Það er vissulega snúið að meta hvaða þjóðir hafa staðið sig best í að takast á við kófið mikla – en það er hins vegar alveg ljóst að Færeyingar eru að rústa Íslendingum þegar kemur að opinberum kófslögum. Íslendingar fóru útjöskuðustu og algengustu leiðina með því að semja nýjan texta við gamalt lag og safna svo saman í bærilega krúttlegt Hjálpum þeim / We Are the World stemmara.
Færeyingar skelltu hins vegar í óperu, Opera Corona, með skemmtilegri förðun og alvöru texta og sóttu kannski helst innblástur til Thorbjørns Egners – í staðinn fyrir Karíus og Baktus eru komnir hér tvær kóróna-óknyttaveirur.
Græn kórónaveiran gengur syngjandi um götur Þórshafnar og hótar:
„Ein virus, ja, eitt tr øll, ið helst vill smita øll,“
Hana dreymir um fólk í „bólkum,“ og þar sem fólk safnast saman „sum sild í tunnu.“ Draumurinn er þó vitaskuld að:
„Leita eftir fólkum, sum ikki vaska hendur“
„Vaska hendur“ verður svo aðal stemma lagsins og tilvalið að dansa við þetta með uppvaskinu, og ég er strax byrjaður að hugsa um tvíeykið syngjandi sem Ölmu og Þórólf Þórshafnar. Loks fáum við smá leiðbeiningar í lokin:
„Hosta tú í ermuna, og minst so til at spritta!“
Og svo er þetta auðvitað bara spurning um að sýna almennt hyggjuvit:
„Og eru altíð hyggin, so ongin fær korona.“
Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 8
Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.
* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson