Smyglari vikunnar er Hallur Örn Árnason, einn stofnenda heimildamyndahátíðarinnar Iceland Documentary Film Festival, eða IceDoc eins og hún er kölluð. Hann er einnig kvikmyndagerðarmaður og bassaleikari Malneirophrenu.

Hverjar eru helstu áherslurnar á IceDocs?

IceDocs var stofnuð með tvö aðalmarkmið í huga. Í fyrsta lagi að búa til viðburð fyrir Íslendinga þar sem að þeir geta séð það besta sem er að gerast í heimi heimildamynda og í öðru lagi að skapa vettvang hérlendis þar sem að fólk í heimildamyndagerð, hvaðanæva úr heiminum, getur komið saman, minglað og myndað sambönd.

Verða einhverjar nýjungar í boði í ár?

Eins og aðrar kvikmyndahátíðir þurfum við að taka tillit til ástandsins í kófinu, sem að við gerum m.a. með því að bjóða upp á stafræna útgáfu af hátíðinni. Þ.e. að fyrir litlar 3500 kr. getur fólk fengið streymisveitu okkar heim í stofu, en hún er opin í þrjár vikur talið frá fyrsta degi hátíðarinnar. Ég held að það hljóti að vera í fyrsta sinn á Íslandi sem þetta er gert. Annars er frítt á sýningar í Bíóhöllinni svo að það komi fram.

Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?

Það yrði einhvers konar hversdags dystópía held ég…. Mike Judge leikstýrir, Topher Grace leikur.

Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?

Erfitt að velja. En eigum við ekki bara að segja Finnlands/Eistlands mini-túr Malneirophrenu 2018? Held það.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?

Samræða um heimspeki, Brynjólfur Bjarna, Halldór Guðjónsson og Páll Skúlason. Þessi bók er svo gott „gateway“ í  eitthvað meira, var það allavega fyrir mig þegar ég var ungur. En það er náttúrulega bók…. „Les Demoiselles d’Avignon“ eftir Picasso, smyglum því upp á vegg á hvert heimili.

Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?

Þurfa Íslendingar ekki smá tómhyggju? Eitthvað (gott) eftir Chuck Palahniuk.

Forvitnilegasta ljóðskáld 21 aldarinnar?

MF Doom

Af hverju Akranes?

Bíóhöllin, besta bíóhús á landinu.

Hvaða kennari hafði áhrif?

Dagný G. Albertsson.

Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?

Þetta er svoldið undarleg fantasía… bara það nýjasta, besta og framúrstefnulegasta.

Hvar er draumurinn?

Innan seilingar.

Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?

Framtíðinni.

Eru einhver ákveðin viðfangsefni sem eru heimildagerðafólki sérstaklega hugleikin þessi misserin?

Jahh.. t.d. eru myndir um foreldra kvikmyndagerðarfólksins (þar sem að fortíðin er gerð upp á einhvern hátt) vinsælt umfjöllunarefni og hafa verið lengi.

Verður næsta ár fullt af kóf-myndum?

Já alveg örugglega. En ég býst ekki við að margar þeirra komist í mikla dreifingu.

Hvaða áhrif heldurðu að kófið muni hafa á kvikmyndalandslagið? Munu bíóhúsin leggjast af?

Kófið hefur náttúrulega sett mörg kvikmyndaverkefnin á pásu og frestað frumsýningum. En kvikmyndahúsin munu lifa áfram, eins og bókin og ljóðið.

Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?

Steini hippi, myndlistamaður.

Þið hafið verið dugleg að fá erlenda gesti á hátíðina, hverju taka þau helst eftir á Akranesi?

Þau upplifðu hátíðina svolítið eins og sumarbúðir fyrir kvikmyndagerðarfólk. Aðallega höfðu þau gaman af íslensku bæjarstemmningunni og náttúrunni á svæðinu. Akrafjalli, Langasandi, Guðlaugu, Bíóhöllinni og Akranesvita, svo eitthvað sé talið.

Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?

Hvort um sig er óþægilegt. Svona pælingar halda mér stundum vaknandi um nætur.

Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?

Ég held ég hafi týnt honum á leiðina í búðina.

Nú hefurðu sjálfur fengist við heimildamyndagerð og tónlist. Hvernig fer það saman?

Eins og flís við rass. Allt sem er skapandi á einhvern hátt fer saman. Annars sameina kvikmyndir náttúrulega allar listir, eins og alþjóð veit.

Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?

Já, já. ég skrimti. En ég hef líka verið að sinna ýmsum verkefnum til þess að stoppa í götin og hef verið að kenna aðeins undanfarið.

Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?

Selected Ambient Works 85-92 með Aphex Twin.

Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?

Man það ekki alveg, ég klára sjaldnast sjónvarpsseríur þegar ég reyni við þær.

(Spurning frá síðasta smyglara, Arndísi Þórarinsdóttur) Ef fimmtán ára þú fengi að vita hvernig staðan er hjá þér núna hvað þætti unglingnum þá um það hvernig hefði ræst úr þessu hjá ykkur?

Skemmtileg tilviljun þar sem að við Arndís vorum saman í bekk í gamla daga. Ég man eftir því að einhvern tíman vorum við einmitt látin skrifa ritgerð um það hvernig við sæjum okkur eftir 20-30 ár. Ég og hún og allur bekkurinn, nema einn nemandi, skrifuðum um frægð okkar tilvonandi og frama, þar sem við vorum ýmist gift Pamelu Anderson eða Baltasar Kormáki og áttum sand af seðlum. Væntanlega værum við Arndís ekki par sátt með okkur í dag. En kennarinn okkar, hún Dagný áðurnefnd, var ekki hrifin, hún vildi raunsæi. Þessi eini nemandi hafði ekki gert sig að frægðarmenni hafði séð sig í framtíðinni sem einhleypan gjaldkera í banka sem bjó í lítilli kjallaraíbúð í vesturbænum. Skemmst er frá því að segja að sá varð frægur sem atvinnumaður í íþróttum.

Hvað er draumaverkefnið?

Bara Myndin þar sem að fjármagn er ekki „issjú.“

Uppáhaldsorðið þitt?

Kremkex

Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?

Hvað finnst þér um listamannalaun?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Mynd af Halli og myndir af hátíð: Anni Savolainen

Mynd af MF Doom: By Possan – Own work, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=46405939