Sundhöllinn, 15 mars. Það var búið að tilkynna samkomubann frá og með næsta miðnætti og ég fór í íslenska sundlaug í fyrsta skipti á þessu ári. Fór í pottana, þessa gömlu, og þar var einn kall.

Samkvæmt óskrifuðum samskiptareglum fyrir kóf átti maður auðvitað að fara í sama pott – en skyndilega var orðin sjálfsögð kurteisi að forðast annað fólk, jafnvel í heitu pottunum. Þannig að ég fór í hinn pottinn, reyni að slaka á. En svo sé ég að hann hallar sér að handriðinu, hann er hálf klökkur.

Líklega er þetta fastagestur og líklega er þetta besti tími dagsins, venjulega. Dagurinn þegar hann hittir alla félagana, þegar hann spjallar og spyr fregna, rífst og segir frá ástum, gömlum og nýjum.

En núna er þarna enginn. Nema núna, ég í næsta potti.

Hann er allur að koma til, búinn að hrista harminn af sér. Mér finnst rétt að bjóða upp á spjall, bara svona smá rabb. Ég var einu sinni einn af þeim sem fannst small talk asnalegt – en mér er löngu búið að snúast hugur, maður þarf að átta sig á fólki áður en maður veit hverra af stóru spurningunum maður á að spyrja. Ef maður á annað borð á að spyrja þeirra.

En allavega, karlinn er allur að hressast. Ég gleymdi samræðunum sjálfum um leið og hann fór, enda voru þær ekki kjarni samtalsins. Þetta voru bara orð, orð til að fylla þetta vaxandi tóm sem var að leggjast yfir veröldina. Þögnina sem var að breiðast út eins og ekkertið í Sögunni endalausu.

Svo fer kallinn og ég er einn í pottinum í fimm mínútur. Og skyndilega finn ég þennan harm, þessa hrikalegu tilfinningu að vera einn í heita pottinum í Sundhöllinni á fyrstu dögum kófsins mikla. Þetta var allur sá undirliggjandi harmur sem finna má í Palli er einn í heiminum og ég hafði skyndilega áhyggjur af því hvort stelpurnar í afgreiðslunni og fólkið á götunum yrði kannski alveg horfið þegar ég kæmi út? Ég var jafnvel farinn að velta fyrir mér hvort það yrði einhver til þess að gefa mér lyklana af hótelherberginu mínu – myndi maður þurfa að brjótast inn eða sofa á hótelsófanum?

Allavega, ég mundi eftir þessu augnabliki þegar ég hlustaði á Aldrei fór ég suður og heyrði hipsumhaps syngja:

Fara einn í sund,

spjall í pottinum um pólitík,

þetta er lífið sem mig langar í.

Vonandi opna sundlaugarnar sem fyrst svo hann fái það líf aftur.

Þetta virkar kannski ekki dansvænt lag, mögulega vafasamt val í daglega dansskammtinn – en það er hægt að dansa við öll lög. Bara mishratt.

En textinn er lúmskur. Bara þessi hending; „Þetta er lífið sem mig langar í.“ Og þótt lífið sem sungið er um sé allt annað en það sem mig dreymir um þá skiptir það ekki öllu máli, bara þessi draumur – þessi óljósi framtíðardraumur sem við öll eigum, sem er blanda af öryggi og hamingju og stærri draumum.

En þessi draumur er á pásu hjá okkur flestum, hjá sumum fer hann aftur af stað eftir kóf, hjá sumum löngu seinna, hjá sumum aldrei. Þessar línur ná því ágætlega.

Lífið er svo óljóst,

það veit ekki neitt hvað er að gerast,

en við gerum það samt.

Allir hald’ í eitthvað loforð,

um að verða betri en önnur vera,

og reyna standa við það.

Svo kemur auðvitað í ljós í viðtali við þá pilta í sveitinni að uppsretta lagsins var allt önnur, stjörnugalnar og í raun móðgandi húsnæðislánaauglýsingar Íslandsbanka fyrir þremur árum. Þar sem þeir áttuðu sig á að heil kynslóð Íslendinga var að vaxa úr grasi eða var orðin fullorðin sem myndi líklega aldrei einu sinni geta eignast þennan tiltölulega einfalda líf kynslóðanna á undan.

Og ég mundi skyndilega eftir þessari herferð (sem ég skrifaði um hér) og slagorðinu, sem mætti vel endurvekja sem innantómt kóf-pepp: „Ekki gefast upp. Það er hægt. Ef þú hefur plan.“

En sko, þið ráðið alveg hvort þið gefist upp eða ekki. En dagdraumar eru nauðsynlegir í þessu kófi, þannig að settu lagið á fóninn og dansaðu hægt, lokaðu augunum og rifjaðu upp lífið sem þig langar í, hversu nálægt eða fjarlægt það kann að vera. Því dáið er allt án drauma.

Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 10

Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.

* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson