Ég hafði ekki hlustað á Maus lengi, en þegar ég fletti þeim upp á gömlu bloggi man ég hvað ég átti sterkt Maus-tímabil, einhvern tímann upp úr aldamótunum, einmitt þegar bloggið var í mestum blóma. Núna slær það mig hversu mikið næntís sánd er yfir öllu – næntísið er orðið fortíð en ólíkt eitísinu er það ekki almennilega orðið að tísku. Sem gerir það bara betra, sannara, pönkaðra.

Sveitin skar sig úr með þessum textum, plötutitlar á borð við Í þessi sekúndubrot sem ég flýt minntu frekar á titla ljóðabóka þessara ára, langir og ljóðrænir – og textarnir voru líka með besta kveðskap þessara ára og skemmtilega sjálfsmeðvitaðir á köflum, eins og þegar Birgir svarar þeim sem gagnrýna söngröddina með laginu Maðurinn með járnröddina:

þetta lag verður alltaf sungið falskt.

þessi rödd verður alltaf köld sem járnið.

og því er það ljúft þegar hún bráðnar,

en sárt ef hún ryðgar.

og svo fyndið þegar hún bognar,

en dauðadómur ef hún brotnar.

en með þennan málróm stirðan sem stál,

næ ég að tjá mína gaddavírssál.

og þó ég haldi ekki tóni,

með þessum óþægindar hljómi.

og þó eyrun ykkar blæði,

þá veld ég aldrei nægu tjóni sem…

Mausverjar hafa þó líka hlustað eitthvað á gagnrýnina, altént var ég bara að komast að því á Glatkistunni að þeir hefðu fengið Daníel Ágúst Haraldsson úr Nýdanskri og Gus Gus til að leiðbeina Birgi aðeins í söngnum fyrir áðurnefnda plötu. (Já, og svona í framhjáhlaupi – djöfull er Glatkistan frábær og mikilvæg síða fyrir íslenska tónlist!)

En svo er lykillag sveitarinnar, Allt sem þú lest er lygi. Ég mæli með að horfa á stórskemmtilegt myndbandið, þar sem reglulega birtist texti á skjánum sem stundum er mjög augljós lygi, stundum líklegast lygi – en stundum hinkrar maður aðeins og hugsar: gæti þetta mögulega verið satt?

Hlustandi núna slær forspárgildið mig þó mest. Fáeinum árum seinna var það helst þessi lína:

„lýgur þá fréttablaðið af einskærum sið eða til hugsunaruppeldis?“

Þetta var árið 1999, tveimur árum síðar hóf Fréttablaðið göngu sína og ekki löngu seinna var það orðið stærsta dagblað landsins og Birgir Örn sjálfur var byrjaður að vinna þar, enda Maus-ævintýrið byrjað að fjara út.

En núna er Fréttablaðið horfið úr póstkössunum og aðrir hlutar textans slá mann öðruvísi en þá.

og nú stend ég á gati,

og lýsi yfir frati á skynsemi skólabóka,

allt sem þú lest er lýgi.

Ég tengdi við þetta þá, þá vorum við efasemdafólkið að manni virtist fámennur hópur, en allt annar hópur – oftar en ekki vel lesið fólk sem hafði lesið nóg til að sjá í gegnum vitleysuna. Þetta er fólk sem las skólabækurnar, en tengdi ekki við þær, efaðist, fannst þær grunnar. Núna er frekar eins og þessar línur lýsi þeim sem aldrei opnuðu skólabækurnar, eða nokkrar aðrar bækur.

og það er borað í hausinn á mér,

ég fylltur lygatjöru með stórri tregt.

og það er borað í hausinn á mér,

ég tappa af til að skilja eitthvað.

Árið 1999 kom Matrix líka út – þetta er textinn um Neo að sjá heiminn á bak við heiminn. Árið 1999 var þetta Keanu Reeves, núna er þetta fúlskeggjaður redneck með neðanjarðarbyrgi fullt af dósamat og rifflum og MAGA húfu á hausnum.

Upplýsingaóreiðan sem lagið spáir fyrir um (og hefur auðvitað alltaf verið til staðar í einhverri mynd) er nefnilega líka ákveðin hugmyndaóreiða – ákveðnar hugmyndir yfirgefa einn þjóðfélagshóp og taka sér bólfestu hjá öðrum hópi – og verða allt öðruvísi í laginu. Eða kannski líta þær bara öðruvísi út í fjarska?

Svo er eins og sjálfur Vladislav Surkov tali í gegnum söngvarann hér:

en sjáðu nú til,

ég get fært mér þetta í vil,

til að mata þig af þeirri vitleysu sem ég vil.

Surkov þessi einn af fyrstu áróðursmeisturum Pútíns, kallaður grái kardínalínn og kom úr „einhverri furðublöndu her- og leyniþjónustu, avant garde-listaheims og auglýsingabransa. Hann hefur skrifað smásögur og leikrit, tjáir sig frekar ofstækisfullt um þjóðernismálefni og leikur sér sumsé meðvitað að því að sundra og splundra út frá því gundvallar-lögmáli að óreiða getur aldrei minnkað.“ (Heimild: Fríða Garðarsdóttir)

Og þegar maður les þennan 24 ára texta Maus þá áttar maður sig á hvernig Surkov og hans líkar hafa tekið þessar jaðarhugmyndir aldamótanna, afskræmt og komið inní meginstrauminn og bætt við einhverju göróttu rússnesku eitri, og auðvitað hjálpuðu nútíma miðlar við þetta allt saman. Svo drepur þetta hægt og rólega Fréttablaðið og önnur blöð – og ef allt sem við lásum var lygi þá, erum við mögulega á góðri leið með að tryggja að það verði ekkert eftir að lesa. Nema það sem maskínurnar skrifa fyrir okkur.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson