Hér getiði lesið frétt um hvernig borgarstjórn Prag ætlar að endurskýra Kastaníutorgið við sendiráð Rússlands og kalla það eftir Boris Nemtsov, stjórnarandstæðingi sem hefur verið eins helsti gagnrýnandi Pútíns síðustu árin – eða allt þar til hann var myrtur fyrir tæpum fimm árum síðan. Morðingjarnir fimm voru handteknir og dæmdir – en þeir voru atvinnumorðingjar og var borgað fimmtán milljón rúblur fyrir verkið. Hver var borgunarmaður fyrir því hefur aldrei komið í ljós, en í ljósi þess hve margir stjórnarandstæðingar hafa endað í gröfinni hafa ýmsir dregið sínar ályktanir. Eins og sést á myndinni voru þeir Pútín ágætis félagar einu sinni, en það er langt síðan. Já, og við þetta má bæta að ég fann myndina á Wikimedia Commons, en þaðan geta fátækar heimasíður notað myndir endurgjaldslaust. Stundum er þó tekið fram að höfundar skuli getið, sem manni er vitaskuld ljúft að gera. Og því er rétt að taka þetta fram: myndin er í boði Kremlar. Þannig að, kærar þakkir fyrir myndina, kreml.ru.
En hér kemur játning: Ég stofnaði síðuna Algjörlega óáhugaverðar götuheitaupplýsingar út af svona sögum. Af því ég var byrjaður að fatta að þótt götuheiti virtust kannski ómerkileg og óáhugaverð þá bókstaflega geta þau ekki verið það. Hvert einasta götuheiti í veröldinni er stórfenglega merkilegt.
Ég er búinn að búa nógu lengi í Tékklandi til að vita að svona meinlaus aðgerð, að skýra torg nýju nafni, er ekki bara stórpólitísk aðgerð á allt annan og meiri hátt en við getum ímyndað okkur á Íslandi. Hún er líka til marks um ótrúlegt og sjaldgæft pólitískt hugrekki.
Kannski gerist ekkert. Vonandi. En kannski verður Pútín brjálaður – og guð einn veit hvað gerist þegar Pútín verður brjálaður. Tékkar hafa einmitt bitra reynslu af því þegar rússneskir ráðamenn verða brjálaðir út í það.
En það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir öllu máli er að vera frjáls. Það vita þeir sem muna þegar rússneskir skriðdrekar rúlluðu inní Prag og tóku frelsið frá þeim í 21 ár. Og borgarstjóri sem lætur Pútín stjórna því hvað stendur á götuskiltum borgar sinnar er ekki frjáls. En sem betur fer er Zdenek Hrib, borgarstjóri Prag, frjáls maður. Hann er borgarstjóri í landi þar sem forsetinn er gamall trúður og forsætisráðherrann er spilltur bisnessmaður og fyrrum njósnari kommúnistastjórnarinnar. Þessir menn eru ekki að fara að standa upp í hárinu á Pútín. Þvert á móti – góður tékkneskur vinur minn sagði mér á kjarnyrtri íslensku að Zeman forseti væri einfaldlega „rússarassasleikja.“ Og um það efast fæstir.
En Zdenek Hrib er frjáls maður. Hann er borgarstjóri í borg sem telur milljón manns – sem er þrefalt Ísland, en dropi í hafið samanborið við Rússland og Kína, tvö heimsveldi sem hann hefur boðið birginn. Það búa 1,2 milljarður manna í Kína, 145 milljónir í Rússlandi. Þetta er eins og Þingeyri hefði lýst yfir stríði við bæði Moskvu og Norður-Kóreu til þess að frelsa alla fangana í gúlögum landanna í Kalda stríðinu. Líklega hefðu Moskva og Norður-Kórea ekki tekið eftir þessu upphlaupi Þingeyrarbúa – en samt, ef Stalín hefði fengið bréfið hefði hann mögulega bara sent litla kjarnorkusprengju á Vestfirðina.
Auðvitað er þetta samt torg, en torg eru stundum götur líka. Stígar geta verið götur líka, þetta eru flóknari og margbrotnari fræði en lítur út fyrir í fyrstu.
Og auðvitað er saga sumra götuheita ekki svona dramatísk. Kannski voru þau bara nefnd eftir frægu tónskáldi sem allir elska eða hól sem er löngu horfinn eða lestarstöðinni sem var þarna áður en elsti íbúinn í götunni fæddist.
En ég er búinn að læra að það eru margar leiðir til þess að skilja borgir og íbúa hennar. Ein er að læra málið. Önnur er að sökkva sér í bækur, um borgina og íbúa hennar, eða bækur samdar af íbúam hennar, gömlum og nýjum, lifandi og dauðum. Eða bíómyndir eða tónlist eða leikverk sem sama gildir um. Þetta vita flestir. En svo er dularfyllsta leiðin sem fæstir þekkja; að læra eins mörg götuheiti og þú getur. Læra svo alveg óvart hvaða búðir og verslanir eru við götuna. Og svo ferðu að fatta að flestar götur hér eiga sína píslarvætti. Þeir láta lítið fyrir sér oftast, nöfn þeirra eru á litlum platta á einhverju húsinu. Til að minna okkur á söguna. Á dauðann. Að hérna, akkúrat hérna, þar sem þú stendur í dag og ert sprellifandi, þá dó einhver. Kannski óvart, kannski í stríði sem hann trúði á eða stríði sem hann trúði ekki á. En hann dó fyrir frelsið, sem hann hjálpaði oftar en ekki við að endurheimta. Þegar Boris Nemtsov verður flestur gleymdur mun einhver ganga þetta torg, verða forvitinn, og fletta honum upp á Wikipediu þess tíma. Kannski rússneskur sagnfræðingur, sem vissi ekkert um þennan mann sem kannski hefur verið rækilega skrifaður út úr þarlendum sögubókum.
Og jafnvel götur þar sem enginn dó við og enginn býr við eiga sér sína sögu. Þær eru draugagötur; þær eru götur sem áttu að verða götur en urðu í raun bara götuheiti. Saga sem aldrei var sögð, saga sem átti að gerast en gerðist aldrei, af því einhver ákvað að byggja aðra götu í staðinn. Eða kannski kom kreppa og fólk hætti tímabundið að byggja og gleymdi svo þessari götu þegar það byrjaði að byggja aftur.
Svo búa kannski bara örfáir við þessa götu. Kannski er þetta raðhús sem enginn reiknar með að endi á spjöldum sögunnar. Nema við krakkarnir sem lékum okkur þar. Ef þú ert krakki sem bjó fyrstu 15 ár ævi þinnar í Heiðarlundi á Akureyri þá veistu vel að þessi raðhúsagata er allur heimurinn. Að minnsta kosti þegar þú varst fimm ára og fæturnir voru of stuttir til að labba mikið yfir stóra túnið í næstu götu eða yfir Skógarlundinn, umferðargötuna sem virkaði risavaxin þá, en ég kalla varla einu sinni umferðargötu núna. Enda var ég einu sinni barn sem skynjaði hið augljósa – að auðvitað ættu borgir og bæjir að vera að mestu lausar við bíla. Svo ferðu að taka þeim eins og hverju öðru hundsbiti.
Allt þetta, stórt og smátt, er bara sönnun á því að nafnið á þessari ágætu götuheita-grúppu er öfugmæli. Stórkostlega áhugaverðar götuheitaupplýsingar væri betra nafn, það vitum við öll. Ég ætla samt ekki að loka grúppunni eða breyta nafninu. Af því öfugmæli er vanmetin listgrein. Öfugmæli eru ljóðræn og varpa ljósi á hið óvænta og að það sem við héldum að væri ómerkilegt sé í raun stórmerkilegt. Öfugmæli halda þeim í burtu sem skilja ekki öfugmæli og taka allt of bókstaflega.
En svo er öfugmæli líka götuheiti. Einhvers staðar í veröldinni er Öfugmælagata. Gata sem veit að hún er stórmerkileg en segir engum frá því, læst vera ómerkileg og óáhugaverð þótt í henni búi saga allrar veraldarinnar. Ég læt ykkur vita þegar ég finn hana.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd / Photo: By Kremlin.ru, CC BY 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=5119787