Akureyski myndlistamaðurinn Þrándur Þórarinsson hefur heillað og hneykslað til skiptis með myndum sýnum í gegnum árin. Maður þekkir stílinn strax, en hann hefur teiknað stjórnmálamenn á borð við Ronald Reagan, Mikhaíl Gorbatsjoff, Ólaf Ragnar Grímsson og Bjarna Benediktsson á skollabuxum, Aryan-banka og Tinna, Kolbein og Tobba við tröppur Akureyrar-kirkju, sem og alls kyns vætti og forynjur, já og auðvitað IKEA-geitina. Svo fátt eitt sé nefnt. Hann er nýkominn frá París, dreymir um að mála Týndu kynslóð Bjartmars og Hexíu de Trix og vill smygla Grýlu inná öll heimili. Og er með mikilvægar upplýsingar um Will Smith.
Þú stillir sjálfum þér í einni mynd upp sem hirðteiknari Prins Póló. En hefðirðu fílað það að vera hirðteiknari af gamla skólanum?
Ég málaði fyrir um 14 árum síðan afskaplega hátíðlegt og formlegt portrett af Ólafi Ragnari Grímssyni og seldi honum. Þá sárþráði ég að gerast hirðmálari, premier peintre du roi, en það næsta sem ég gat komist því hér á landi var að mála forsetann. Ég er nú vaxinn upp úr þeim dagdraumi í dag, og þrái það heitast og dreymi að komast inn í SÍM.
Þú hefur teiknað myndir upp úr Áföngum Jóns Helgasonar. Eru fleiri ljóð sem þig dreymir um að myndskreyta?

Ég hef einnig málað uppúr Krókodílamanni Megasar, Illugadráupu Stefáns G., Hvarfs séra Odds eftir Einar Ben og ugglaust fleiri kvæðum. Væri til í að mála Týndu Kynslóðina eftir Bjartmar.
Þú sækir oft í fortíðina, og blandar henni jafnvel saman við nútímann – notarðu oftast heimildir eða leyfirðu minninu að ráða og gera sínar ljóðrænu skekkjur?
Tímaskekkjurnar eru með ráðum geraðar, en ég notast einnig við heimildir af ýmsu tagi.
Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?
Hulli frændi leikstýrir og lætur tölvuteikna mig, engir leikarar.
Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?
Ég man eingöngu eftir þeirri síðustu. Var í París í ágúst og september, það var unaður, hún er fegurri en frá megi segja.
Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?

Eitthvert minna verka eins og nærri má geta. Á þó erfitt með að gera upp á milli þeirra. Grýlan væri mikið stofustáss á hvaða heimili sem er, einng kjörin í barnaherbergið.
Eftirminnilegasta upplifun á sýningu:
Að stíga inn í rókókó-álmuna í Louvre, það er himnasæluríki. Jafnvel unaðslegri en guðdómlegur drykkjuskapur og himneskt kvennafar.
Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?

„The Waif Woman“ eftir Robert Louis Stevensson, fjallar um Þórgunnu írsku úr Eyrbyggju og upphaf fróðárundranna. Fyrir ári hefði ég sagt: “Hvem skal trøste lille knøttet“ eftir Tove Jansson, en hæun er blessunarlega kominn út í brilljant þýðingu Þórarins Eldjárns.
Forvitnilegasta ljóðskáld 21 aldarinnar?
Skarphéðinn Bergþóruson
Hvaða kennari hafði áhrif?
Meistari minn Odd Nerdrum, öðrum frekar.
Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?
Períódu-drama út í eitt.

Nú hefurðu teiknað Tinna og Kolbein við Akureyrarkirkju – eru fleiri myndasögupersónur sem þið langar að teikna?
Tjah…máske Hexía de Trix.

Eða langar þig mögulega einhvern tímann að vinna myndasögu?
Það hangir uppi sýning núna með verkum mínum og Hulla í Gallerí Port, ég sé um málverkin og hann annast myndasögurnar.
Hvar er draumurinn?
Ég hef leitað undir sérhverjum steini, lagt við eyrun, læðst um. Endalaust ég reyni og reyni-það er ekki um annað að ræða.
Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?
Að vera vitinu fyrtur og illa gyrtur, almenningi til spotts og hlátra
(Spurning frá síðasta smyglara, Þórdísi Þúfu): Hver er Will Smith?
Will Smith er af komin af kaupmannfólki og sýslumönnum úr verslunarplássum fyrir austan. Hann er mikill öldungur samanrekinn, ekki offeitur en allur í herðunum og farinn að lúta, mundi líklega vera einar þrjár alnir ef teygt væri úr honum. Hann er útskeifur og knýttur í hálsinn líkastur sjófugli á velli, sérílagi mörgæs. Það markar ekki fyrir kjnám þegar hann gengur.
Þú teiknaðir Reagan og Gorbastsjoff horfa til Höfða, eru fleiri sögulegir stjórnmálamenn sem þig langar að teikna?

Ég held ég haldi mig við nútímastjórnmálin, það er ekki annað brýnna.
Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?
Mos Eisly
Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?

George Bush yngri
Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?
Enginn má sköpum renna
Mig langar að spyrja þig aðeins út í flokkana á heimasíðunni. Hver er til dæmis munurinn á yore og lore?
Upprunalega pælingin var að hafa goð- og þjóðsagnamyndir í Lore og sögulegar myndir í Yore, þetta hefur eitthvað skolast til
Já, svo er Reykjavík sér-flokkur. Hvenær kemur Akureyri?
Eldsnemma í fyrramálið
Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?
Gaf hann allan í góðgerðarslyni til IRA.
Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?
Já, með málverkasölu.
Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?
Fyrstu symfóníu Brahms.
Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?
The Deuce. Önnur sería.
Hvað er draumaverkefnið?
Ég er að fást við það núna, en veir ekki hvort ég megi segja frá því.
Uppáhaldsorðið þitt?
Snorklklæði
Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?
Stundum tek ég sporið tindilfættur og sýng með þeim sérkennilega kveðanda sem ómar viðstöðulaust innra með mér. Sá kveðandi er svo fagur að fuglar á spítum mundu þegja og skammast sín ef þeir heyrðu hann.
Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?
Eru krakkhórur mannskæðar?
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.