Það eru komnir páskar og fyrst fólk kemst ekki á skíði þá kemur hér klassískt sviglag frá Madonnu. Eða sumsé, einhvern veginn var þetta mjög sterkt í Walkman-minninu þegar ég skíðaði niður Hlíðarfjall vorið 1989 – og tilvalið að þróa einhvern góðan svigdans út frá því.

Svo er þetta bara ansi merkilegt lag á ferli Madonnu, þegar hún staðfesti að hún ætti eftir að þróast í ansi fjölbreyttar áttir sem söngkona. Þarna birtast okkur svarti Jesú og brennandi krossar, sem varð nóg til þess að Vatíkanið vildi banna lagið, en svo heggur maður eftir þessu „Like a“ í textanum, „Eins og bæn,“ „Eins og engill,“ mögulega tímana trúfrjálsara tákn um að fólk geti valið hvort þetta sé bæn eða eins og bæn.

Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 6

Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.

* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson