Annar þáttur af Ljóðamála á almannafæri fer í loftið klukkan 20.30 á N4 í kvöld, 17. júní. Þannig að núna er tilvalið að hita upp með því að kynna skáld og leikstjóra kvöldsins stuttlega til leiks.

Atli Sigurjónsson leikstýrir fyrra ljóðamyndbandi kvöldsins. Atli lærði kvikmyndagerð í University of Texas í Austin og hefur leikstýrt fjölda stuttmynda og tónlistarmyndbanda. Meðal annars þessu myndbandi Ask the Slave.

Meðal stuttmyndanna má svo benda á þessa hér, sem horfa má á í heild sinni á Vimeo, Where Have You Been All Along, um ýmsar safnapælingar.

Það má finna miklu meira á bæði Vimeo-síðu Atla og heimasíðu hans – þar á meðal þetta tónlistarmyndband fyrir DJ Flugvél og geimskip.

María Ramos er fyrra ljóðskáld kvöldsins. Hún gaf út ljóðabókina Havana fyrir síðustu jól og hafði áður gefið út ljóðabókina Salt í seríu Meðgönguljóða. Hér má hlusta á viðtal Jórunnar Sigurðardóttur við Maríu og hér er viðtal sem Elena Kristín Pétursdóttir tók við hana fyrir vef bókmenntafræðinnar.

Seinna myndbandinu leikstýrir Haukur Valdimar Pálsson. Hann hefur leikstýrt heimildamyndum, stuttmyndum og tónlistarmyndböndum – eins og til dæmis þessu hérna við lag Teits Magnússonar, Staðlaust hjarta.

Einnig má nefna heimildamyndirnar Sægreifinn og Hrikalegir, en hér fyrir neðan er stikla fyrir þá síðarnefndu.

Hér má svo finna heimasíðu Hauks með ýmsum fleiri verkum.

Ljóðskáldið sem Haukur myndskreytir fyrir er Loki – sem gaf út sína fyrstu ljóðabók síðasta haust, Tunglið er diskókúla. Hér má sjá spjall sem hann átti í síðasta jólabókaflóði með frænku sinni, rithöfundinum Lilju Sigurðardóttur, þar sem þau ræða verk hvers annars.

Fyrir utan þau kemur hefðbundið fastagengi Ljóðamála að útsendingunni; Darrell Jónsson sér um upptöku í myndveri MeetFactory, þar sem Arnheiður Eiríksdóttir og Ásgeir H Ingólfsson kynna dagskrána.

Það er Ásgeir H Ingólfsson sem hefur yfirumsjón með þáttaröðinni. Framleiðendur eru Menningarsmygl og Urban Space Epics.

Carl Warwick samdi stef þáttanna út frá broti úr Völuspá.

Styrktaraðilar eru Miðstöð íslenskra bókmennta, Akureyrarbær og Landsbankinn. Sem og auðvitað allir áskrifendur smyglsins!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.