Við erum stödd í sumarbústaðabyggð, einhvers staðar sunnan Reykjavíkur. Miðað við kennileiti, íþróttakennaraskólann og eþíópískan veitingastað, er sögusviðið einhvers konar bræðingur af Laugarvatni og Flúðum. Við kynnumst þó lítið ferðamönnum, flestar aðalpersónur bókarinnar virðast hafa búsetu hér, ýmist tímabundið eða til frambúðar. Og sem fyrrum íbúi Laugarvatns til skamms tíma get ég staðfest að þessi sumarbústaðahverfisbræðingur Guðrúnar Evu er töluvert líflegri en sá svefnbær.

Fjórar aðalpersónur skiptast á að segja söguna; hin sextán ára Hanna, öryrkinn Árni, ekkjan Borghildur og Aron Snær, ellefu ára umkomulaus strákur. Aron Snær fær að vísu bara einn kafla, ólíkt hinum sem öll fá tvo eða þrjá. En hann er samt miðpunktur sögunnar af því hann er sá sem tengir þau öll saman, innbyrðis kynni hinna þriggja eru sáralítil.

Hanna er sögumaður fyrsta kaflans. Maður fær snemma á tilfinninguna að hennar saga sé mögulega mótunarsaga rithöfundar, eða einhvers sem mun sækja í skyld störf seinna meir, miðað við lokaorð kaflans:

„Þótt það sæist ekki utan á mér var ég þegar byrjuð að blómstra. Á minn hátt. Í hvert sinn sem fólk kom upp um mótsagnakennda mennsku sína fullorðnaðist ég svolítið. Skilningur minn dafnaði undir lygnu yfirborði. Í mínum huga átti það ekkert skylt við dómhörku. Það var bara aðferð til að lifa af.“

Þannig er varla tilviljun að hún hafi orð á titli bókarinnar, Aðferðir til að lifa af. Allir þessir fjórir sögumenn eru einstæðingar, hver á sinn hátt, að finna sína leið til að lifa af. Sem er mögulega einmitt sú barátta sem sameinar þau, jafn ólík og þau annars eru. Hanna og Aron Snær eru að burðast með eigin djöfla, átröskun og bernskusyndir, auk þess sem bæði eru afskipt af foreldrum sem eru of uppteknir af eigin skilnaðarstandi, sorg eða nýjum ástum til þess að veita þeim sæmilega athygli. Árni er nýlega hættur í vel borgaðri vinnu vegna heilsubrests og er uppfullur af óendurgoldinni ást á meðan Borghildur syrgir nýlega látinn eiginmann sinn.

Siðferðiskompás brotins fólks

Guðrúnu Evu fer óvenju vel að skrifa um góðar manneskjur, sem eru ekki endilega neinar hetjur, í besta falli hvunndagshetjur. Öll fjögur eiga erfitt með að fóta sig í lífinu en vilja samt öllum vel og hafa ansi vel stilltan siðferðiskompás, þótt þau kunni ekki alltaf jafnvel á lífið sjálft – sem spyr ekki alltaf að hreinleika hjartans.

Það er sannarlega ofbeldi og illska til staðar í sögunni, en það er ekki í forgrunni; heimilisofbeldi sem ein aðalpersónan rifjar upp að hafa orðið vitni að og dularfullt morð sem ekkert þeirra á þó neinn þátt í annan en að krakkarnir finna handlegg úti í runna. Þannig verður saga staðarins hluti af þeim og markar örlög þeirra, jafnvel þegar fólkið er þeim ókunnugt.

Sagan kallast raunar glettilega mikið á við skáldsögu Nick Hornby, Sögu um strák (About a Boy). Í báðum bókum er umkomulaus strákur á svipuðu reki (11–12 ára) sem er í miðpunkti sögunnar og sameinar á sinn hátt ýmsar eldri aðalpersónur sögunnar. Marcus í Sögu um strák lendir í heiftarlegu einelti og þótt það sama sé ekki beint sagt um Aron Snæ hefur maður það sterklega á tilfinningunni. Persónugalleríið er merkilega svipað en helsti munurinn á sögunum er kannski hvernig Marcus er bæði miklu meiri sögumaður í eigin sögu og sömuleiðis meiri gerandi. Hann áttar sig á hve hverful tilveran er þegar fólk getur horfið úr lífi manns þegar minnst varir, þess vegna þurfi hann að byggja eigið stuðningsnet í kringum sig. Hjá Aroni Snæ gerist það nánast óvart. Hanna er að vísu fengin til þess að vera með hann í liðveislu, en það er tilviljun sem leiðir hann saman við Árna og Borghildi, sem bæði finna sárt fyrir umkomuleysi hans, sem minna hann sjálfsagt aðeins á þeirra eigin einstæðingsskap. En líka heimsmálin:

„Aftur hafði Aron Snær þessi áhrif á mig: að ég fann fyrir allri þeirri viðkvæmni og meðaumkun sem ég átti til. Hann var eins og lekur bátur úti á rúmsjó. Fullur af fólki. Sumt þeirra mögulegir hryðjuverkamenn. Hvað gerir maður við fólk sem er í hættu? Maður réttir hjálparhönd. Annað væri móralskur aumingjaskapur. Þótt misjafn sauður sé í mörgu fé. Þannig er það alltaf hvort sem er og ef það trompar mennskuna gef ég ekki mikið fyrir hana. Ég óttaðist að Aron Snær yrði látinn sökkva og fylltist mótþróa við tilhugsunina. Ekki á minni vakt, hugsaði ég.“

Þetta er skemmtilegur snúningur á þá fölsku klemmu að við þurfum að velja á milli útlendrar og innlendrar neyðar. Bæði snýst þetta um sömu prinisippin; að rétta þeim sem þurfa hjálparhönd.

Það er líka forvitnilegt að sjá sögupersónurnar í gegnum mismunandi augu – og á meðan öll vorkenna þau Aroni Snæ þá er Aron Snær sá eini sem virðist kunna að meta Árna, bæði Borghildur og Hanna virðast hálf smeykar við hann. Ótti sem maður áttar sig á þegar líður á söguna að er líkast til ekki á rökum reistur. Það er dálítið eins og báðir séu misskilin og góðviljuð tröll, eini munurinn er sá að Aron Snær er nógu lítill til þess að kalla fram meðaumkun hinna fullorðnu, ólíkt Árna.

Fjarverandi aðalpersóna

Einn stærsti veikleiki sögunnar er þó hversu lítið við fáum að vita um Aron Snæ sjálfan. Sá kafli þar sem hann fær röddina er einn sá besti í bókinni og birtir manni forvitnilega persónu, sem verður forvitnilegri eftir því sem á líður. Eins og þegar hann lærir loks að hjóla, langt á eftir jafnöldrum sínum:

„Frelsið í lungunum var víðáttumeira en ég sjálfur. Fólk talaði alltaf um hjól eins og þau væru eitthvað hversdagslegt. Enginn hafði sagt mér að þau væru eins og flugvél sem maður stýrir sjálfur og fær að hafa gluggana opna,“ segir hann og bætir svo við: „Kannski hafði ég einhvern tíma verið hamingjusamur. En ekki svona.“

Þarna fléttast vonin og einmanaleikinn undurfallega saman, þarna skynjar hann að aðstæður hans geti breyst, að það séu möguleikar í þessu lífi til betra lífs, þótt lífið sé djöfull erfitt akkúrat núna, vinalaus með fjarverandi pabba og þunglynda mömmu. En nýja hjólið hans og þessi frelsistilfinning er honum það haldreipi sem hann getur haldið í.

Guðrún Eva skrifar bókina af miklu næmi og stílfimin bregst henni ekki. Stíll Evu er þó í sífelldri þróun. Ljóðrænn stíll fyrstu bókanna var ægifagur en átti það til að bera söguna sjálfa ofurliði, þegar hún kryddaði þann stíl passlegum óhreinindum í Yosoy varð til hennar langbesta bók til þessa, á eftir fylgdu hins vegar tvær bækur þar sem hún týndi mér alveg og núna þegar ég leita hana uppi aftur þá er stíllinn orðinn lúmskari og lágstemmdari. En ég sakna þess samt aðeins að hún kafi jafn djúpt og hún gerði í Yosoy. Það er dálítið þversagnakennd ósk – ég er bæði hrifinn af því hversu mikið er ósagt og það ergir mig um leið, þetta er bók sem væri hægt að dýpka með að kafa lengra inn í kviku persónanna en um leið er hin lágstemmda frásagnaraðferð styrkur.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Greinin birtist upphaflega í Stundinni 15. desember 2019.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson