Við erum stödd í Mið-Austurlöndum og fylgjumst með hóp dularfullra málaliða í erindagjörðum fyrir CIA og aðra sem borga nógu vel – og það fer ekki betur en svo að þeim er öllum slátrað. Nema hvað, örstuttu síðar rísa þau á ný, kúlurnar falla af þeim og sárin gróa. Þetta eru ekki bara færir bardagamenn, þau eru líka ódauðleg.

Myndin heitir The Old Guard, en ég minnist þó ekki að hin ódauðlegu kalli sig neitt sérstakt í myndinni. Leiðtoginn er Andy, Andromache frá Scythia, enda er hún aldursforsetinn – allavega nokkurra árþúsunda ára gömul bardagakona. Samverkamenn hennar þrír hafa ekki einu sinni fyllt árþúsundið, eru hálfgerðir stráklingar við hliðina á henni. Hinir þrír ódauðlegu eru allt karlar, ítalskur og arabískur riddari sem börðust hvor við annan í krossferðunum og gamall hermaður úr her Napóleons – og við kynnumst þeim fyrst þegar þau leggja baklava-prófið fyrir Andy, sem þarf að átta sig á hvaðan úr heiminum baklavan sem þau gefa henni er.

En þau eru ekki ein og Andy er ekki eina ódauðlega konan. Úr fjarlægri fortíð heyrum við af elstu og bestu vinkonu Andy, sem er föst á sjávarbotni að því þau best vita, mögulega lifandi dauð. Þá bætist ungur hermaður í hópinn, hin kornunga Nile sem særist lífshættulega og Andy rænir áður en bandaríski herinn fer að spyrja óþarflega erfiðra spurninga.

Þau vilja bæta heiminn – en eru ekki alveg viss um hvort það sé að ganga nógu vel. Þau virðast þó aldrei íhuga hvort til þess séu betri leiðir en eilíf slagsmál, en kannski er það það eina sem þau kunna, þau eru dæmd til að vera hermenn að eilífu. Mögulega má einhvers staðar annars staðar finna hóp ódrepandi vísindamanna, listamanna eða bókhaldara – það hlýtur einhver að gera bíómynd um þá bráðum.

Fangelsi hinna ódauðlegu

Þau vita sem er að mannkynið myndi ávallt hneppa þau í prísund ef fólk myndi fá pata af hæfileikum þeirra, örlög vinkonu þeirra á hafsbotni er sönnun þess, og þau fá það staðfest enn á ný þegar vafasamt vísindafyrirtæki er á höttunum eftir þeim, lyfjafyrirtæki með það metnaðarfulla (en passlega klikkaða) markmið að útrýma dauðanum með aðerðum læknisfræðinnar – og smá hjálp frá ódauðlegu genamengi hinna ódauðlegu.

Gráðugt lyfjafyrirtæki sem höfuðóvinur hetjanna á tímum heimsfaraldurs er tímanna tákn og Harry Melling (útlimalausi farandleikarinn úr Buster Scruggs-mynd Coen bræðra) leikur yfirmann fyrirtækisins sem gjörspilltan milljarðamæring sem er rétt sloppinn af gelgjunni. Hann er eins og Elon Musk á slæmum degi á Twitter.

Þetta virkar samt ekki alveg, það vantar einhverja mýkt og snákslegan sannfæringakraft í þessa skúrka. Maður er einfaldlega ekki að kaupa það alveg að þau komist þetta langt án þess að leggja smá vinnu í að fela sitt sanna eðli.

Myndin er í raun forvitnileg tilraun til þess að gera lágstemmdari og raunsærri útgáfu af Highlander, þar sem hin ódauðlegu vinna saman og fela sig í skugganum. Þá er því ekki að neita að Andy kallast að mörgu leyti á við Wonder Woman, báðar eru þær árþúsund ára gamlar goðumkenndar verur frá hinum forngríska heimi, þessari vöggu siðmenningarinnar.

Þetta er hins vegar snúinn línudans: hvernig heldurðu raunsæinu en gerir persónurnar um leið sannfærandi ódauðlegar? Christopher Lambert og Sean Connery léku sér að myndavélinni og það var aldrei hægt að saka þá um að vera hversdagslega, en þeir kunnu þó að hverfa í skuggann, sem er nauðsynlegur hæfileiki fyrir ódauðlegar hetjur. Highlander er stór og epísk bíómynd – það er eðlilegt viðbragð að prófa að gera eitthvað jarðbundnara á móti, sýna okkur ódauðlegar hetjur sem líklegri eru til að hverfa í fjöldann.

Vandinn er hins vegar að maður trúir illa framan af að þessir meðal-Jónar og Jónur séu ódauðleg. Þangað til þau eiga sín augnablik. Það er vandinn við myndina, þetta er mynd frábærra augnablika – en inn á milli er hún óþarflega grámóskuleg, minnir of mikið á ódýra slagsmála b-mynd.

Leikararnir eiga öll sín augnablik. Charlize Theron er mjög heillandi í endurlitum úr fortíðinni og eins þegar hún er að meta nýjustu baklövuna og slást við nýjasta meðlim hópsins, en inn á milli er hún að leika þöglu hasarhetjuna á sjálfstýringu. Það sama á við um félaga hennar þrjá. Matthias Schoenarts sem Booker, öðru nafni Sebastian Le Livre, er eftirminnilegur þegar hann rifjar upp alla sem hann hefur misst og tvö bestu augnablik myndarinnar eru þegar Joe, öðru nafni Yusuf Al-Kaysani, og Nicky, öðru nafni Nicoló di Genova, ræða ódauðlega ást sína – í seinna skiptið við skilningssljóa og hómófóbíska öryggisverði.

Hversdagsnöfnin og raunveruleg nöfn aðalpersónanna eru ákveðin vísbending um vanda myndarinnar; mynd um Andy, Booker, Joe og Nicky er beint úr næstu b-hasarmynd Hollywood, Andromache frá Scythia, Sebastian La Livre, Yusuf Al-Kaysami og Nicoló di Genova eru persónur í miklu forvitnilegri mynd.

Sem þessi er alveg á köflum. Hún er líka hressandi femínísk án þess að rembast, Gina Prince-Bythewood hefur hingað til gert mun rómantískari myndir og þegar hún leyfir rómantíkinni að blómstra þá þrælvirkar myndin, sömuleiðis þegar hún leyfir sér að vera heimspekileg eða sérviskuleg. En hasarinn er formúlukenndur og tónlistin áttavillt, ekki slæm en eins og hún tilheyri allt annarri mynd.


Nýliðinn í hópnum bjargar þó miklu. KiKi Layne leikur hinn ný-ódauðlega hermann Nile Freeman og er þrælgóð út í gegn og hennar saga er langforvitnilegust. Kannski út af því hún er upprunasaga hetjunnar, þær sögur eru það forvitnilegasta við hinar persónurnar líka – en við fáum það ýmist bara í endurlitum eða endursögn. Þá er stórleikarinn Chiwetel Ejiofor frábær eins og alltaf sem svikarinn James Copley, jafnvel þótt hans saga sé ansi götótt.

Loks er rétt að nefna víetnömsku leikkonuna Van Veronica Ngo sem er eftirminnileg sem Quynh, ódauðlega stúlkan á hafsbotni. Hún lék síðast Hannoi Hönnu í Da 5 Bloods og í annað skiptið á sama ári dauðlangar mann að sjá aðra mynd eða framhald þar sem hennar persónu eru gerð almennileg skil – og hver veit nema maður fái þá ósk uppfyllta ef yfirmenn Netflix eru nógu duglegir að lesa Menningarsmyglið.

E.S.: Loks er rétt að benda áhorfendum á þessa síðu, þar sem finna má frekari upplýsingar um persónurnar. Þarna fáum við til dæmis staðfest að Andromache er fædd um 5000 fyrir krist á steppum vestur-Asíu, Yusuf-Al Kaysani árið 1066 í Maghrib-héraðinu, þar sem nú eru Túnis (en þaðan rekur leikarinn hollenski Marwan Kenzari ættir sínar), Alsír og Morokkó, og ástmaður hans Nicolo di Genova er eins og nafnið bendir til fæddur í Genóa á Ítalíu árið 1069. Þá eru unglömbin eftir, Sebastien le Livre sem fæddist 1770 í Marseille og Nile Freeman, fædd 1994 í Chicago-borg, líklega aðeins of seint til að muna Jordan-árin í þeirri borg.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson