Ofurdramatískur leikhópur ryðst inná gagnrýnanda, eftirherma skólar til stjórnmálamann, fatlaður bróðir heltekur líf bræðra sinna, yfirburðanemandi finnur tilganginn á lagernum í Byko, IKEA-geitin verður táknmynd helgisagna, löngu týnt endurreisnarmálverk finnst á heimili víngerðarfjölskyldu, hjón gruna hvort annað um alkóhólisma og sjómenn verða helteknir af dönskum jólaplöttum.

Þetta eru umfjöllunarefnin í smásagnasafninu Átta sár á samviskunni eftir Karl Ágúst Úlfsson, leikara, leikstjóra, rithöfund og grínista. Listir eru áberandi í þessum sögum, sérstaklega þó leiklistin, og einnig lagerstörf – og svo er eins og oftast valdi ein lítil mistök því að heimur aðalpersónanna hrynur.

Þetta eru gamansögur, flestar, og eiga það allar sameiginlegar að það er einhvers konar punchline í lokin. Það þvælist stundum fyrir, það að maður viti að pönsið eigi eftir að koma gerir sögurnar að vissu leyti fyrirsjáanlegri, jafnvel þótt það sé allur gangur á hvort pönsið sjálft sé fyrirsjáanlegt eður ei. En skoðum aðeins betur nokkrar sögurnar.

Eftirhermann og ráðherrann

Langbestu sögurnar í safninu eru líklega þær sem standa höfundi næst, svona faglega séð allavega.

Annars vegar er það „Eftir Hermann“ – um eftirhermuna Hermann, sem malar gull á eftirhermum sínum. Svo kemst hann virkilega í feitt þegar hann er boðaður á fund ráðherra sem spyr einfaldlega: „Af hverju hermirðu aldrei eftir mér?“

Í kjölfarið verður ráðherrann Sigtryggur í raun Pygmalion sögunnar, þar sem eftirhermann vinnur í því að gera litlausan og auðgleymanlegan ráðherrann að litríkum og gustugum stjórnmálamanni. Þeir vinna saman að karakternum og vinna persónuna þannig að Hermann geti nú örugglega leikið hann vel, þannig verða eftirherma og fyrirmynd sitt hvor hliðin á sama peningnum, sú kómíska og sú alvarlega, sem má þó ekki vera of alvarleg, það þurfa að vera einhver einkenni sem eru bara kortér í að vera kómísk.

Karl Ágúst leyfir sér skemmtilegan formála að sögunni, þar sem fjallað er um hlutverk eftirhermunnar almennt, en svo er upplegg sögunnar einfaldlega þannig að það býður upp á endalausar observasjónir og hugleiðingar um eftirhermur, eitthvað sem ég efast um að margir Íslendingar séu fróðari um en Karl Ágúst, hafandi verið bæði meðlimur Spaugstofunnar og aðal handritshöfundur í áratugi. Það sést kannski best í því hversu vel hann lýsir þessum litlu sérkennum sem verða leið eftirhermunnar inní karakterinn – kækur í augabrún, ferkantaðar handahreyfingar, áhersla á atkvæði eða léttblásin s í framburði eða vaggandi göngulag eru dæmi um mismunandi leiðir Hermanns að mismunandi karakterum.

Það eru svo ein lítil mistök, algjörlega óafvitandi raunar, sem valda því á endanum að spilaborgin fellur. Þannig er það með flestar sögurnar.

Leikhópurinn og gagnrýnandinn

Albesta saga safnsins er þó sú lengsta, „Virgill fer línuvillt.“ Kannski af því hún er nógu löng til þess að allar persónur fá sitt rými til þess að lifna í hugum lesenda, en þó enn frekar af því sjaldan hefur frumsýningarskjálftinn ratað jafn sannfærandi niður á blað. Þá er ég ekki að tala um skjálftann fyrir frumsýningu, heldur eftir – því þar hefst sagan. Það hefur eitthvað klikkað, eitthvað svakalegt klúður átt sér stað – og það kemur hægt og rólega í ljós. Það sem gerir söguna svo frábæra er hins vegar hvernig ólíkustu persónur sögunnar taka mismunandi á áfallinu, hvort sem um er að ræða ungan handritshöfundinn, leikstjórann, stórleikarann sem fer með aðalhlutverkið eða ungu nýútskrifuðu aðalleikkonuna. Já, og gagnrýnandann ógurlega, vitaskuld. Maður hafði alveg á tilfinningunni á tímabili að hér yrði hjakkað í gagnrýnandaklisjum en sagan stígur þann dans af mikilli fimi og á endanum er fall leikhópsins ekki falið í mistökunum heldur yfirdrifnum viðbrögðunum við þeim. Mitt í þessu öllu er svo lúmsk ádeila á hlutverk kvenna í leikhúsinu, kvennana sem verða fyrstar allra skrifaðar í burtu ef þess þarf.

Sagan birtir líka flókið samband listamannana vel, samband sem byggir jafnt á samkeppni og aðdáun, jafnvel frá því í bernsku, öfundarblandinni virðingu eða virðingarblandinni öfund, allt eftir atvikum.

Lagerstarfsmann vantar í smásögu

Hér eru líka tvær sögur úr tveimur stórverslunum höfuðborgarinnar, Byko og IKEA.  „Abraham og Ísak í Ikea“ er full af litlum kómískum smáatriðum og innsýn inní tilbreytingalítið starf búðarstarfsmanna og tengingin við IKEA-geitina góðu er haganleg, þetta er léttvæg gamansaga sem hafði alveg burði í að vera eitthvað meira, með því að vinna aðeins dýpra með Biblíusöguna sem vísað er í.

„Verndarengill lagermanna“ er hins vegar mun forvitnilegri, í því hvernig hún lýsir sannfærandi hvernig Gauti, ungur námsmaður sem er góður í öllu, finnur sig ekki einmitt þess vegna, allt leikur í höndunum á honum en hann finnur aldrei þennan grunntón tilverunnar – ekki fyrr en í risastórri Fiat-verksmiðju og svo þegar heim kemur í Byko-verksmiðju. Þetta er óður til lagerstarfanna, með hliðarsögu um verndardýrling lagermanna, hann Bartólómeus frá Bykom. Þetta er skemmtileg saga um áráttu gagnvart hinu smáa og sérviskulega, en missir kannski aðeins fótana þegar á líður þegar persónan Gauti týnist aðeins einhvers staðar á lagernum og verður frekar staðgengill allra lagerpælinganna. Engu að síður eru forvitnilegar pælingar sem kvikna um hvort hægt sé að finna tilgang í öllum störfum og hvort þessi tilgangur sé jafnvel lykillinn af lífshamingjunni.

 Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson