – og já, ég er bara að deila nafninu á arkítektinum af því eftirnafnið þýðir frelsi, eins og hjá nafna hans sem var forseti þegar skriðdrekarnir völtuðu inní Prag og bundu endi á skammlíft frelsi vorsins í Prag.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson