Núna er Stockfish hátíðin búin og búið að skella í lás hjá Bíó Paradís – vonandi ekki fyrir fullt og allt, enda væri endanlega hægt að afskrifa miðbæ Reykjavíkur ef það gerist.

Mér var boðið á hátíðina í fyrri hluta febrúar, þegar kófið hafði ekki ennþá náð að neinu ráði til Evrópustranda – í millitíðinni heimsótti ég Berlinale þar sem menn voru byrjaðir að vera uggandi, enda ástandið orðið alvarlegt á Ítalíu, en hátíðin gekk engu að síður að flestu leyti sinn vanagang.

Svo var byrjað að fresta stöku viðburðum, þar á meðal kvikmyndahátíðum, en Stockfish var enn á dagskrá og aðgerðir flestra evrópskra stjórnvalda utan Ítalíu voru enn afskaplega vægar, svona eftir á að hyggja. Tékknesk stjórnvöld höfðu ekki brugðist við á neinn áþreifanlegan hátt – fyrr en 10. mars, daginn áður en ég átti flug, þegar það var gefið út að öllum skólum landsins yrði lokað daginn eftir.

Föstudaginn 13. mars var svo gefið út að landinu yrði einfaldlega lokað, frá og með næsta mánudegi. Og ég fastur heima, í hinu heimanu, þar sem ég á þó hvorki né leigi neina íbúð lengur og er upp á góðviljaða vini og ættingja kominn, heima á Íslandi.

Síðast þegar ég var heima á Íslandi á föstudaginn þrettánda var ég að jarða pabba minn. Og þessi Íslandsferð er einkennilega lík þeirri síðustu, þegar pabbi kvaddi, að því leyti að maður veit ekkert almennilega hvað maður verður lengi (þótt í þetta skiptið hafi ég verið með bókaðan miða út aftur), og ómögulegt að spá um það, og það var einhver einkennilegur beygur í manni. Allt öðruvísi en þá samt, ekki dauðabeygur heldur miklu frekar beygur yfir því að jafnvel þótt við lifum veiruna af (sem við gerum flest) muni ríkisstjórnir heimsins, bæði alræðisstjórnirnar og líka þessar sem virðast bara lítillega vafasamar núna, hneppa okkur í fjötra lögregluríkis og enn meiri fátæktar en hefur orðið til í vaxandi misskiptingu undanfarinna ára.

En heyrðu, ég var að tala um kvikmyndahátíð – afsakið, stundum kemur helvítis kófið yfir mann!

Stockfish fór sem sagt fram – þetta er nógu fámennur viðburður til þess að standast kröfur samgöngubannsins sem sett var daginn eftir (og hert rækilega daginn eftir að hátíðinni lauk) og fyrst framan af var hátíðin ágætlega sótt, miðað við aðstæður. Þannig gekk það frá fimmtudegi til þriðjudags – en þegar ég mætti í bíó á miðvikudagskvöldi þá vorum við þrjú í stóra salnum og fámennið var svipað á föstudaginn, þótt átta-sýning á föstudegi ætti almennt að vera með fjölmennari bíósýningum.

Sem er mikil synd fyrir þá sem misstu af, enda meðalgæði mynda á hátíðinni hreint prýðileg. Ég náði að sjá sjö myndir í fullri lengd plús 6 stuttmyndir og hafði auk þess séð þrjár áður – og um helmingur allra þessara mynda voru frábærar og flestar hinna góðar.

Kosturinn við fámennið var þó að maður var orðin ágætlega málkunnugur flestum starfsmönnum og sjálfboðaliðum hátíðarinnar, sem var mikið einvalalið – og munið bara á fyrstu kvikmyndahátíð eftir kóf: verið góð við sjálfboðaliðana!

Ég hefði auðvitað vilja sjá miklu fleiri og skrifa þetta allt saman á meðan á hátíðinni stóð, en bæði þurfa bíóblaðamenn líka að lifa og fá alvöru peninginn í alls konar skrítnum þýðingaverkefnum og alls konar öðrum skringilegum djobbum (allavega ég – þangað til ég næ að sirka þrefalda áskriftafjöldann hérna), auk þess sem sá tími sem ég hefði að öllu jöfnu haft hvarf einhvern veginn í kóf þessara daga, þegar maður neyddist aðeins til að fylgjast með heimsviðburðum – og bregðast við þeim oft á tíðum – þótt maður ætti að vera að vinna.

En hættum að tala um kóf og hark, förum að tala um bíómyndir! Ég ætla að byrja þessa Stockfish yfirferð á því að rifja upp það sem ég hafði að segja um þær þrjár myndir hátíðarinnar sem ég hafði séð áður – og svo kemur pistill um opnunarmyndina að vörmu spori, nánar tiltekið seinna í dag.

Þessar þrjár myndir eru Samheiti (Synonymes), sigurvegari Berlinale-hátíðarinnar fyrir rúmu ári síðan, Hið ósýnilega líf Evridísar Gusmao, sem vann Un certain regard verðlaunin á síðustu kvikmyndahátíð á Cannes, og Skræpótti fuglinn (The Painted Bird) sem var framlag Tékka á síðustu óskarsverðlaunahátíð og komst á stutta listann yfir bestu erlendu myndir – en af myndunum tíu sem voru á þeim lista voru svo fimm tilnefndar.

Útlagi frá eigin tungumáli

Gullbjörninn sjálfan hlaut svo ísraelsk-franska myndin Samheiti, eða Synonymes. Myndin hefst í fjölbýlishúsi í París – þar er dularfullur maður sem kemur úr sturtu, nakinn, og uppgötvar að öll húsgögn eru farin og hann hleypur um húsið, að því er virðist aleinn í heiminum, bankar hjá nágrönnunum og engin svarar. Skömmu síðar uppgötvar franskt par hann, nær dauða en lífi úr kulda í tómu baðkari.

Þetta virðist vera einhver vísun í Palli er einn í heiminum, bók sem er að vísu lítt þekkt annars staðar en á norðurlöndunum, en fljótlega fer aðalpersónan, Yoav, að segja parinu sögu sína. Hann er Ísraelskur og það er ættgengt að frjósa nærri því í hel. Það munaði minnstu að faðir hans frysi í hel líka, sem og afi hans.

Þetta er líkamleg mynd en líka mynd um tungumál og sjálfsmynd. Yoav flutti til Frakklands af því hann gat ekki hugsað sér að lifa  áfram sem Ísraeli, gat ekki hugsað sér að tala hebresku lengur. Hann talar einkennilega frönsku og talar ensku við ættingjana þegar þeir hringja, þótt þeir tali hebresku við hann. Hann tengir Ísrael við ofbeldi hermenskunnar, sem allir þegnar landsins þurfa að sinna, hans uppreisn er að afneita Ísrael og hebreskunni, föðurlandinu og móðurmálinu. Hann rifjar upp sögu af afa sínum sem flutti til Ísrael eftir helförina og neitaði að tala móðurmálið, jiddísku, af því hann tengdi það við hvernig hafði verið kúgaður og vildi því frekar tala hebresku. Þegar hann er spurður hvort hann sé að gera öfugt við afann með því að neita að tala tungumál kúgaranna þá svarar hann að þvert á móti sé hann að gera það sama, bara í öðrum aðstæðum.

Í gegnum frönskunámskeið sjáum við svo frönsku útgáfuna af þessu sama, þegar gamla nýlenduþjóðin kennir verðandi ríkisborgurum um Marseillasinn og frönsk gildi.

Leikstjórinn Nadav Lapad segir móður sína, klipparann Eru Lapad, hafa verið sinn nánasta samstarfsmann, en móðirin klippti myndina bókstaflega á dánarbeðinu. Lapad segir myndina fjalla um sjálfsmynd okkar og fortíð, hvernig við séum fangar hvoru tveggja og það eigi við um fólk alls staðar að úr heiminum. En sem Ísraeli þá þurfi hann að kljást við ísraelska sjálfsmynd – og sú sjálfsmynd sé lítt sveigjanleg og yfirþyrmandi – og brjótist oft út með ofbeldi. Við skulum gefa sigurvegara Gullbjarnarins lokaorðið.

„Að hve miklu leyti erum við fangar eigin sjálfsmyndar, okkar eigin fortíðar? Það er spurning sem varðar fólk alls staðar að úr heiminum. Að hve miklu leyti getum við losnað við eigin sjálfsmynd og skapað nýja?“

Gullfallegt brasilískt systramelódrama

Stéttaátök eru einnig í forgrunni hinnar sigurmyndarinnar frá Cannes, hinnar brasilísku myndar Hið ósýnilega líf Evridísar Gusmao, sem hlaut aðalverðlaunin í Un Certain Regard-flokknum, sömu verðlaun og Hrútar hlutu fyrir fjórum árum síðan. Myndin gerist nánast öll á sjötta áratug síðustu aldar og fjallar um tvær systur sem örlögin stía í sundur. Og þegar ég segi örlögin þá er ég í raun að tala um pabba þeirra. Guida, sú eldri, heldur til Grikklands að elta sjóarann sem barnaði hana – en þegar hún kemur aftur afneitar faðir hennar henni og lýgur jafnframt því að Evridís sé komin í nám til Vínarborgar, sem reynist svo draumur sem aldrei rætist.

Þetta er suður-amerískt melódrama í ætt við telenóvellurnar sem Ríkissjónvarpið sýndi reglulega fyrir einhverjum áratugum síðan, og þaðan kemur veikleiki myndarinnar – tilviljanirnar eru aðeins of þægilegar stundum, maður finnur óþægilega mikið á köflum fyrir óþarflega sýnilegri hönd handritshöfundarins, flæðið mætti stundum vera aðeins náttúrulegra. Engu að síður er gaman að velta fyrir sér hversu ómöguleg svona saga væri í nútímanum, þar sem flest okkar erum auðfinnanleg með örlitlu gúgli eða leit á Facebook eða Twitter, í það minnsta ef við viljum finnast.

Að þessu öllu sögðu vega kostir myndarinnar gallana rækilega upp. Stærsti kosturinn er myndatakan – hér birtist okkur ægifögur Ríó de Janeiro þar sem skarpir litirnir drjúpa af hverjum ramma, það er bókstaflega erfitt að standast freistinguna að bóka miða til Ríó strax eftir mynd – og sjálfsagt hefði maður gert það ef maður hefði haldið að þessi Ríó væri enn þá til. Myndin er um margt gamaldags í takt við sögusviðið, nema þegar kemur af kynlífssenunum, sem eru skemmtilega nútímalegar og frakkar en þó aðallega sannfærandi klaufalegar. Hér valda flestir karlmenn systrunum á endanum vonbrigðum, á einn eða annan hátt.

Það besta við myndina eru þó aðalleikkonurnar tvær, Carol Duarte sem Evridís og jafnvel enn frekar Julia Stockler sem Guida – og raunar er titillinn hálfpartinn ósanngjarn og misvísandi, þetta er alveg jafnmikil saga Guidu og Evridísar og báðar eiga ósýnilegt líf á sinn hátt. Evridís heldur sig alltaf við millistéttarlífið sem hún er fædd í, á meðan Guida, sem einstæð móðir, lifir í hálfgerðri kommúnu fátæklinga og öreigabarna. Andstæðurnar eru vissulega ekki jafn skarpar og í Parasite, fátæktin virðist ekki jafn sár og erfið og eins er styttra á milli stétta – hér sést hástéttin varla.

Hins vegar er sannarlega kaldhæðni örlaganna að tvær myndir um stéttaátök vinni stóru verðlaunin á Cannes – og alls ekki í fyrsta skipti – þegar höfð er í huga stéttskiptingin sem birtist á hátíðinni, sem gefur sjaldan neinn afslátt af snobbinu. Þetta fylgir vissulega flestum stærstu kvikmyndahátíðunum að einhverju leyti – og þær mættu margar alveg stundum reyna að láta skilaboðin úr myndunum sjálfum enduróma betur í áherslum hátíðanna sjálfra. Karlovy Vary er sannarlega ekki laus við smásnobb, partí með dresskóða og slíku. En heilt yfir er þetta þó alþýðleg hátíð, hátíð sem háskólakrakkar fjölmenna á og sofa þess vegna í tjöldum og eiga ágætis séns á að komast á vinsælustu myndirnar í bíó. Og við kvikmyndaskríbentarnir sem höfum ekki efni á Cannes getum oft séð sigurmyndirnar hérna.

Forrest Gump í heimstyrjöldinni

Við erum stödd í Slavneskum skógi og sjáum ungan pilt hlaupa. Hann er að flýja væntanlega kvalara sína. Hann er með lítið dýr í fanginu sem sést illa, smáhund, mink – það virðast skiptar skoðanir á því. Myndin var bara að byrja.

Fljótlega ná aðrir strákar honum, jafngamlir eða aðeins eldri – og kveikja í dýrinu sem maður náði aldrei að sjá almennilega.

Myndin Skræpótti fuglinn, The Painted Bird, var bara að byrja og hlutskipti stráksins verður bara verra og verra. Ímyndaðu þér allt skelfilegt sem gæti gerst við ungan gyðingdreng í miðri heimstyrjöld í hinum dreifðu byggðum Austur-Evrópu – og það mun gerast. Nema að hann sleppur við útrýmingarbúðirnar – þótt litlu megi þó muna.

Framan af hefði maður samt hreinlega ekki vitað að sagan gerðist í heimstyrjöldinni síðari ef maður hefði ekki heyrt af því áður. Þetta gerist í ævafornum slavneskum sveitum þar sem ekkert minnir á 20. öldina. Þetta er heimur sem virðist alveg laus við bíla og síma og ísskápa, rafmagn eða neinn annan 20. aldar lúxus.

Þessi heimur virðist líka alveg laus við upplýsinguna. Hugmyndir þorpsbúa og sveitunga eru allar á miðaldastiginu, þetta er hjátrúarfullt fólk úr hófi fram og hjátrúin birtist því miður helst í hatri og fyrirlitningu á náunganum. Og einkennilegum hugmyndum konu einnar um að stráksi sé vampíra, sem er einkennilegt í ljósi þess að þetta fullyrðir hún um hann í glampandi dagsbirtu. En það eru vissulega ýmsar vampírutegundir til.

Myndin er svart-hvít og gullfalleg á að líta, minnir raunar um margt á eistnesku myndina November – sem sömuleiðis var svart-hvít og gerðist í hjátrúarfullri eistneskri sveit, trompið sem November hafði uppi í erminni var að þar komu raunverulegar þjóðsagnapersónur við sögu – og auk þess var myndin alveg jafn falleg og grótesk og Skræpótti fuglinn – en um leið líka fyndin og hjartnæm, sem þessi er því miður sjaldnast.

En ímyndaðu þér að Bela Tarr og Eli Roth myndu gera saman Forrest Gump í heimstyrjöldinni – þetta er sú mynd. Ægifagrir rammar eins og hjá Bela Tarr, töluvert skýrara plott vissulega, og eindreginn ásetningur þess að kvelja aðalpersónuna.

Framan af er myndin þó frekar fyrirsjáanleg – það er helst að hún komi á óvart þegar pyntingin er allavega frumleg. Eins og í áðurnefndu upphafsatriði, eða þegar strákurinn er grafinn lifandi þannig að aðeins hausinn stendur upp úr og nokkrir hrafnar byrja að krunka í snoðaðann kollinn.

Nútíminn í fullum herklæðum

Um miðja mynd birtist svo loks nútíminn, nítjánhundruðfjörtíu og eitthvað, fyrst aðeins í rússneskum hermönnum og einni byssu, svo bifreið og loks þýskum hermönnum.

Þá tekur líka hlutskipti stráksa að batna töluvert, hermennirnir virðast almennt miklu almennilegri en bændadurgarnir sem kvöldu hann framan af mynd – og þótt hann sé ekki alveg sloppin frá þeim, þeir halda áfram að vera kvalarar hans á meðan hermennirnir, bæði þýskir og rússneskir, reynast honum almennt vel.

Þarna koma líka allar stjörnurnar, þótt Udo Kier hafi að vísu brugðið fyrir áður. En maður býst ekki beint við því í tékkneskri mynd að hitta fyrir Stellan Skarsgård, Harvey Keitel, Julian Sands og Barry Pepper. En myndin er svosem aðeins tékknesk út af leikstjóranum – hún er fyrst og fremst slavnesk og það er undirstrikað bæði með því að nefna aldrei nákvæma staðsetningu (þótt myndin sé að mestu tekin í Úkraínu) og með því að nota, fyrst allra bíómynda, interslavic (sem áður kallaðist slovianski), tilbúið tungumál í anda esperantó sem á að hjálpa slavaþjóðunum öllum að eiga í samskiptum. Þessi sam-slavneska á rætur sínar í gömlu kirkju-slavneskunni, sem var jú rót ritmáls allra slavnesku þjóðanna, auk þess sem hún hefur reynt að taka hluti úr þeirri slavnesku sem verður til á alþjóðlegum slavneskum ráðstefnum, á sama hátt og skandívíska verður til hjá norrænum þjóðum.

Athyglisverðasti hluti myndarinnar – og sá sem er kannski síst fyrirsjáanlegur – eru hins vegar stríðslokin. Maður á það til að sjá þau fyrir sér sem allavega létti, jafnvel fögnuð, en nei, það eru allir alltof trámatíseraðir til þess að láta svo mikið sem að brosa. Stráksi finnur föður sinn – en svo sitja þeir bara saman í þrúgandi þögn, heil heimstyrjöld á milli þeirra.

Stolnar sögur og vafasamur titill

Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu pólsk-ameríska rithöfundarins Jerzy Kosiński, sem Gissur Ó. Erlingsson íslenskaði úr ensku og bætti við mjög hjálplegum undirtitli á titilsíðu: „hrikaleg frásögn frá Austur-Evrópu um vitfirringu síðari heimstyrjaldarinnar.“ Gissur varð svo seinna meir elstur íslenska karla, áður en hann lést árið 2013.

En aftur að höfundin sjálfum, eða kannski frekar meintum höfundi. Kosiński er þekktastur fyrir aðra bók sem frásagnarlega minnir jafnvel ennþá meira á Forrest Gump en þessi – Being There.

Skræpótti fuglinn var hins vegar frumraun hans og framan af reyndi hann að láta sem um sjálfsævisögulega sögu væri að ræða. Seinna kom hins vegar í ljós að þótt hann hafi vissulega alist upp sem gyðingur í pólskri sveit, þá var hann þar í afskaplega góðu yfirlæti og var meira að segja með sína eigin þjónustustúlku.

Ekki nóg með það, heldur kom líka á daginn að bókin var meira og minna stolin, heilu kaflarnir beinþýddir úr pólskum bókum sem aldrei höfðu komið út á ensku – og það skýrir af hverju sagan er eins og samansafn af öllu því versta sem gæti gerst fyrir einn ungan dreng í þessum aðstæðum, það var einfaldlega vegna þess að hún er í raun eins og safn sýnitexta um einmitt það, væntanlega úr bókum sem fæstar eru jafn einhliða martröð. Þá hafa einnig lengi verið efasemdir uppi um að hann hafi yfir höfuð skrifað þessa stolnu bók, til þess hafi enskan hans ekki verið orðin nógu góð þarna, nýlentur í Ameríku.

Svo eigum við ennþá eftir að ræða titilinn. Sem er fallegur, vissulega, en skýringin á honum í myndinni er óþægileg; skræpótti fuglinn er málaður ýmsum litum – og sendur aftur til móts við fuglahóp sem flýgur yfir. Sem vitaskuld slátrar þessum einkennilega lita aðskotafugli. Þetta er óþægileg sena – og kannski helst vegna þess að hún ýjar að því að rasismi sé einfaldlega eitthvað náttúrulegt fyrirbæri, frekar en sá félagslegi arfur sem hann er.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Forsíðumynd: Brynjar Leó Hreiðarsson