Auður H Ingólfsdóttir skrifar hugleiðingu um
Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason
“Með því að gefa mannkyninu sameiginlega áskorun eru þjóðir heimsins neyddar til að vinna saman með áður óþekktum hætti. Það er ekkert víst að það takist, allt tekur enda einn daginn og það gildir um mannkynið eins og annað. En ef okkur tekst það gæti niðurstaðan orðið heimur sem verður kannski ekki fullkominn, en samt fallegri en orð fá lýst.”
(Andri Snær Magnason, 2019, Um Tímann of vatnið, bls. 307).
Þessi lokaorð í næstsíðasta kafla bókar Arna Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið, sendu mig 27 ár aftur í tímann:
Vorið 1992. Ég ligg í rúminu í heimavistarherberginu mínu í Hagget Hall að lesa skólabók. Þetta er fyrsti veturinn minn af þremur í Seattle, Bandaríkjunum, þar sem ég legg stund á BA nám í alþjóðastjórnmálum við University of Washington. Bókin sem ég er að lesa fjallar um samskipti iðnríkja og þróunarríkja. Ég les um hvernig tilraunir Vestrænna ríkja til að styðja við framfarir í fátækari hluta heimsins virðast oft gera illt verra. Ég hef mikinn áhuga á þróunarsamvinnu en því meira sem ég les því vonlausara finnst mér þetta vera. Þróunarsamvinna virðist stundum skaða meira en hún hjálpar. Ég velti fyrir mér tilgangi alþjóðasamvinnu og hvort einstakir heimshlutar ættu kannski bara af fá að vera í friði, án utanaðkomandi afskipta. Þá kemur kafli í bókinni um eitthvað sem heitir „loftslagsbreytingar af mannavöldum“. Ég hafði aldrei heyrt um þetta fyrirbæri fyrr. Því meira sem ég las því órólegri varð ég. Það tók mig svolítinn tíma að skilja út á hvað málið gekk en þegar ég áttaði mig á hnattræna vinklinum á málefninu var eins og opnaðist nýtt hólf í heilanum á mér.

Tvennt stóð upp úr eftir þennan lestur. Í fyrsta lagi, þá virtist hérna komið málefni sem yrði eitt af stóru málunum í framtíðinni. Í öðru lagi þá varð mér strax ljóst að vegna eðli þessa vanda þá væri samvinna allra ríkja eina leiðin ef ætti að takast að koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar af mannavöldum. Og það var þessi samvinnuflötur sem varð til þess að ég fékk óþreytandi áhuga á þessu viðfangsefni. Er hugsanlegt að það verði á endanum ristastór sameiginleg krísa sem fær okkur loksins til að vinna saman á þessari Jörð?
Hlutverk sögumanna
Hvað hefur rithöfundur fram að færa í baráttunni gegn loftslagsbreytingum? Getur hann bætt einhverju við þær hundruðir þúsunda orða, línurita, skýringarmynda og annarra gagna sem vísindamenn hafa birt um þetta flókna viðfangsefni?
Andri Snær lýsir því í bókinni hvernig hann var hvattur áfram af loftslagsvísindamanni að fjalla um loftslagsvandann í sínum skrifum. Vísindamaðurinn hafði áttað sig á því að staðreyndir vísindanna dygðu ekki til að vekja fólk til vitundar um alvarleika loftslagsbreytinga. Vísindamenn eru þjálfaðir í því að skapa nýja þekkingu, en þeir kunna ekki endilega að miðla þessari þekkingu til almennings. Í það minnsta ekki á þann hátt að það snerti við fólki nægjanlega mikið til að það sé tilbúið í þær samfélagsbreytingar sem þarf til að takst á við vandann. Rithöfundar, hinsvegar, kunna að miðla og skilja frekar hvernig hægt sé að snerta við tilfinningum fólks.

Þessi innsýn vísindamannsins sem Andri Snær vísar í rímar algjörlega við það sem ég hef fundið út í mínum rannsóknum, en ég skrifaði doktorsritgerð sem fjallaði m.a. um það hvernig gildi og viðhorf hefðu áhrif á mótun loftslagsstefnu. Hvatinn að rannsókninni var sú löngum mín að skilja betur af hverju við værum ekki að bregðast við þeim vanda sem fylgir loftslagsbreytingum þrátt fyrir að vísindaleg þekking hafi legið fyrir í nokkra áratugi.
Eitt af því sem ég komst að var að jafnvel í þeim tilfellum sem fólk hafði góða þekkingu og skilning á loftslagsvánni þá upplifi það loftslagsbreytingar yfirleitt ekki sem persónulega ógn. Fyrirbærið er einhvernvegin of fjarlægt og ósnertanlegt til að hin venjulegi borgari nái að tengja við það og setja í samhengi við eigið líf. Hluti af lausninni virðist því að finna leið til að gera umfjöllun um loftslagsbreytingar aðgengilegri, þannig að almenningur nái að átta sig á samhenginu milli loftslagsbreytinga og hins daglega lífs. Að búa til þannig stemmingu að við höfum ekki bara skilning á málefninu heldur líka mikla og djúpstæða löngun til að gera það sem gera þarf til að takast á við vandann.
Og þar komum við að mikilvægi sögumannana. Rithöfundar, kvikmyndagerðarmenn og aðrir listamenn sem kunna að segja sögur. Snerta við okkur. Þeir geta kannski það sem vísindamönnum hefur ekki tekist: Vakið okkur!
Við getum leyst þetta – við komumst til tunglsins!
Andri Snær tekur áskorun vísindamannsins og er búinn að skrifa bók um loftslagsbreytingar. Hann viðurkennir að hann hafi verið hikandi í upphafi. Hvernig er hægt að nálgast svona stórt, umfangsmikið og flókið viðfangsefnið? „Eina leiðin til að greina svarthol er með því að horfa framhjá þeim,“ segir hann og útskýrir um leið hvaða leið hann fór í bókinni: „Þegar um er að ræða málefni sem snertir allt vatn á jörðinni, allt yfirborð jarðar og allan lofthjúpinn er það svo stórt að það sogar í sig alla merkingu. Eina leiðin til að skrifa um málefnið er að fara aftan að því, til hliðar, undir það, aftur og fram í tímann, vera persónulegur og vísindalegur og nýta sér tungumál goðafræðinnar.“
Og það gerir hann. Hann skrifar um afar sínar og ömmur, Auðhumlu, Dalai Lama, krókódíla og síðasta geirfuglinn. Hann skrifar um fortíð og framtíð. Ógnin vegna loftslagsbreytinga er alltumlykjandi en samt sjaldnast í fogrunni. Inn á milli koma kaflar þar sem fjallað er með beinni hætti um hinar ýmsu hliðar loftslagsbreytinga, hvernig þær tengjast líffræðilegri fjölbreytni, súrnun sjávar og geta ógnað jafnvæginu í lífríki Jarðar. En jafnvel þar er frásagnamátinn ólíkur því sem við eigum að venjast í vísindalegum skrifum. Í stað línurita notar Andri myndlíkingar. Í október 2018 fór olíuframleiðsla heimsins í fyrsta sinn yfir 100 milljón tunnur á dag. Hvað er það mikið? Andri Snær grípur til þeirra samlíkingar að það sé álíka mikið magn af olíu og vatnið sem streymir daglega í gegn um Dettifoss. Ímyndið ykkur kolsvartan Dettifoss, steypast fram af bjargbrún dag og nótt, allan ársins hring.

Þrátt fyrir þessa mörgu og ólíku þræði þá tekst Andra Snæ að spinna þá saman af þvílíkri list að úr verður heildstætt verk sem virkilega heldur manni við efnið. Ég hef lesið, skrifað og kennt um loftslagsbreytingar í meira en tuttugu ár. Ég þekki málefnið sennilega talsvert betur en meðalmanneskjan. Ég get því ekki sagt að ég hafi lært eitthvað nýtt um vísindin með því að lesa bók Andra Snæs. Engu að síður opnaði bókin mér ýmsar nýjar víddir. Ég fann meira fyrir óttanum inni í mér yfir því hvað þetta er yfirgengilega stór og mikill vandi en ég fann líka fyrir voninni að við gætum kannski, þrátt fyrir allt, fundið leiðir sem virka, ef okkur lánast að taka höndum saman, taka málefninu alvarlega og nota bæði huga, hjarta og hönd í leit okkar að lausnum. Virkjum ímyndunaraflið til góðs.
En hvað með Andra Snæ sjálfann? Trúir hann því að þetta verði allt í lagi?
“Ég hef enga aðra valkosti en að trúa að lausn sé möguleg,” segir hann á einum stað í bókinni. “En þá verða menn að þrá lausnina jafn heitt og menn þráðu að fljúga, komast til tunglsins og lækna alnæmi.”
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Auður H. Ingólfsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Transformia, fræðsluvettvangs þar sem lögð er áhersla á sjálfseflingu, sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Hægt er að lesa meira um Transformia hér. Þessi pistill er sá 35 í röðinni Sjálfbærni og samfélagsábyrgð – en hina pistlana 34 má lesa á Facebook-síðu Transformia – sem og þá 65 sem eru væntanlegir.
Áhugavert. Famsetning skýr. Las alveg til enda.