Smyglaramamma og smyglarasystir eru að koma til Prag – og af því tilefni gerði ég vitaskuld úttekt á götunni sem þær gista í, Balbinova, og endaði einn kvöldlabbitúrinn þar. Þetta er stutt frá mínu sloti en samt blindur blettur, ég hef örsjaldnan labbað þarna. Og maður áttar sig seinna á af hverju það er huliðsskikkja yfir götunni.
Ef gægst er fyrir götuhornið sést glitta í Þjóðminjasafnið risavaxna, mjallahvítt eftir áralanga hreinsunaraðgerð, mín Pragverska landafræði segir mér alltaf að miðbærinn byrji þar – og þar fyrir neðan er aðalverslunargatan. Við þetta sama götuhorn er svo lítil kjörbúð sem er opin fram á kvöld og í sömu hliðargötu er húðflúrstofa og sérviskulegur skransali.

Í götunni sjálfri virðist svosem lítið merkilegt fyrir neðan gatnamótin – en þeirra megin í götunni er kaffihúsið Double B, ljóðræni barinn Balbinóva Poeticka Hospoda, veitingastaðurinn Sova, ritfangabúð með fallegar stílabækur og svo hótel við hliðina á þeim mæðgum. Það situr strákur að reykja í gluggasyllunni í húsi ská á móti, það er alltaf góð öryggiskennd sem fylgir því að sjá fólk slappa af á gluggasyllum (ókei, þetta var í október – það situr enginn í gluggasyllum í desemberkuldanum).
Gatan er hins vegar ansi mikilvæg í fjölmiðlasögu Austur-Evrópu. Þar var bardagi um tékkneska útvarpið undir lok heimstyrjaldarinnar. Berlín var fallin en Prag var eitt síðasta vígi nasista, það voru fyrirmæli um að leggja áherslu á að vernda Prag ef Berlín skyldi falla. Það var svo bardaginn um útvarpið sem markaði upphafið af lokaorustunni um Prag. Hann hófst á því að útvarpað var á hinni bönnuðu tékknesku tungu að morgni 5. maí 1945 og upp úr því voru útvarpsbyggingarnar aðalvígvöllurinn um Prag – og það var svo ekki fyrr en nokkrum dögum síðar sem Rauði herinn mætti á svæðið. Útvarpið virðist enn eiga húsnæði við gatnamótin báðum megin við – og svo var fyrsta dagblaðið á litháísku prentað þarna af litháískri sjálfstæðishetju undir lok 19. aldar. Í húsinu þar sem Double B kaffihúsið er nú til húsa bjó eitt sinn Dr. Jonas Basanavičius, litháisk frelsishetja sem bjó í Búlgaríu, Prag og Vín um tíma, og í Prag gaf hann út Aušra – Dagrenningu – fyrsta litháiska dagblaðið.

Basanavičius var þjóðfræðingur og vísindamaður sem auk þess stofnaði litháísku vísindaakademíuna. Hann eyddi aldarfjórðungi erlendis en snéri aftur 54 ára að aldri og var næstu þrettán árin lykilmaður í því að tryggja sjálfstæði Litháen.
Hinum megin við götuna er svo barinn ljóðræni, Balbinóva Poeticka Hospoda, sem skiptist á að vera leiksvið tónlistar og leikrita, nýlega var til dæmis leikritið Lidice flutt þar – um bæinn sem nasistar lögðu bókstaflega í eyði sem hefnd fyrir morðið á Reinhard Heydrich, Böðlinum í Prag, en nasistar töldu ranglega að tilræðismennirnir hefðu tengsl við Lidice.

Við félagi minn kíktum þangað í tvo bjóra og vorum líklega einu mennirnir á barnum sem höfðum ekki drukkið með Havel og sungið með honum andspyrnulög undir lok síðustu aldar, þetta eru fastagestir sem styðja sína knæpu og túrisminn ratar alls ekki hingað inn, þrátt fyrir að við séum stutt frá miðbænum, þar sem Vinohrady byrjar að blæða yfir í gamla bæinn. Þessi bar hefur sína huliðsskykkju, eins og góður andspyrnubar þarf að hafa.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson