Eitt af því fyrsta sem maður lærir um brandara er að þeir séu eins og froskar – um leið og þeir eru krufnir þá drepist þeir. Þessi klisja á hins vegar aðallega við vonda brandara sem eru illa fluttir.

Besti brandari í heimi afsannar þessa kenningu nefnilega rækilega, í rauninni er hann ekkert sérstaklega fyndinn fyrr en hann er krufinn – og það alfyndnasta er svo fattleysi áhorfenda. Ég er að sjálfsögðu að tala um ógleymanlegt atriði rækjunnar Pepe og fílsins Seymour að útskýra af hverju það er fyndið að splæsa saman ensku orðunum fyrir fíl og nashyrning, fílhyrinngur verður elephino á ensku og viðbragðsleysi áhorfenda við brandaranum, við útskýringuna og við hvern trommuslátt kjarnar betur en flest annað stærsta ótta allra listamanna sem stíga á svið fyrir framan stóran hóp áhorfenda. Þá væri baulið betra, það eru allavega viðbrögð.

Og eftir því sem maður horfir oftar kann maður betur að meta tónlistina og dans þeirra félaga, þið gerið bara eins og Seymour og Pepe. Þeir kunna þetta.

Annars varð mér hugsað til þessa brandara aftur um daginn þegar ég rakst á grein um málfræðilegan mun á breskum og þýskum húmor. Mjög fróðleg grein – en svo eru líka nokkrir æðislegir þýskir brandarar næst sem eru á einhvern skrítinn hátt mjög náskyldir Prúðuleikarafyndninni.

Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 14

Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.

* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson