Arndís Þórarinsdóttir gaf út ljóðabókina Innræti í miðju kófi og hélt því útgáfuhófið á netinu. Hún hefur áður sent frá sér barna- og unglingabækurnar Játningar mjólkurfernuskálds, Nærbuxnaverksmiðjuna og Nærbuxnanjósnarana, auk þess að þýða rit J.R.R. Tolkien, Bjólfskviða: forynjurnar og fræðimennirnir fyrir Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags. Þá samdi hún lestrarbækurnar Sitthvað á sveimi og Galdraskólann fyrir Námsgagnastofnun og hefur verið skrifað töluvert um bókmenntir í Tímarit máls og menningar, Börn og menning, Spássíuna og fleiri rit.

En hvernig var að gefa út fyrstu ljóðabókina eftir þrjár barna- og unglingabækur?

Bara voða svipað, eiginlega. Það er alltaf ógnvekjandi að berskjalda sig. Stóri munurinn var eiginlega að…

Og hvernig var að gefa út í Kófinu miðju og halda rafrænt útgáfuboð?

… já, einmitt. Það var það sem var sérstakt. Það var skrýtið að halda ekki útgáfuboð, hitta ekki fólkið sitt, geta ekki sótt höfundareintökin sín út af sóttkví. Einhvern veginn svolítið nítjándualdarlegt og framtíðarlegt í senn. Ég hef ekki enn séð bókina í bókabúð. Þetta verður allt dálítið óraunverulegra svona.

Nú er bókin skrifuð í fyrstu persónu. Hvaða máli skiptir „ég-ið“ í skáldskap og hvernig nálgastu það?

Ég held að ég nálgist skáldskap – og raunar líka þýðingar – út frá röddum. Einu sinni þýddi ég bókmenntaritgerð eftir Tolkien, og sterkasta minningin frá því þýðingarferli er þessi áleitna tilfinning um að vera ekki að reyna að koma sjálfum orðunum í ritgerðinni á íslensku, heldur að reyna að ná því hvernig ímyndaður íslenskumælandi Tolkien hefði orðað hugsunina. Sem er ekki alveg það sama – raunar alls ekki það sama. Tilbúnar persónur verða sömuleiðis til hjá mér í gegnum hrynjandi eða orðanotkun, ég þekki persónuna þegar ég veit hvernig hún hljómar. Þess vegna gerðist það frekar eðlilega, að ef ég vildi komast nálægt einhverri hrárri tilfinningu, þá þyrfti rödd og röddin þyrfti að mæla fyrir sjálfa sig. Svo þannig varð til ég Innrætis. Sögupersóna sem er nálægt mér að mörgu leyti en þó ekki öllu.

Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?

Eitthvert sturlað hæfileikafólk sem er núna heima hjá sér að prófa sig áfram með iPad-kvikmyndagerð af því að grunnskólarnir eru lokaðir.

Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?

2007 – við maðurinn minn fórum með mjög litlum fyrirvara í mjög ódýra pakkaferð til Spánar. Við höfðum búið í London og nýtt tækifærið þá og þvælst í einhverjar borgarferðir, en við vorum orðin þreytt á dómkirkjum og listasöfnum – þreytt almennt eftir strembinn vetur og vildum bara fara í sól. Og þarna vorum við (að minnsta kosti í minningunni) á sundlaugarbakka að lesa bækur og drekka sangríu í heila viku. Og ég man að ég horfði á hann og sagði við hann: „Einhvern tímann verður heimurinn þannig að það verður mjög erfitt að útskýra fortíð þar sem fólk flýgur langar vegalengdir til þess að gera ekkert.“

Svona er maður. Maður breytir rangt þótt maður beri kennsl á að það sé rangt, og vonar bara að maður sé enn réttu megin við óumflýjanlega hugarfarsbreytinguna.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?

The Arrival eftir Shaun Tan. Hún er eiginlega ljóðabók án orða og ætti því að vera aðgengileg mörgum þegar hún birtist óvænt innan um uppskriftabækur, innan í fataskápum og ofan í sokkaskúffum heimsbyggðarinnar eftir þessa rosalegu smygl-aðgerð.

Hvað gerir broddgelti svona ljóðræna?

Broddgeltir eru náttúrulega svo ljóðrænir að það ætti að banna þá í skáldskap. Þetta er of mikið. En þeir eru líka hversdagslegir og framandi í senn, sem er svo skemmtilegt. Gangandi, snuðrandi framandgerving.

(Innskot ritstj.: Þetta er vel að merkja broddgöltur á kápunni – sem sést betur þegar henni er flett, trýnið á honum er á jakkarönd kápunnar)

Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?

Where The Wild Things Are eftir Maurice Sendak! Ég er mjög glöð að það stendur til að bæta úr þessu, en Sverrir Norland hefur boðað þýðingu fljótlega. [innskot ritstj.: Íslenskur titill bókarinnar ku verða Þar sem óhemjurnar eru]

Eru nærbuxur í þessari ljóðabók? Eða mjólkurfernur?

Hvorugt held ég. En hvort tveggja ætti alveg heima í henni, nærbuxur og mjólkurfernur eru jú mikilvægar byggingareiningar hversdagsins.

Eftirminnilegasti ljóðaupplestur sem þú hefur tekið þátt í?

Ég hef eiginlega ekkert tekið þátt í ljóðaupplestrum. Ég er sko frekar hrædd við ljóðskáld og hef ekki mikið komið nálægt þeim. Eftirminnilegasti upplesturinn er samt úr fyrsta jólabókaflóðinu mínu, 2011, þegar við Jónína Leósdóttir vorum fengnar til að lesa upp í Breiðholtslaug á Breiðholtsdögum. Laugin var venjulega ekki opin á kvöldin, en var það í tilefni þessara daga, en það var lítil stemmning í kringum Breiðholtsdaga, þeir illa auglýstir og fáir í lauginni. Við Jónína vorum næstar „á svið“ á eftir hressum harmóníku-flokki, sem í voru talsvert fleiri harmóníkuleikarar en voru gestir í lauginni. Enginn gestanna í lauginni var barn eða unglingur, sem var óheppilegt þar sem við Jónína vorum með bækur sem voru ætlaðar stálpuðum krökkum eða unglingum. Aumingja fólkið komst ekki upp úr lauginni á meðan við lásum – og aumingja við þurftum að híma þarna á bakkanum og lesa fyrir þessa vesalings gísla í lauginni, sem voru þar fastir í kurteisishlekkjum.

Hvaða kennari hafði áhrif?

Ó, það þykir ekki svalt að tala um utanbókarlærdóm á ljóðum, en samt eru það minningar sem sitja (kannski eðli málsins samkvæmt) eftir. Sigrún Aðalbjarnardóttir kenndi mér fyrstu fjóra veturna í grunnskóla, í Ísaksskóla, og ég man svo vel langa renninga sem hún hafði útbúið með söngtextum, sem héngu niður úr loftinu. Fyrst lærði bekkurinn að syngja kvæðin, svo þegar orðin höfðu verið greipt í hugann urðu renningarnir ómeðvituð stoð í lestrarnáminu, því augun fylgdu orðunum á renningnum á meðan var sungið. Þannig tengdust hljóð og bókstafir. Að endingu lifnuðu textarnir við, orðin runnu í samhengi og öðluðust merkingu vegna mynda sem kennarinn hafði teiknað í kringum hvert erindi. Það sem er slæmt við utanbókarlærdóm er þegar hann verður að páfagaukalærdómi. Þarna vann allt saman og gekk upp.

Þú ert ráðin dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?

Það er ægilega púkalegt, en ég er svo mikill anglófíll að það háir mér talsvert í daglegu lífi. Já, þeir eru úrkynjaðir og já, þeir kusu sér Boris Johnson sem forsætisráðherra og já, þeir éta Marmite ofan á brauð og drekka versta te í heiminum og svo var það þetta smámál með að leggja undir sig hálfan heiminn með hervaldi og kúga heimafólk. Þetta er allt hið versta mál, en samt dregst ég að Bretunum! Og breskur kúltúr er svo nálægt okkar kúltúr að það er ekkert svalt að dragast að honum. Ég vildi óska að ég væri með Hollendinga eða Brasilíumenn á heilanum, en svona er staðan.

Svo dagskráin myndi taka mið af því. Breskar, púkalegar sjónvarpsmyndir. Would I Lie To You maraþon. Allt með Benedict Cumberbatch. David Attenborough. Mary Berry. Öll jólaávörp drottningarinnar frá upphafi í lúppu allan sólarhringinn.

Hvar er draumurinn?

Hvar manstu síðast eftir því að hafa verið að nota hann?

Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?

Mín reynsla er sú að yfirleitt á maður ekkert að skipta sér af því sem myndlistarfólk er að brasa, heldur bara elta það og vera prúður. Svo minn impúls væri bara að bíða spennt eftir því hvort ljósmyndarinn stillir mér upp niðri á höfn eða fyrir framan páskaeggjauppstillinguna í Bónus.

Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?

Ef ég vissi það væri hann ekki óuppgötvaður!

Þú hefur unnið lengi á bókasafni – hvaða áhrif hefur það á þig sem höfund?

Ég held að þegar maður byrjar að skrifa bækur sé þar oft einhver hugmynd um að verða eilífur. Skrifa bók – varðveita sjálfan sig á prenti fyrir ókomnar kynslóðir. Reisa sjálfum sér minnisvarða. Það að vinna á bókasafni kennir manni að bækur eru dægurvara – næstum því augnablikslist. Það les enginn bækur sem komu út fyrir tíu árum og eiginlega enginn bækur sem komu út fyrir þremur árum. Undantekningarnar á þessu eru frekar fáar. Höfundur sem er ofboðslega vinsæll og virtur getur verið öllum algjörlega gleymdur innan við aldarfjórðungi síðar. Þetta er alveg hræðileg uppgötvun fyrst þegar maður gerir hana – en er svo líka svolítið frelsandi. Bók er ekki stórmál. Hún er tækifæri til þess að eiga samskipti við samtíð sína og samtímafólk. En ef hún lukkast ekki – þá er það allt í lagi. Það gleymist bara.

Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?

Ég fæ innilokunarkennd við tilhugsunina um að allt sé fyrir fram ákveðið, en finn samt öryggi í þeirri hugmynd að heimurinn gæti ekki verið öðruvísi en hann er. Allar óskir um að eitthvað gerist öðruvísi kippa okkur yfir í hliðarveruleika þar sem er mjög óvíst hvaða reglur gilda. Heimurinn sem við lifum í núna er eingöngu til af því að allt fór akkúrat eins og það gerði.

Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?

Haha!

Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?

Nýju Debussy/Rameau plötuna hans Víkings Heiðars.

Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?

Sennilega The Crown? (Þið munið anglófílíuna.) Ég skil ekki allt þetta tal um að við höfum svo mikinn tíma í samkomubanninu – ég hef aldrei haft jafnlítinn tíma og síðustu vikur! Börnin eru heima allan daginn alla daga, við fullorðna fólkið berum ábyrgð á náminu þeirra og eigum samt að vinna heilan vinnudag. Öll fjölskyldan er heima allan daginn að drasla til, á tveggja tíma fresti þarf að ákveða hvað eigi að vera næst í matinn og svo þarf að styðja við fjarnám barnanna í hljóðfæraleik og einstaklingsíþróttum. Ég er bara ekki rassgat að horfa á Netflix eða baka súrdeigsbrauð!

Hvað er draumaverkefnið?

Ég er alltaf að vinna að draumaverkefninu.

Uppáhaldsorðið þitt?

Buxnaskjóni.

Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?

Úr ódýru heyrnartólunum mínum við tölvuna. Ég á líka laustengt geisladrif sem ég nota til að hlusta á CD-diska. Allt mjög frumstætt, sko. Ég á ekki einu sinni Spotify reikning.

Ertu byrjuð á Kóf-bókinni miklu?

Ég reyndist óvænt nýbúin með hana! Svona getur veröldin verið skrýtin.

Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?

Ef fimmtán ára þú fengi að vita hvernig staðan er hjá þér núna hvað þætti unglingnum þá um það hvernig hefði ræst úr þessu hjá ykkur?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.