Hvernig er best að skrifa? Jú, með því að vakna klukkan sjö á morgnana og koma sér beint að verki, lifa eins og munkur, hvílast vel og halda í rútínuna.

Þetta stendur allavega í flestum greinum um efnið – en stundum villast rómantísku sögurnar um óskabörn ógæfunnar inn í samræðurnar og við fáum stórkarlalegar sögur um hvernig helstu verk Bukowski og félaga hefðu aldrei orðið til ef það hefði nokkru sinni runnið af þeim.

Auðvitað veit flest skrifandi fólk að þetta er oftast kjaftæði – eða í besta falli mjög sértækt, heimatilbúin skáldskaparaðferð sem virkaði mögulega fyrir einn tiltekinn höfund í mannkynssögunni en er aldrei að fara að virka fyrir þig.

Sannleikurinn er einhvers staðar á milli línanna, að finna sér smá skipulag í óreiðunni eða búa til nauðsynlega óreiðu í skipulaginu, eftir því hvar þörfin liggur. Hver er til dæmis mín aðferð ef ég næ engri skrifeinbeitingu? Fara á tehúsið í næstu götu (sem kófið er því miður búið að drepa) til að losna við netið (það er nefnilega miklu auðveldara að biðja ekki um passwordið heldur en að slökkva á wifi-inu í tölvunni) og skipta um umhverfi.

Þegar maður er búinn með teskammtinn og þarf smá auka innblástur er svo rétt að fara á næsta bar. Fá sér einn góðan Klostermann og halda áfram að skrifa. Jafnvel tvo. Það er svosem allt í lagi að fá sér þriðja líka, en þá er maður ekkert að fara að skrifa meira. Maður getur mögulega punktað niður hugmyndir áfram – en sú einbeiting sem þarf í skriftir er fokin út í veður og vind. En þú ert oft á tíðum kominn með helvíti gott efni, þökk sé fyrstu tveimur bjórunum – og þá er bara að muna eitt af fáum nothæfum ráðum úr skrifklisjunum öllum, „write drunk, edit sober.“ Sem er auðvitað einföldun hjá Hemingway; „write mildly intoxicated, edit sober“ væri líklega betra ráð fyrir flesta. Þótt ég ætli ekkert að þræta fyrir að Hemingway hafi mögulega verið betri en ég á tíunda bjór.

Núna er ég einmitt búinn með hálfan Klostermann og verð væntanlega skiljanlegur í einn og hálfan í viðbót – barirnir nýbúnir að opna aftur hérna í Prag eftir 50 daga lokun og allir eins og beljur að vori, með nýfenginn skilning á því hvað kranabjór er miklu, miklu betri en flösku- og dósabjór.

En nóg af útúrdúrum, ég hef sem sagt nákvæmlega einn og hálfan bjór til að segja ykkur frá Druk, nýjustu myndinni hans Thomas Vinterbergs. Vinterberg hefur eins og ég greinilega verið búinn að fá nóg af því hvað umræða um drykkju er iðullega öfgakennd; hún er ýmist á forsendum óvirka alkans eða rómantísku byttunnar – og sú fyrri er sú eina sem heyrist í fjölmiðlum, sú seinni sú eina sem heyrist á barnum.

Þetta eru vissulega ýkjur, en það má þegar maður er búinn með hálfan bjór.

En vandinn með alkamyndir – sem og dópmyndir – er að þær verða að sýna gleðina, þetta high, sem er ástæðan fyrir því að fólk ánetjast til að byrja með. Það er alveg sama hversu eymd alkans eða dópistans er sannfærandi, ef áhorfandinn skilur ekki gleðitilfinninguna sem kom á undan skilur hann ekkert.

Þetta býður auðvitað þeirri hættu heim að þú upphefjir það sem þú ætlar að gagnrýna – og líklega gera bestu myndirnar einfaldlega bæði, Trainspotting má til dæmis jafn auðveldlega lesa sem upphafningu og fordæmingu á eiturlyfjum, af því við sjáum persónurnar heimsækja bæði himnaríki og helvíti. Við skiljum líka að þeir hafa rétt fyrir sér, þessir heilögu fíklar, þjóðfélagið er rotið og þegar svo er þá er alveg mjög skiljanleg ákvörðun að kjósa ekki lífið, enda var lífið bara góðborgaralegt IKEA-helvíti Clinton-áranna. Sem hefur ekkert endilega skánað þennan aldarfjórðung sem liðinn er, með Bush, Obama og Trump við stjórnvölinn. Svo ekki sé minnst á internetið sem er búið að gera okkur öll að bláedrú fíklum.

En jafnvel í goðsögunum af hinum guðdómlega drykkjumanni (sem vel að merkja er líka heiti á mjög skemmtilegri ítalskri mynd, sem byggð var á nóvellu eftir Joseph Roth) er vandinn að við erum alltaf í öfgunum; það er enginn bara að fara á barinn og fá sér 2-3 bjóra og fara svo bara heim. Þær sögur eru auðvitað til, en þar er búsið iðullega í aukahlutverki, meira notað sem leikmunur en raunverulegur drifkraftur sögunnar.

En samt, jafnvel við hóflegustu drykkju er fyrsti drykkurinn hugbreytandi, þótt fólk fari ekki strax að dansa uppi á borðum. Ég man þegar ég var með nýjan meðleigjanda, við vorum báðir uppgefnir eftir langa vinnuviku og áttum alveg eftir að kynnast almennilega – og löbbuðum í þögn á barinn á föstudagskvöldi. En strax eftir fyrsta sopann sagði hann það sem við hugsuðum báðir; „finnurðu hvernig allar áhyggjurnar hverfa skyndilega? Allt ruglið, allar áhyggjurnar, allir óþörfu komplexarnir, allt veraldlega kjaftæðið sem maður ætti ekki að hafa áhyggjur af en hefur samt?“ Við héldum áfram, skyndilega var veröldin bjartari og fegurri, hugsunin farin á miklu áhugaverðari brautir – og samt vorum við bara búnir með tvo-þrjá sopa, það hefði ekkert áfengi mælst í blóðinu ef við hefðum verið mældir þetta snemma kvölds.

En hver drykkur er ólíkur þeim næsta, upp að einhverju marki ertu að finna þitt sanna sjálf, en á einhverjum tímapunkti ferðu að týna því, útgáfan verður fölsk, skökk eða óhóflega ýkt útgáfa af sjálfum þér. Það hvenær og hvernig það gerist er gerólíkt á milli fólks – og þetta þarf ég varla að segja ykkur, það vita þetta allir sem hafa nokkru sinni fengið sér í glas eða kíkt á bar.

En vandinn er að það er eins og við kunnum ekki að tala um áfengi, tala um bölið sem og blessunina, og það er hættulegt, því ef við tölum bara um annað þeirra, þá felst í því afneitun á hinu – og það er örugglega ekki æskilegt ef ég skil alkafræðin rétt.

Og þótt ykkur finnist kannski að ég hafi varla minnst á myndina sem ég þóttist ætla að tala um þá er málið einfaldlega það að ein hennar helsta virkni er einmitt þessi; að fá fólk til að tala um og pæla í áfengi. Hún fer ekkert mjög langt með það sjálf, þetta er ekki esseyju-mynd, hún gefur okkur ekki niðurstöðurnar.

Hún hefst einfaldlega með hinum lífsleiða Martin (Mads Mikkelsen), sögukennara sem fyrir löngu hefur misst neistann. Vinir hans minnast leiftrandi, fyndins og innblásins kennara – og mann grunar að nemendurnir hafi heyrt minnst á þann kennara, kannski frá eldri systkynum – af því þau leyfa honum ekki að sleppa, þau dotta ekki bara í tímum eins og nemendur gera gjarnan hjá leiðinlegum kennurum. Nei, þeim leiðist en þau láta hann heyra það, þau eru pirruð, hugsa kannski: „Ég hélt ég væri að mæta í tíma hjá Mads Mikkelsen, hvar er Mads Mikkelsen eiginlega, er þetta örugglega hann? Þetta er bara einhver andlaus kennarablók sem lítur út eins og hann!“

En á vikulegum fundi lífsleiðra miðaldra karla þá fær einn þeirra nóg af andleysinu og fer að ræða um óvenjulegar hugmyndir norska sálfræðingsins Finn Skarkerud um æskilegt magn áfengis í blóðinu. Æskilegt magn fyrir flest tækifæri, fyrir flest svið lífsins, ekki bara fyrir kvöld á barnum. Æskilegt magn til að vera skarpur, skapandi og frumlegur. Fram að þessu ætlaði Martin ekki að drekka, en skyndilega tekur hann við sér. Hrynur í það – og áttar sig á því að þetta er lausnin sem hann var að bíða eftir, það sem gæti tendrað aftur ástríðuna sem hann hafði glatað.

Og þetta virkar. Þangað til þetta virkar ekki. Eins og við vissum. En þetta virkar líka mjög misvel á þá alla, enda ákveða félagarnir allir að taka þátt í tilrauninni saman. Raunar þrælvirkar þetta þegar þeir fá sér bara þennan örlitla áfengisskammt sem kveðið var á um í byrjun, en allt fer í hundana þegar þeir drekka meira. Þegar þeir halda áfram að skrifa eftir þriðja bjór. Eða kenna eða sinna fjölskyldunni. Martin-eftir-einn-sopa-af-sterku er innblásinn kennari sem blæs krökkunum fróðleiksþorsta beint í æð, Martin-eftir-alltof-marga-sopa-af-alltof-sterku er hryggðarmynd sem fær man til að missa trú á lífið.

Þegar líður að lokum myndar þá finnur maður að tilraunin hefur mjög mismunandi áhrif á þá, sumir missa tökin – allir missa tökin tímabundið, vel að merkja – og einn missir tökin endanlega. Hinir? Við vitum það ekki, en gefum okkur að það endi eins og í lífinu, sumir læri að drekka aftur hóflega, læri að leyfa búsinu að vera blessun – en fyrir því er samt engin trygging.

Þetta er gamanmynd, tragikómedía með áherslu á kómíkina (þótt hún sé víða kynnt sem tragedía eingöngu, svona er arfleifð alkamyndana sterk) – og það er hrein unun að sjá áhrif áfengisins á þá alla, en þó sérstaklega á Martin, sem Mads Mikkelsen leikur. Sem er lífsleið kennarablók sem finnur með hverjum sopa sinn innri Mads Mikkelsen, stórleikarann sem býr inn í honum, ástríðuna, manninn sem allra augu beinast að, manninn sem er hrókur alls fagnaðar. Í gegnum búsið lærir hann aftur að dansa. Hér er raunar ástæða til að nefna skemmtilegt plott-tvist, bæði kennarinn Martin og Mads Mikkelsen sjálfur eru dansarar að upplagi. Og það sést. Einhver þarf að skrifa eitt stykki epíska dansmynd og fá Mads Mikkelsen og Christopher Walken til að leika í henni.

Flækja myndarinnar snýst um að sýna bæði hvernig áfengi getur verið hugbreytandi á góðan og slæman hátt – og að það sé verkefni sem okkur tekst mjög misvel upp með að leysa vel. En hún reynir ekki að svara þessari spurningu fyrir okkur, hún sýnir okkur einfaldlega nokkra möguleika – og treystir okkur til að ræða málin af viti og yfirvegun á barnum á eftir. Og jafnvel skrifa um það í virðulega fjölmiðla undir yfirskyni kvikmyndarýni.

Og niðurstaðan er einfaldlega að við þurfum að læra að tala um áfengi, opinberlega, án þess að demónísera það eða upphefja það. Þetta er einfaldlega hugbreytandi efni – og það er stundum alveg ástæða til að breyta huganum, þessum huga sem ósjaldan er mengaður af miklu verra eitri en búsinu, af fréttamiðlum og interneti og fánýtum hversdagsleika. En það er líka nauðsynlegt að verja þennan heila, við vitum öll sem höfum hitt leiðinlega ölvað fólk eða fíkla á vondum stað að þau eru föst í ennþá verri lífslygi en gráum hversdeginum.

Þannig er áskorun myndarinnar einfaldlega þessi: stillum hugann rétt. Hvernig sem við gerum það. Stillum hann svo hann verði skapandi, lifandi, vakandi, ör, ástríðufullur. Hvernig sem við förum að því. Okkur á örugglega eftir að mistakast alltof oft, en á meðan við höldum áfram að reyna erum við á réttri leið.

En núna er bara einn sopi eftir af bjór númer tvö, og því ástæða til að skála út í kosmósið áður en þetta fer allt út í óskiljanlega vitleysu eða eitthvað þaðan af verra!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

E.S.: Hér er vitaskuld rétt að gera grein fyrir Klostermann, meðhöfundi greinarinnar. Nafni hans, Karel Klostermann, var bæheimskur rithöfundur sem dó fyrir tæpri öld – en árið 2008 hefði hann orðið 160 ára og af því tilefni ákvað brugghús nokkuð að brugga bjór í hans nafni. Sem er kallaður dökkur en er í raun ljósrauður, þetta er í raun fullkominn bjór fyrir okkur sem finnst tékkneskur bjór bestur en finnst belgískur bjór alveg skemmtilegur líka, þetta er Tékkland með belgískum keim. Og augljóslega ekkert Carlsberg-sull eins og Mads var að auglýsa á flugvellinum síðast þegar ég lenti á Kastrup!