Ertu búin/n að fá nóg af vetrinum sem er að ljúka (svona formlega) og ert pikkföst/fastur í húsinu þínu, bænum þínum, þessu kalda landi?
Þá er gott að setja Joni á fóninn, hún skilur þig.
I get the urge for going but I never seem to go
I get the urge for going
Hana langar að fara en fer ekki neitt, ástæðurnar breytast en tilfinningin er svipuð.
Þetta er lag um veturinn sem hámar í sig sumarið, þegar sólin sjálf verður svikul og köld og nakin tréin skjálfa. Hún man sumarástir – en ólíkt henni fór ástin í burtu. Sum okkar verða svo eftir föst, þangað til fer að vora.
Það er harmur á bak við lagið, sem er eitt af elstu lögum Joni. Hún eyddi vetrinum 1964-5 í hrollkaldri Toronto og átti þar barn með kærastanum sem hafði stungið af til Kaliforníu, barnið gaf hún til ættleiðingar. Þetta er spurning um líf eða dauða:
And all that stays is dying and all that lives is getting out
Þetta er líka um líf á pásu, um þá sem eru fastir í einangrun/sóttkví/kulda:
I’ll lock the vagrant winter out and I’ll bolt my wandering in
Og á meðan hrynur heimurinn:
And all her empires are falling down
Á meðan geturðu dansað veturinn í burtu við söng Joni, hann fer – og kannski getum við farið eitthvað bráðum.
Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 12
Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.
* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson