Menningarsmygl átti upphaflega aðallega að vera ferðablogg. Og planið er alltaf að ferðablogga meira hér. Ástæðan fyrir því að þetta þróaðist yfir í menningarblogg er kannski helst sú að ég hef ekki efni á að vera sífellt á flakki – annars væri ég örugglega sífellt á flakki.
Mannskepnan er að eðlisfari forvitin, það er henni eðlilegt að flakka langar vegalengdir. Skoðum bara fornsögurnar og pælum aðeins í hversu mikið menn ferðuðust fyrir þúsund árum, þegar það var þó miklu, miklu erfiðara en í dag. En þó betra um sumt, við neyddumst til að ferðast hægar – og bestu ferðalögin eru á sálarhraða. Nú er ég ekki alveg viss um hversu hratt sálir fara yfir, en ég hugsa að þær nái í mesta lagi lestarhraða, flugið gerir okkur dösuð og ringluð – og það sem mestu skiptir, við náum ekki þeim tíma með sjálfum okkur á milli áfangastaða sem er lykilatriði bestu ferðalagana. Tímanum þegar okkur leiðist eða við lesum heilu bækurnar af eintómum leiðindum eða tölum við skrítna fólkið sem er með okkur í klefa til að drepa tímann.
Og á dögum loftslagshamfara og kolefnisjöfnunar þurfa ferðalög sinn málsvara. Af því ferðalög eru oft auðveldasta skotmarkið fyrir marga – fyrir alla þá sem geta ekki fórnað einkabílnum, fyrir alla þá sem vilja takmarka ferðalög lifandi manneskja svo við getum eytt kolefnisfótsporinu í að koma spænskum kjúklingum til Svíþjóðar og sænskum kjúklingum til Spánar, fyrir alla þá sem sjá ekki muninn á ferðalögum og túrisma.
Túrismi er nefnilega einfaldlega skilgetið afkvæmi kapítalismans, þessarar eilífðarvélar sem tekst að taka allt sem er gott og fallegt og afskræma það. En samt ekki. Kapítalisminn nær aldrei að tortíma öllu, við sem þekkjum hætturnar náum að forða okkur í næstu hliðargötu, næstu hliðargötu tekst að sveipa sig huliðsskykkju, þannig að þangað rata aðeins þeir sem ferðast með augun opin.
Sumum tekst ekki að kasta af sér keflinu sem sumar ferðaskrifstofur binda fyrir augun á túristum, en það er hins vegar sjaldgæft að fólk hreinlega stæri sig af eigin flónsku og skrifi um það greinar í heimspressuna – en það eru nú samt dæmi um það. Og eitt slíkt dæmi varð kveikjan að þessum pistli.
Það er nóg af heimskulegum pistlum á internetinu – en vondir pistlar í New Yorker eru vondir á alveg sérstakan hátt. Þeir eru vondir af því maður sér gangverkið á bak við, maður sér strax fyrir sér manneskju sem hvorki er sérstaklega klár né dugleg en fór samt í alla fínustu háskólana, af því hún kunni að apa upp gáfulegt lingó og kvóta hæfilega blöndu kunnuglegra og minna kunnuglegra spekinga, án þess þó að beita neinum alvöru greiningarhæfileikum eða innsæi – mögulega af því þessir hæfileikar eru einfaldlega ekki til staðar.
Þessi pistill, The Case Against Travel, er frábært dæmi um þetta. Góð smellubeita fyrir alla sem eru með kolefnismóral eða pirraðir á massatúrisma nútímans og AirBnb væðingu borga, án þess þó að gera sér grein fyrir að það er bara ein tegund túrisma – og mögulega sú versta. Sú hugsunarlausa.
Gagnrýnin byggist helst á eftirtöldu:
A) Þeim misskilningi að setja samasemmerki á milli massatúrisma og ferðalaga, á milli túrista og ferðalanga. Það er svona álíka gáfulegt og að segja að matur sé óþarfur af því McDonalds sé næringarsnautt.
B) Pirringslegum athugasemdum tilviljunakenndra rithöfunda og heimspekinga fortíðarinnar. Athugasemdum sem voru sjálfsagt oftast sagðar eða skrifaðar í pirringi eða djóki, eða til að breiða yfir hluti á borð við þjóðernishyggju höfundanna, ótta þeirra við alvöru ævintýri eða einfaldlega skelfilegan heimóttaskap.
C) Anekdótan hennar um Abu Dhabi sýnir ekkert annað en að hún er lélegur ferðalangur sem ætti frekar að vera heima, ekki að allir aðrir séu það. Og svo virðist hún líka hata dýr (a generalized dislike of encounters with nonhuman animals), líklega af því þau sjá í gegnum hana.
D) „Ferðalög breyta manni ekki,“ segir Agnes í löngu máli og bendir svo á að flestir sem þú þekkir komi ósköp svipaðir til baka úr síðustu utanlandsferð.
Þarna er eins og höfundur haldi að ferðalög, eða aðrir hlutir í lífinu sem móta mann, séu einhverjir töfrasprotar. En nei, það er ofboðslega sjaldgæft að fólk breytist eitthvað stórkostlega mikið á fáeinum vikum – og enn sjaldgæfara að það sjáist utan á því, þegar manneskjur raunverulega lenda í upplifunum sem breyta þeim þá gerist það sjaldnast einn, tveir og bingó, heldu miklu oftar á löngum tíma, þar sem úrvinnsla er að eiga sér stað – úrvinnsla sem sést ekki endilega utan á fólki á meðan það heldur áfram að mæta í vinnuna.
En besta sönnunin á gildi ferðalaga er þegar maður upplifir hversu takmarkað sumt fólk er – einmitt af því það er heimaalið og illa siglt. Það hefur kannski farið eitthvað, en mestmegnis í ódýrar pakkaferðir eða til landa sem eru nógu lík heimalandinu að það finnur engan alvöru mun. Auðvitað eru á þessu undantekningar eins og öðru, rétt eins og fólk sem virðist vissulega hafa ferðast töluvert eins og Agnes Callard getur verið grunnhyggið um heiminn, þá er alveg til fólk sem hefur djúpan skilning á veröldinni þótt það hafi varla yfirgefið þúfuna sína. En það er afskaplega sjaldgæft – og oftast sértækar ástæður fyrir því.
Við speglum okkur í öðrum menningarheimum, sjáum hvað er mögulegt annars staðar, hvað við getum lært af þeim og hvað þeir geta lært af okkur. Heimskulegustu mótrökin gegn góðum hugmyndum í samfélagsumræðunni eru iðullega frá fólki sem hefur lítið ferðast eða kann ekki að ferðast – og velur því vernduðustu útgáfuna af ferðalögum, þar sem þú lærir sáralítið. Þetta kemur einfaldlega fram í hugarfari þess sem finnst allt óbreytanlegt í þeirra heimalandi, jafnvel þótt heimurinn sé stútfullur af dæmum um hið gagnstæða.
E: „One common argument for travel is that it lifts us into an enlightened state, educating us about the world and connecting us to its denizens.“
Hún setur þetta fram sem falska fullyrðinu – þegar fullyrðing er einmitt sönn. Það er meira að segja vísindalega sannað að við erum meðvitaðri þegar við ferðumst, í kunnuglegu umhverfi slakar líkaminn á, jafnvel um of. Jú, við getum labbað blindandi á klóstið heima hjá okkur, en um leið og við komum út – og enn frekar, um leið og við komum á nýjan stað, þá kviknar á okkur. Þetta er arfur fortíðar, skepnu sem þurfti að hafa varann á þegar hættan var óræð en ekki fyrirséð og viðráðanleg, en fyrir nútímamanneskjur þýðir þetta einfaldlega að hæfilegt áreiti (og það er vissulega mjög breytilegt á milli fólks) er einmitt það sem kveikir á því, gerir það skapandi og frjótt. Þess vegna var kófið svona djöfull andlaus tími, við vorum bara að ferðast innanhúss og það einfaldlega slokknaði á okkur eða við festumst í eigin núrósum.
Og hún sannar þetta raunar sjálf í pistlinum, samanber næsta lið.
F: „I walked from one end of the city to the other, over and over again, in a straight line; if you plotted my walks on a map, they would have formed a giant asterisk. In the many great cities I have actually lived and worked in, I would never consider spending whole days walking.“
Þetta er hárrétt, maður labbar iðullega miklu meira þegar maður er á flakki. En henni tekst að líta á allt þetta labb sem eitthvað neikvætt??? Labb, eina göfugustu iðju mannsandans? Það þarf einfaldlega að taka pennann og lyklaborðið af konunni og ekki láta hana fá það aftur fyrr en hún er búin að lesa sér almennilega til í flâneur-literatúr heimsins.
G: „Travel turns us into the worst version of ourselves while convincing us that we’re at our best.“
Eða kannski er hún bara búin að sannfæra sjálfa sig um að versta útgáfan af henni sé sú besta? Sú sem skálar í kokteilboðum heima við og röflar yfir vitleysingunum sem leita langt yfir skammt, sem halda að maður fái í alvörunni eitthvað meira út úr því að anda að sér útlensku lofti frekar en að lesa bara Wikipediu-greinina.
En maður þarf að læra að ferðast. Það tekur tíma, og fleira en eitt ferðalag – og sumir læra aldrei. Verða alltaf handónýtir ferðalangar eins og Alice Callard virðist vera. Við því er lítið annað að gera annað en að reyna að hjálpa þeim sem eru haldin þessum námsörðugleikum.
***
Og að lokum: það er hellingur að ferðamennsku heimsins. Ákveðnir staðir eru löngu mettaðir, hinu fallega er breytt í eitthvað gróteskt – en það er ekki út af ferðamennsku. Í alvöru. Nei, það er út af kapítalisma, gangverki sem finnur sífellt nýjar leiðir til þess að gera okkur að maurum í tannhjóli, þegar síldin fer er síldarvinnslufólkið sjálft er einfaldlega saltað og sett í síldartunnu, það er lógík flugvalla heimsins og þeirra sem mestu ráða í mörgum túristaborgum heimsins.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson