Þórarinn Leifsson er leiðsögumaður. Þið þekkið hann samt örugglega mörg betur sem rithöfund og myndlistarmann – og hann er það bæði ennþá. Hefur gefið út barnabækur á borð við Leyndarmálið hans pabba, Bókasafn Ömmu Huldar, Maðurinn sem hataði börn og Algjört frelsi (þá síðustu með Auði Jónsdóttur), sem og leikritið Útlenski drengurinn, fullorðinsbækur eins og Kaldakol og Götumálarinn. Núna eru þessir tveir heimar um það bil að fara að skarast, með útgáfu Bekksins, dagbókar úr leiðsögumannabransanum, með einmana bekk rétt hjá Geysi. Verkefnið má styrkja á Karolina Fund akkúrat núna og tryggja sér þar með bók, mynd og/eða listaverk.

Segðu mér frá þessum bekk, hvernig kynntust þið?

Haustið 2017 stóð ég  á krossgötum í lífinu. Ég var nýskilinn eftir tæplega tuttugu ára hjónaband og fluttur heim til Íslands frá Berlín þar sem ég hafði einangrast svolítið. Lifði að mörgu leyti á forsendum sem ég hafði skapað með fyrrum maka um síðustu aldamót. Lífið snérist um ritlaunaumsóknir og framlengingar á yfirdráttum. Það var því mjög freistandi að rjúka af stað með erlenda ferðamenn um ísland – þá fyrst og fremst í Gullhring til að byrja með.

Rigningarsumarið mikla 2018 fór ég síðan að taka myndir af bekk á Geysi í hverjum Gullhring og einhvern tímann um haustið datt mér í hug að tengja þessar myndir við búta úr dagbókinni minni. Jafnframt gaf ég hverri ferð frá einum upp í fimm gullhringi – að hætti TripAdvisor. Bekkurinn speglar bæði mig sjálfan og íslensku þjóðina. Við erum ennþá að átta okkur á okkur sjálfum og hvernig við eigum að mæta öllum þessum ferðamönnum sem vilja koma til okkar.

Hvernig æxlaðist það að þú fórst úr bókaskrifum, pistlaskrifum og myndskreytingum í leiðsögumennskuna?

Þetta voru í raun og veru ekki mikil umskipti. Ég hafði lengi gælt við að prófa að leiðsegja. Vildi nýta mér tungumálakunnáttu. Ég var tvítyngdur sem barn og ræð því ágætlega við að gæda á ensku, dönsku, þýsku eða spænsku.

Það urðu síðan ákveðin tímamót þegar Stundin sá sér ekki fært að hækka launin mín upp fyrir það sem svaraði einum norðurljósatúr. Það var einfaldlega hætt að borga sig að pistla eða taka að sér frílans skrif yfirleitt.

Og er þetta kombakk á ritvöllinn eða bara hliðarspor (eða kannski frekar hliðarafurð) frá leiðsögustörfum?

Það er ekki hægt að tala um kombakk á ritvöllinn því ég fór aldrei. Gaf síðast út bók fyrir tveimur árum og skrifa rúmlega hundrað þúsund orð á ári í dagbók svo eitthvað sé tekið til. Það væri hugsanlega hægt að segja mig risinn upp á eigin forsendum. Ég gef þessa bók út sjálfur hjá eigin forlagi. Það er líka alveg klárt að textagerð og myndskreytingar er eitthvað sem ég get ekki lifað án. Ég myndi verða ansi tómur í sálinni ef ég væri að leiðsegja út í eitt án þess að eitthvað listaverk kæmi út úr því. Þess vegna eru tvær aðrar bækur á leiðinni sem sækja innblástur í ferðabransann, takast á við minn veruleika.

Ef þú tækir aftur svona u-beygju og færir að gera eitthvað allt annað, hverju værirðu spenntastur fyrir?

Þetta var aldrei u-beygja heldur rökrétt viðbót.

Ég veit ekki alveg hvað ég myndi vilja gera annað. Kannski vera miljarðamæringur á eftirlaunum. En þá væri ég væntanlega að skrifa og teikna líka.

Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?

Milos Forman, Jack Nicholson.

Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?

Þrettán mánuðir í Evrópu þegar ég var nítján ára. Ég skrifaði bók um þá ferð.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?

Málverki eftir Jón Óskar eða Ómar Stefáns. Svo ég nefni einhvern íslenska samtímalistamenn sem eru expressionistiskir.

Hjálpar myndlistarbakgrunnurinn í ljósmyndunum?

Tvímælalaust.

Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?

Nei. Það er einhver árátta hjá mér að vilja helst lesa bækur á frummálinu. Var síðast að hlaða niður bók á spænsku á kindilinn.

Hvað var eftirminnilegasta módelið?

Þessi þrjú sem standa á bekknum á forsíðu bókarinnar. Asíska stelpan til vinstri virðist eiga í mikilli innri baráttu. Hún virðist efast um tilganginn með þessu öllu.

En erfiðasta?

Hollenskur túristi sem reif kjaft þegar ég tók mynd af honum. Sá ekki betur en konan hans væri dauðhrædd við hann.

Hvernig hafa bókmenntirnar og myndlistin farið saman í gegnum tíðina? Og hvernig fer þetta allt saman með leiðsögumennskunni?

Textar og skrif hafa styrkt hvert annað. Myndræni þátturinn er ekki eins augljós á síðustu árum en ég hanna samt allt útlit á öllum bókum sjálfur.

Leiðsögumannastarfið hefur vissulega mikil áhrif. Ég verð að skipuleggja og taka frá tíma til að skapa í stað þess að vera að lulla eitthvað á hálfum hita allt árið eins og ég gerði áður. Verkin verða vonandi hnitmiðaðri en áður.

Besti túrinn?

17 spænskumælandi einstaklingar á Suðurströnd Íslands. Myndaðist eitthvert töfraraunsæi.

Forvitnilegasta ljóðskáld 21 aldarinnar?

Google translate

Hvaða kennari hafði áhrif?

Ung kona á Akureyri sem ég man ekki hvað hét. Hún er látin núna. Ég var tólf ára. Og Gummi myndlistarkennari í Hagaskóla.

Þú hefur samið fullorðinsbækur og barnabækur jöfnum höndum – en er þetta barnvænn bekkur?

Börn gætu haft gaman af myndunum. Textinn sjálfur er hinsvegar stundum full þurr fyrir yngri lesendur. Enda lýsir hann tilbreytingarlausum hversdegi miðaldra manns. Alveg óþarfi að leggja það á börnin.

Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?

Argentínskar bíómyndir. Aðal myndin yrði El ciudadano ilustre (2016) sem fjallar um rithöfund og nóbelskáld sem heimsækir æskuslóðirnar í sveitum Argentínu eftir margra ára fjarveru. Gagnrýnendur segja hana skopstælingu á Argentínsku þjóðfélagi. Ég held hinsvegar að íslendingar hefðu gaman að því að kryfja hana líka.

Hvað hefurðu lært á þessu leiðsögudjobbi?

Allt. Ég fengið nýja sýn á Ísland og sjálfan mig. Og ég hef þroskast mikið í mannlegum samskiptum.

Hvar er draumurinn?

Í prentsmiðju. Alltaf í prentsmiðju.

Eftirminnilegasta upplifun á sýningu:

Þýskir expressionistar í Berlín. Slíkar sýningar eru mjög sjaldgæfar, þeir þykja ekki eins fínir í dag. Líka Goya í Madrid.

Ef þú ynnir sem skólabókavörður, hvaða bókum myndirðu helst lauma að börnunum?

Bækur sem kveiktu í mér sem vandræðaungling, doðrantar sem ég myndi aldrei nenna að lesa núna. Mómó, Hundrað ára einsemd, Glæpur og refsing, The Anarchist Cookbook, Anais Nin, William S. Boroughs, Meistarinn og Margaríta

Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?

Að börnin minn og barnabörn erfi heim sem er að fara til fjandans.

Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?

Spænsk rakarastofa.

Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?

Er ekki til lengur. Það eru allir á netinu.

(Spurning frá síðasta smyglara, Þrándi Þórarinssyni:) Eru krakkhórur mannskæðar?

Sjálfum sér verstar en gera ekki flugu mein.

Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?

Tilviljun.

Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?

Keypti St Pauli bol handa syni mínum.

Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?

Ekki efnahagslega. En ég get heldur ekki lifað án hennar.

Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?

The Rolling Stones: Let it Bleed.

Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?

Unbelievable á Netflix.

Hvað er draumaverkefnið?

Að verða pabbi og síðan afi.

Uppáhaldsorðið þitt?

Karlmennska.

Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?

Með heyrnartólum í smárútu á ofurhraða í óveðri.

Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?

Hvað finnst þér raunverulega um Ásgeir H?

Einhver sértök ástæða fyrir því að þú gefur út sjálfur og sækist eftir styrkjum á Karolina Fund?

Bekkurinn er mjög ólík flestu sem er að gerast á íslenskum markaði. Svo mér fannst ekki taka því að fara með hana í hefðbundið íslenskt forlag. Ég er ekki endilega viss um að fjáröflun á Karolina fund muni takast. Aðferðin kallar hinsvegar á allt aðra nálgun í útgáfunni. Ég hef til dæmis aldrei farið í jafn mörg viðtöl áður en bók kemur út og núna.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.