Fyrsti þáttur af Ljóðamála á almannafæri fer í loftið klukkan 20.30 á N4 í kvöld, þriðjudagskvöld. Því er rétt að kynna skáld og leikstjóra kvöldsins stuttlega til leiks.
Kári Liljendal Hólmgeirsson leikstýrir fyrsta ljóðamyndbandinu á Ljóðamála þetta árið. Hann nam kvikmyndagerð í New York Film Academy og er núna tækni- og útsendingarstjóri hjá N4 og hefur þar með einnig komið að lokaklippi þáttanna. Hann mætti í föstudagsþáttinn til að ræða hátíðina.
Hér má sjá örlítið brot af því sem Kári hefur verið að kvikmynda síðustu árin.
Arnar Arngrímsson er hins vegar fyrsta skáldið sem stígur á stokk í þessari fyrstu útgáfu Ljóðamála. Hann hefur gefið út ljóðabókina Kannski er það bara ég og tvær bækur um hann Sölva, Sölvasaga unglings og Sölvasaga Daníelssonar, en sú fyrri fékk Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
Okkur langar að hita upp með þessu prýðilega viðtali af Starafugli – en svo skemmtilega vill til að fyrrum nemandi Arngríms tekur viðtalið, rétt eins og fyrrum nemandi hans leikstýrði ljóðamyndbandinu. Þannig að kennarar landsins þurfa greinilega að passa sig á þessum nemendum í framtíðinni – það er aldrei að vita nema að þeir reki úr þeim garnirnar eða leikstýri þeim með harðri hendi seinna meir!
Eins og sést í viðtalinu þá hefur Arnar trú á að Sölvi sé efnilegt ljóðskáld og fari ekkert að láta skáldsöguna glepja sig:
„Sölvi er of hornóttur til að finna sér stað. Hugur hans og tilvera er ein óreiða sem stundum finnur sér farveg í skáldskap. Mér finnst líklegra að hann verði leigubílstjóri sem gefur út snilldarljóðabækur á átta ára fresti heldur en stabíll skáldsagnahöfundur á listamannalaunum. Nema kona, einhver á borð við Margréti, eiginkonu Þórbergs, haldi honum í stofufangelsi.“
Magnea B. Valdimarsdóttir leikstýrir seinna ljóðamyndbandi kvöldsins. Hún gerði stutta heimildamynd, Helgi á Prikinu, sem finna má í heild sinni hér fyrir neðan á Vimeo.
Þetta var uppáhaldsmynd smyglara á Sprettfisknum 2020 – eins og má lesa um í meðfylgjandi tengli:
„Það er einföld en göldrótt þegar heimildamyndagerðarmaður finnur einfaldlega viðfang sem er svo heillandi að það er nóg að leyfa honum bara að vera. Það fyrsta sem þú tekur eftir er danski hreimurinn, dönsk vísa sem hann fer með í upphafi gefur til kynna að einhverju leyti danskan uppruna, en fljótlega fer maður bara að kunna að meta hlýjuna sem stafar frá manneskju hvers lífsgildi eru einfaldlega gæska og forvitni, tveir eiginleikar sem eru mun skyldari en flestir átta sig á.
Það sést vel í því hvernig allir starfsmenn og margir fastakúnnana faðma Helga við hvert tækifæri, á þessum tímum félagslegrar fjarlægðar er þetta svo sannarlega góður staður til að stoppa við og ná sér í nokkur faðmlög á filmu.“
Á Vimeo-síðu Magneu má svo sömuleiðis sjá myndirnar Kanarí, Hverfisgata, Bónuskonur og Dóra gullsmiður: örmynd. Hún vinnur nú að Hvunndagshetjum, sinni fyrstu heimildamynd í fullri lengd.
Seinna ljóðskáld kvöldsins, hún Bergþóra Snæbjörnsdóttir, er þrautreynd í að koma fram í ljóðaþáttum – enda var hún ekki nema sex ára þegar hún las fyrst ljóð í Stundinni okkar.
Bergþóra hefur gefið út skáldsöguna Svínshöfuð og ljóðabækurnar Daloon daga og Flórída – og les einmitt upp úr þeirri síðarnefndu í þættinum. Hún fékk tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunana fyrir bæði Svínshöfuð og Flórída.
Þá var hún bara rúmri viku í ítarlegu viðtali hjá Þresti Helgasyni á RÚV, 50 mínútna viðtal sem má hlusta á hérna.
Fyrir utan þau kemur hefðbundið fastagengi Ljóðamála að útsendingunni; Darrell Jónsson sér um upptöku í myndveri MeetFactory, þar sem Arnheiður Eiríksdóttir og Ásgeir H Ingólfsson kynna dagskrána.
Það er Ásgeir H Ingólfsson sem hefur yfirumsjón með þáttaröðinni. Framleiðendur eru Menningarsmygl og Urban Space Epics.
Carl Warwick samdi stef þáttanna út frá broti úr Völuspá.
Styrktaraðilar eru Miðstöð íslenskra bókmennta, Akureyrarbær og Landsbankinn. Sem og auðvitað allir áskrifendur smyglsins!
Hér er svo örstutt viðtal sem Gunnþóra Gunnarsdóttir tók fyrir Fréttablað helgarinnar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson