Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að leggja sitt að mörkum með að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.
Við byrjum á lagi frá tímum sem voru að líða, Butch Cassidy and the Sundance Kid fjallar jú um veröld sem er að líða undir lok, þetta er á sinn hátt síðasti vestrinn – en það stoppar ekki Ross, Newman og Redford í að hjóla og njóta lífsins á milli afbrota. Rigningin kemur hér í staðinn fyrir snjóinn, enda flest hress snjólög óviðeigandi jólalög.
ÞEtta er fullkomlega órökrétt en lífsnauðsynleg bjartsýni á þessum frostavetrarkófsvetri, svona áður en heimsmyndin umturnast einhvern veginn aftur á morgun.
* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.