Tvenn pólsk vinahjón bregða sér í sumarfrí til dönsku eyjunnar Bornholm, með börn og buru. Eða öllu heldur hjón og par, annar helmingur vinahjónanna endaði á að skilja og ný kærasta er því komin í spilið öðrum megin. Við hittum hópinn fyrst um borð í ferju á leið á áfangastað, það er augljóst að Dawid og Maja eiga sér sína fortíð, en núna er hún gift Hubert og Dawid fráskilinn og að deita sálfræðinemann Ninu, sem er mun yngri en þau hin.

Þegar þau eru búin að koma hjólhýsunum fyrir á sínum stað detta þau í kunnuglegan gír, hjólanördinn Hubert virðist varla hugsa um annað en hjólhestinn sinn og uppeldið lendir að venju mest á Maju. Þetta eru þrír strákar á aldrinum 9-11 ára og þeir fá venju samkvæmt að tjalda saman og leika greinilega að stórum hluta sjálfala þegar á eyjuna er komið. En svo dregur skugga fyrir sólu þegar einn þeirra trúir mömmu sinni frá vafasömum fullorðinsleikjum sem honum hafi verið þröngvað í – sem kostar svo uppgjör hjá hinum fullorðnu. Maja reynist nefnilega sú eina sem tekur þetta alvarlega, hin þrjú bregðast við með blöndu af afskiptaleysi, afneitun og réttlætingum.

KVIFF 12

Fucking Bornholm

Leikstjóri: Anna Kazejak

Aðalleikarar: Agnieszka Grochowska, Maciej Stuhr, Grzegorz Damiecki, Jasmina Polak & Magnus Krepper

PÓLLAND 2022

Það hvernig þessi uppákoma reynist vera prófraun á hin fullorðnu og þeirra móralska styrk hefur orðið til þess að sumir hafa líkt henni við Force Majeure – en málið er einfaldlega það að Fucking Bornholm er svo miklu miklu betri bíómynd. Af þeirri einföldu ástæðu að leikstýran Anna Kazejak veit að svona myndir þurfa að hafa hjarta, ólíkt Force Majeure þar sem aðalpersónurnar voru einfaldlega allar óþolandi. Hér er uppskriftin þannig séð einföld, Maja er frábær og Hubert óþolandi og Dawid og Nina svona mitt á milli, á margan hátt viðkunnaleg en um leið gallagripir sem eru líklegri til að taka vitlausa ákvörðun en ekki þegar til kastana kemur. Öll eru þau þó töluvert margrbrotnari persónur en aðalpersónur Force Majeure, sem voru einfaldlega ekki mikið meira en pappaspjöld notuð í tilraunaeldhúsi Östlunds. Eins er tjaldbúðalífið ótrúlega sannfærandi – meðal annars þökk sé óþolandi skinheilögum sænskum nágrönnum, sem sýna ágætlega muninn á pólsku og skandínavísku mentalíteti, en myndin varpar sannarlega líka ljósi á veikleika pólska mentalítetsins þegar kemur að erfiðari spurningum lífsins.

Allt þetta þvingar svo Maju til að endurskoða allt sitt líf, en þó fyrst og fremst hjónabandið, sem virkar frá upphafi dauðadæmt. Hún er vissulega algjör dýrlingur í samanburði við eiginmann sína og vini. Það getur verið snúið að gera dýrlinga áhugaverða, en Agnieszka Grochowska er einfaldlega stórkostleg í hlutverki Maju og ber myndina uppi með bravör, leikkona sem verður stórstjarna í kjölfarið ef það er eitthvað réttlæti í kvikmyndaheiminum. Hún minnir mest á Juliette Binoche á sínum yngri árum, með þessa mergjuðu og mystísku blöndu af mýkt og hörku, ákveðni og ráðaleysi. Og persónan er líka bara frábærlega skrifuð, maður er með henni allan tímann, skynjar hvernig þessi kunnuglega eyja breytist fyrir augunum á henni úr paradís í fangelsi og svo aftur í paradís, allt eftir sveiflum tilfinningalífs í uppnámi. Þetta er þroskasaga móður, móður sem áttar sig á því að eina leiðin til að standa með börnunum sínum er að standa með sjálfri sér.

Ekki skemmir að hinn sænski Jeff Bridges birtist um miðja mynd og stelur nokkrum senum. Hann virkar bara eins og hver annar skandí-bangsi fyrst, en þegar á líður áttar maður sig á að hann hefur sömu manneskjulegu og afslöppuðu áru og Bridges – og þegar maður er nýbúinn að kveikja á því þá er hann spurður: „Svo þetta er þetta hygge sem allir eru að tala um?“ Og auðvitað kinkar hann bara brosandi kolli. Enda hygge-meistarinn.

Og þótt eiginlegur söguþráður myndarinnar sé í raun sáraeinfaldur – en þó um margt óvæntur – þá er úrvinnslan bara svo frábær og stemningin á þessari sumarleyfisparadís, þar sem draumarnir verða að martröð og nýjir draumar verða til, svo sannferðug. Maður kannast við þessa eyju frá löngu liðnum sumarkvöldum –þar sem sumarloftinu fylgja nýjar vonir og brostnar vonir og draumar sem aldrei rætast. Þetta var einfaldlega besta myndin sem ég sá á Karlovy Vary þetta árið og algjör skandall að hún skuli ekki hafa unnið aðalkeppnina, svona miðað við myndina sem á endanum vann.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson