Katrínarsaga Halldóru Thorodden hefst á formála sem minnir á ljóðrænt söguljóð um tildrög blómabarnanna, eins og samið af vísindamanni að greina þræði tímans. Svo er okkur varpað í heim Katrínar og vina hennar og dveljum langdvölum með þeim á hippaárunum – en komum síðar við á uppaárum níunda áratugarins og bóluárunum fyrir hrun. Það er dregin upp ágætis mynd af flokkadráttum þessara tíma, súmmarar, marxistar og hippar koma við sögu en renna þó á endanum saman í einn blómapott.

 Prósinn er listilega skrifaður ef undan eru skilin sum samtöl sem eru einkennilega stirð, dálítið eins og persónurnar séu að fjalla um kenningar sem þær skilja illa, og eru því eins og þær séu að þylja páfagaukslærdóm upp úr bók, frekar en að þær hafi raunverulega tileinkað sér þessar hugmyndir. Sem var örugglega raunin með marga, eins og alltaf þegar kemur að því sem er í tísku.

Þjóðfélagi samtryggingarinnar sem þau eru að berjast gegn er lýst sem samfélagi þar sem tveir flokkar ráða öllu og hafa erindreka á flestum vinnustöðum, einn af hverjum tíu njósnar um stjórnmálaskoðanir hinna. „Þetta þéttriðna njósnanet var mun fullkomnara en netið sem þá var við lýði í Austur-Þýskalandi og árangursríkara, sökum fámennis.“

Þau skortir hins vegar skýrari markmið: „Hipparnir finna á lyktinni hverju þeir vilja hafna en hafa ekki hugmynd um hvað þeir vilja í staðinn.“ Þetta mætti raunar heimfæra upp á íslensk stjórnmál almennt, þetta hugmyndaleysi og hugsunarleysi þegar kemur að lausnum – byltingar og aðrar þjóðfélagskollsteypur eru of gjarnar á að vera viðbragð við úr sér gengnum hugmyndum. Þótt oftast leynist nýjar hugmyndir í farteskinu þá verður áherslan alltof sjaldan á þær, við erum alltaf að gera upp fortíðina frekar en að takast á við framtíðina. Hér eru aldrei nein fimm ára plön.

Bókin er um margt gagnrýnin á þessa hippaveröld. „Því sameiginleg sýn býr til sameiginlega blindu“, stendur á einum stað og annars staðar segir Mara, besta vinkona Katrínar, að þau hafi verið „frekar leiðinleg börn“. Þegar auðvaldið nær vopnum sínum á ný þá sér Katrín þó betur að baráttan hafi verið réttmæt eftir allt saman og segir við sjálfa sig: „Víst varstu réttum megin, Katrín.“

En það er ekki nóg að vera réttum megin ef heimurinn er vitlausum megin. Það er eitthvað til í þessu hjá Möru, byltingin verður að vera skemmtileg og frjó, það verður að vera hægt að dansa. Og í jafn stórri og fjölbreyttri hreyfingu hefur nú vafalaust verið nóg af börnum sem voru alls ekkert leiðinleg og sannarlega breytti þessi kynslóð miklu, hvað sem seinni tíma bakslögum líður. Mögulega er ákveðin skekkja í bókinni í þeim skilningi að þar sem megnið af henni gerist á hippaárunum og er um margt krítísk á þá tíma þá fá auðhyggjutímarnir sem fylgdu miklu minna pláss, og þar með minni gagnrýni, þótt augljóst sé hvar sögumaður sem og Katrín standa í þeim efnum.

Dóu hipparnir með Geirfinni?

Einn forvitnilegasti hluti bókarinnar fjallar raunar um það af hverju vindáttin breyttist svona rækilega. Í Danmörku og víða annars staðar fóru yfirvöld að gera rassíur og handtaka alla með eitthvað á sér. „Akkilesarhæll þeirra blasti við yfirvaldinu: ólöglegir vímugjafar.“ Á Íslandi var gengið lengra og saklausir hippar handteknir og yfirheyrðir vegna dularfullra morðmála, haldið í einangrun og barðir niður. Guðmundar- og Geirfinnsmálið er aldrei nefnt en maður skynjar samt að þarna er forvitnileg kenning, sú að ofstopinn í kringum það mál hafi tortímt hreyfingunni hérlendis, þegar sakleysi blómabarnanna var sett í tætarann á lögreglustöðinni.

Eins kemur fram að uppar níunda áratugarins voru sjaldnast afkvæmi hippanna né hippar sem umpóluðust, heldur frekar sá hluti kynslóðarinnar sem hafði haldið sig til hlés og í mesta lagi tekið þátt af hálfum hug, heldrimannastrákar sem höfðu beðið róttæknina af sér og voru nú albúnir að drottna yfir nýjum borgaralegum heimi, stútfullum af peningum og misskiptingu.

Margt af þessu er þó skautað yfir – það er stór og epísk skáldsaga í þessari litlu nóvellu sem þráir að brjótast út. Margt af því sem hér er sett fram er meira eins og forvitnilegar kenningar, frekar en sannfærandi söguskoðun.

Stærsti vandinn er þó persóna Katrínar. Það er ákveðin þversögn að aðalpersónan gefi bókinni nafn því hún er oftast til hliðar í sinni eigin sögu, frekar skoðanalítil og hlutlaus áhorfandi og sagan er meðvituð um það: „Krafa tímans um að þurka út sjálfið til að verða ekki til þess að þurka út mannkynið, leikur Katrínu grátt.“ En það leikur Katrínu ekki bara grátt, það leikur bókina líka grátt. Hún virkar mjög vel sem mannfræðileg, sagnfræðileg og félagsfræðileg stúdía, jafnvel ljóðræn ritgerð, um þessa tíma – en saga þessara krakka grípur mann ekki að sama skapi. Til þess skortir sögupersónurnar meiri og eftirminnilegri persónuleika. Þetta er kynslóðarsaga en ekki einstaklingssaga, síðbúin Generation X fyrir hippakynslóðina, og kynslóðarpælingarnar eru oft forvitnilegar, eins og þegar Katrín talar um að „Það eru ennþá svo margir ólíkir tímar í fólkinu sem byggir þennan heim“.

Þarna, eins og víðar, er reynt að flækja söguna – en það hefði mátt flækja hana miklu meira. Jafnvel leyfa Katrínu og vinum hennar að sökkva dýpra í morðmálið, frekar en að vera aukapersónur þar, kasta þeim alla leið í öldurót sögunnar og fylgjast með henni sökkva. Það er helst að fólk nákomið Katrínu týnist í hringiðunni, oftast án þess að hún geri sér almennilega grein fyrir því fyrr en það er um seinan. Þannig er þetta kannski saga kynslóðar sem vildi vel en hélt ekki vöku sinni þegar vágesti bar að garði.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Birtist upphaflega í Stundinni þann 23. desember 2018.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson