Stattu upp, á hnjánum, á fótunum. Ég er að hlusta á Stand Up með Hindi Zahra og þetta hljómar dálítið eins og morgunleikfimi, nema röddin er alveg laus við allan óþolandi hressleika, hér er miklu frekar skemmtileg blanda af leikandi léttleika, táli og sorg, með fallega módernískum austrænum takti og fallegu hummi. Morgunleikfimi fyrir okkur sem viljum sofa út og þolum ekki óþolandi fals-hressleikann í morgunleikfiminni.
En nei, kemur ekki í ljós að þetta er ástarlag en um leið … tja, ekki beint sambandsslitalag, en ekki fjarri lagi. Hótun um sambandsslit ef þú tekur þig ekki á. Og ef einangrunin reynir á sambandið, hvort sem er vegna of mikillar nærveru eða of mikillar fjarveru, þá er vitaskuld um að gera að taka lagið bókstaflega.
En ef það er ekki tilfellið, ef þú ert jafnvel bara einhleyp/ur, þá má samt ýmislegt læra af henni Hindi. Lykilhendingarnar eru einfaldlega þessar:
„Stand up“ og svo þessar:
„You’ve got to make a move, you’ve got to make it through
You’ve got to feel real of yourself“
Þetta fjallar nefnilega líka um það að horfast í augu við nýjan veruleika, svona núna þegar mesta sjokkið er yfirstaðið, og takast á við hann. Hugsa um þennan nýja heim sem við erum að fara að búa til og líka þetta nýja líf sem þú ert að fara að lifa eftir að kófinu léttir. Kannski verður það voða svipað, kannski verður það gjörbreytt – en það er ákvörðun, hvoru tveggja, sem bæði við sem einstaklingar og við sem samfélag þurfum að taka. Og auðvitað tökum við allar bestu ákvarðanirnar dansandi, þegar líkaminn er í réttum takti við hugann.
Sérstaklega þegar maður hlustar á fallegan eyðimerkurdjass frá hinni mögnuðu morokkósku Hindi.

Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 7
Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.
* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Myndir:
Forsíðumynd: By Guillaume Laurent – https://www.flickr.com/photos/glaurent/5275179850/in/faves-24788065@N02/, CC BY-SA 2.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=14785971
Seinni myndin, af söngkonunni dansandi: By Gyrostat (Wikimedia, CC-BY-SA 4.0), CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=43391711