Helsinki, 10 maí. Ég er nýlentur eftir flug frá Prag, grímulaust flug! Þvílík hamingja, er kannski runninn upp sá tími að ég geti talað grímulaust um grímuhatur mitt án þess að vera uppnefndur kóviti, þótt ég vilji helst öll bóluefni í heiminum og rúmlega það, helst einu sinni í mánuði ef birgðir endast?

Hver veit, ferðalög eru allavega hægt og rólega að verða skemmtileg aftur, ekki bara bærilegur flótti frá einu kóvid-landi í annað. En allavega, ég þýt með lestinni af flugvellinum og nýt þess að heyra lestarþulinn reyna að nýta mína takmörkuðu sænsku til að kenna mér finnsku. Hiekkaharju, Sandkulla. Tikkurila, Dickursby. Pasila, Böle.

Svo labba ég fram hjá ótal styttum, sem eru flestar fyrst og fremst lendingarpallar ótal máva sem þarna flögra um. Ég átti eftir að hitta þá betur síðar.

En ég gisti á Hótel Rivoli, rétt hjá Savoy teatern og Alain mikla. Sem ég hélt að væri á Keisaragötu, þangað til Harri útskýrði fyrir mér að Kasarmikatu þýðir Herskálagata. Sem ég hefði auðvitað átt að vita, vitandi að Kasarna eru herskálar í Tékklandi – sem ég veit svo auðvitað aðallega af því einum slíkum, Kasarna Karlín, hefur verið breytt í mjög skemmtilega strönd í borg, svæði afgirt stórhýsum þar sem hægt er að horfa á bíó úti, spila strandblak, flatmaga í sólstól og stundum spila borðtennis, ylja sér við varðeld og versla við pöbbana á svæðinu. Já, og svo er líka einyrningur þarna sem vaktar svæðið.

En allavega, afsakið útúrdúrana – en það verður nóg af þeim í þessum pistli. Í hótelgarðinum – sem er vel að merkja einstaklega notalegur og varð til þess að mig dreymdi um að gista einhvern tímann aftur á þessu hóteli þegar sumarið væri fyrir alvöru komið – já, einmitt þar heilsaði Napóleon mér með virktum. Napóleon og hótelhundur og móttökustjóri og heimtaði vitaskuld sitt klór og klapp, hótelgistingin er sko ekkert ókeypis, ekki einu sinni þegar einhver annar borgar!

En svo ég hendi í eina Höskuldarviðvörun, þá snérist þessi Finnlandsferð á endanum aðallega um tvennt; að heimsækja bókmenntahátíð og að hitta fólk. Af því einhvern veginn þekki ég furðu marga í Helsinki sem heimta að ég drekki kaffi eða bjór með þeim eða fari með þeim í langa labbitúra. Sem var eins gott, af því þótt bókmenntahátíðin hafi verið skemmtileg með ansi stórum kanónum (einn Pulitzer og tveir Bookerar) þá klikkuðu þeir alveg á minglinu, í gegnum þessa hátíð hitti maður engan. Nema auðvitað bókabúðastarfsmanninn, við náðum vel saman þótt ég keypti ekkert af honum, enda allar bækurnar á finnsku – ég gat fengið þær á ensku í háskólabókabúðinni.

Helsinki, 11 maí

Ég er passlega búinn að ná úr mér ferðaþreytunni þegar ég hleyp í hádegismat með Harri og kemst að því að hádegismatur plús hótel morgunverður er kannski full mikið af því góða. Þannig að hina dagana sleppi ég hádegismatnum alfarið – altso fyrir utan daginn sem ég sleppti morgunmatnum og svo hitt skiptið sem Harri plataði mig aftur í hádegismat. Um kvöldið er svo ljóðakvöld fanga – sem verður gerð sérstök skil í bókmenntaútgáfu dagbókarinnar, enda var mér jú boðið hingað til að reporta um bókmenntagjörninga Helsinki. En rétt áður en að því kom plataði Eero mig í tvo bjóra á Buenos Aires, sem gefur mér afsökun til að fjalla aðeins um knæpurnar í Helsinki. Þær eru vissulega nokkrar, en fyrst og fremst tvær sem ber að nefna: annars vegar Rytmi – sem er eiginlega ekkert hægt að lýsa; ef þið eigið ykkar Ölstofu, ef þið hafið horft nógu oft á Staupastein, þá skiljiði.

Ég var því miður of langt frá Rytmi til að hanga mikið þar í þetta skiptið (en var svona nánast við hliðiná staðnum í síðustu Helsinki-ferð) en ég var hins vegar ágætlega nálægt Buenos Aires, sem er nýjasti bar Kaurismäki-bræðra. Síðast þegar ég var heimsótti Helsinki var það rétt tímanlega til að heimsækja forvera Buenos Aires, Corona-barinn og Mosvku-barinn, rétt áður en þeir lokuðu. Og nú þegar ég les þetta, einum Corona-faraldri og einu stríði frá Moskvu síðar, þá vona ég innilega að þeir fari ekki að loka Buenos Aires neitt á næstunni, svo það verði sæmilega friðvænlegt og veirulaust í rómönsku Ameríku.

En allavega, ég skrifaði pistil um gömlu Kaurismäki-barina á sínum tíma sem má lesa hérna. Þar minnist ég meðal annars á finnskan Paul Newman („og skyndilega langar mig mikið að sjá Kaurismäki leikstýra góðri billjardmynd. Er ekki einhver finnskur Paul Newman þarna úti sem bíður eftir hlutverki í þeirri mynd?“) – án þess að átta mig á að ég þekkti hann nú þegar. Meira um það síðar.

Helsinki, 12 maí

Nú er vitaskuld kominn tími á að sinna ættjörðinni og sönggyðjunni. Sumsé, að hitta Íslending og fara á tónleika. Íslendingarnir verða vitaskuld ekki nafngreindir í færslunni, ólíkt flestum Finnunum, enda veit ég að ykkur finnst fátt skemmtilegra en að lesa saklausar bloggfærslur með símaskrána (eða Facebook-vinalistann) við hendina og búa til djúsí samsæriskenningar.

En allavega, téður Íslendingur býr í Ólympíuþorpi draugana, Ólympíuþorpinu sem aldrei var notað sem slíkt, þökk sé heimstyrjöldinni síðari (sem verður vonandi sú síðari eitthvað lengur, það þarf enga í miðið). Áður var hann auðvitað meðleigjandi í helsta ljóðavígi Þingholtana, þar sem ég og fleiri ljóðskáld bjuggum innan um helstu ríkisbubba landsins í lítilli kjallaraholu sem ég trúi bara ekki öðru en að verði friðuð á endanum.

En allavega, við drukkum kaffi og fórum í blómabúð og hann sagði mér frá leikskólaverkfallinu sem var að setja allt úr skorðum – og svo benti hann mér á rafmagnskassana – sem er verið að myndskreyta út um alla borg – og einmitt þess vegna fáið þið núna myndaseríu af fagurlega myndskreyttum rafmagnskössum.

Kvöldinu mun ég svo segja ykkur frá stuttlega í föstudagslaginu, þegar ég var plataður á þessa líka fínu tónleika. Látum flakka stikkorð til upphitunar: Grýlurnar, Kolrassa krókríðandi og eitís pönk. Og svo rennur upp föstudagurinn þrettándi, með bókmenntahátíð sem fyrir mína parta byrjaði með ferð i litla eyju – þótt formleg dagskrá hæfist ekki fyrr en um eftirmiðdaginn. Sökum áðurnefnds skorts á mingli á hátíðinni náði ég svo mínu eina almennilega Rytmi-stoppi og hitti þar auðvitað fyrir góðskáld í ljóðum sem og ljóðmyndum, en ekki hvað!

Á leiðinni hafði ég að vísu rambað á einkar elskulegan og hressan finnskan myndlistarmann og einsetti mér að heyra betur í honum síðar, jafnvel heimsækja vinnustofuna, taka viðtal – þangað til að ég skoðaði heimasíðuna hans og komst að því að þessar myndir hans eru alveg agalegar. Eitthvað hamingjukits í satanískum tölvugerðum fíling. Ókei, líklega er ágætt að láta suma Finnana njóta nafnleyndar líka!

Helsinki, 14 maí

Þegar bókmenntahátíðinni líkur og ég er búinn að matast ákveð ég að það sé rétt að stoppa við hjá ísstandinum rétt við hótelið. Afgreiðslukonan afgreiðir mig um súkkulaðiís, horfir svo á mig alvarlegum augum og segir mér að passa mig á mávunum – og bendir á skilti þess efnis við hliðina á lúgunni.

Ég sest svo með ísinn minn, hlæ með sjálfum mér yfir nojunni í kerlu og er svo búinn að gleyma öllu um máva þegar ég er hálfnaður með ísinn, en þá finn ég fuglsfjaðrir strjúkast við loðinn kollinn og þaðan beint á ísinn. En sem betur fer var miðið eitthvað vanstillt þennan daginn, máfurinn flaug hárfínt fram hjá ísnum og náði ekki einum bita. En mávasögurnar eru ekki búnar. Eftir að hafa hitt Eero og Maritu á Buenos Aires um kvöldið kynntist ég líka hinum Finnska Bukowski 21. aldarinnar – sem var fyrrum póstburðarmaður og ljóðskáld og bar harm sinn út af óendurgoldinni ást sinni á eldri konu alls ekki í hljóði. Og eftir að hafa þvælst full lengi um öldurhús Helsinki þá þvældumst við álíka lengi að leita að einhverju ætilegu – og á leiðinni heim þá náði ég nokkrum ágætis myndum úr ægifagurri finnskri nætursólinni, en ekki síður nokkra blóðuga bardaga mávanna um McDonalds og KFC pokana sem lágu á víð og dreif, sumir vafalaust með ljúffengum afgöngum.

Sunnudagsþynnkunni var svo bjargað með góðum labbitúr. Þetta átti ekkert að verða labbitúr samt – fyrst var matsölustaðnum sem við ætluðum á lokað á sunnudögum, þannig að við þrömmuðum yfir hálfan bæinn til að komast á annan veitingastað. Svo var verið að loka fína eftirréttarstaðnum rétt hjá þegar við mættum þangað um fimm – þannig að aftur þrömmuðum við yfir hálfan bæinn til að fá okkur eftirmat við ströndina.

Á leiðinni sáum við til dæmis síðustu myndbandaleigu Helsinki og pandabjörn, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Þá komum við líka við á Sæhestinum – þar sem Kaurismäki tók einu sinni upp stuttmynd. Ég held það sjáist mjög vel af hverju. Og þar fékk ég líka versta og dýrasta bjór ferðarinnar – sem var kannski viðeigandi.

En ég minntist áður á Paul Newman Helsinki – haldiði að það komi ekki í ljós að göngufélaginn hafði þótt afskaplega efnilegur billjarðspilari, það efnilegur að hann var að vekja athygli njósnara á billjarðstofu Corona-barsins sáluga aðeins sextán ára gamall. En bíóið og bjórinn heillaði meira og hann var víst orðinn afskaplega ryðgaður að eigin sögn í ballskákinni, sem var líklega ástæðan fyrir því að ég fékk allavega að skjóta stöku sinnum þegar við tókum leik á nálægum púlstað. Á næsta borði voru svo afskaplega hress hópur unglingsstelpna að spila og kjafta – og mér leið eins og ég væri í artí unglingamynd þar sem mig vantaði bara textann við – en mundi svo eftir að ég var nýbúinn að sjá þessa mynd og talaði meira að segja um hana í útvarpinu. Tytöt tytöt tytöt. Ah, hvað finnskan er falleg!

Helsinki, 16. maí

Þetta átti að vera rólegheitadagur, síðasti heili dagurinn í Helsinki – tilvalinn til að skrifa til dæmis þessa dagbók. En nei, nei, einhvern veginn þurfti ég á endanum að mæta á miklu fleiri staði en ég hélt. Fyrst var ég plataður aftur í hádegismat og eftir bókabúðarflakk í þrjár helstu bókabúðir Helsinki – og þessa einu sem ég komst ekki í – þá var kominn tími á að hitta annan Íslending úr úthverfum Helsinki á lestarstöðvarkaffihúsinu þar sem var frí áfylling á kaffi. Sem var óspart nýtt, jafnvel af mér sem almennt er lítið fyrir kaffi, en það var eitthvað við þetta sull sem virkaði. Staðsetningin líka viðeigandi, af því það var fjarverandi Lestarstjóri sem hafði stungið upp á hittingnum, sagt að þessir tveir Íslendingar í útlöndum þyrftu nú að hittast, annað kæmi ekki til greina.

Eftir það hljóp ég í Orion-bíóið að sjá Hamingjusama starfsmanninn, The Happy Worker, sem ég mun segja ykkur betur frá í sérstakri grein, áður en ég hitti megnið af Helsinki genginu mínu í kveðjuskyni á Buenos Aires – og svo einn til í morgunmat daginn eftir. Áður en ég pakkaði í töskur og skellti mér í Eystrasaltsferjuna.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson