Einu sinni lýsti Britney Spears yfir ótvíræðum stuðningi við George W. Bush yngri og var skráð í Repúblikanaflokkinn. Þetta var á hennar yngri árum – en nú tók hún sig til og afsannaði rækilega þá klisju að fólk yrði alltaf hægrisinnaðra með aldrinum þegar hún deildi eftirfarandi texta frá rithöfundinum Mimi Zhu;

„Á þessum tímum einangrunar þurfum við að tengjast hvort öðru sem aldrei fyrr. Þannig að hringið í ástvini, skrifið rafræn ástarbréf. Tækni á borð við rafræn samskipti, streymi og útvarpsefni eru hluti af samvinnu okkar sem samfélag. Við munum læra að kyssa hvort annað og faðma með rafrænum öldum alnetsins. Við munum næra hvert annað, úthluta auðæfum heimsins upp á nýtt, fara í verkfall. Við munum skilja eigin virði út frá stöðunum sem við erum dæmd til að vera á. Veggir loka samfélag ekki inni. Við getum ennþá verið saman.“

Og þótt stór hluti skilaboðana rímaði ágætlega við poppstjörnu sem hefur sungið sitt hvað um ástina, þá komu sósíalísk skilaboðin um eignarupptöku og verkfall skemmtilega á óvart og sumir kölluðu Britney meira að segja öreigadrottningu í kjölfarið, kannski orðum aukið en tilvalið í fyrirsagnir.

Þetta ætti kannski samt ekki að koma svona mikið á óvart, Britney virðist nefnilega hafa verið arðrænd af eigin föður síðustu tólf árin eins og Anna Marsý rekur vel hér í forvitnilegum pistli í Lestinni.

Og hún hefur áður sungið um félagslega einangrun, með ljóðlínum „My loneliness is killing me.“ En það er vitaskuld best að meta hversu vel söngvar Britney fara með alheimssósíalismanum með því að hlusta á rímix af þeim undir sovéska þjóðsöngnum. Sumsé, lagið sem þið höfðuð öll dreymt um í laumi – Baby, One More Time, Toxic, Oops I Did it Again og Work, Bitch undir yfirspili sovéskra tóna.

Og hvað gæti verið dansvænna en sovéska Britney?

Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 5

Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.

* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson