Við byrjum í Kaupmannahöfn undir lok fyrra stríðs. Stúlkan með nálina (Pigen med nålen) fjallar um saumakonuna Karolinu sem býr ein og virðist hafa það ágætt í upphafi myndar en svo kemur í ljós að hún hefur ekki efni á leigunni – og það er bara upphafið af hrakförum hennar. Hún flytur út og hefur bara efni á algjöru hreysi, fær ekki ekkjustyrk þar sem ekkert hefur spurst til eiginmanns hennar úr stríðinu og enginn veit hvort hann er lífs eða liðinn.
En yfirmaður hennar sýnir henni áhuga, svo mikinn að hann endar á að barna hana og ætlar í upphafi að gangast við króganum og giftast stúlkunni en móðir hans kemur í veg fyrir hjúskapinn, enda reynist hún raunverulegur eigandi fjölskylduauðæfanna og vill ómögulega sólunda þeim á einhverja almúgastúlku.
Karolina er á barmi taugaáfalls og er við það að gera eitthvað mjög heimskulegt, þegar hún kemst óvænt í kynni við Dagmar Overbye, miðaldra konu sem býðst til þess að taka af henni barnið þegar þar að kemur, gegn sanngjarni greiðslu auðvitað, og koma því fyrir hjá efnafólki sem getur ekki eignast börn sjálft.
Dagmar var raunar til í alvörunni og stundaði það að myrða börnin sem hún þóttist bjarga og réttarhöldin yfir henni eru með þekktari réttarhöldum danskrar sögu. Það er Tryne Dyrholm sem leikur Dagmar – þótt hún sé 18 árum eldri en Dagmar var þegar hún var dæmd til dauða, sem seinna var breytt í ævilangt fanngelsi.
Karolina er hins vegar að því virðist skálduð persóna, hálfgerður tákngervingur allra mæðranna sem treystu á meinta góðmennsku Dagmarar en saga hennar er þannig sett upp að það er eðlilegt að hún hafi horfið úr sögunni. Karolina fær vinnu hjá Dagmar, en hún rekur sælgætisbúð sem yfirvarp fyrir aðalstarf sitt.
Myndin er ekki bara svart-hvít, heldur minnir margt í henni á áherslur í kvikmyndagerð þessara ára, sem sést skýrt með eina lykilpersónu sem er svo afskræmd að hann vinnur í sirkus, og það er lítil hliðarsaga í myndinni sem minnir mest á Hringjarann frá Notre Dame – eða jafnvel öfugsnúna Fríðu og dýrið, þar sem prinsinn breytist í dýrið.
Þetta er afskaplega fallega tekin mynd í semí-expressjónískum stíl, en um leið nöturleg, birtir okkur Kaupmannahöfn sem er ekki alveg jafn skítug og sú Köben sem birtist manni til dæmis í Kóperníku Sölva Björns Sigurðssonar, borgin stendur á brún nútímans en er samt enn um margt mjög forn.
Helsti veikleiki myndarinnar er þó aðalpersónan Karoline. Vic Carmen Sonne leikur hana ágætlega en persónusköpunin er hálf-bjöguð. Stúlka sem virðist full af lífsorku og forvitni hálfpartinn koðnar hægt og rólega niður í hálfgerða rolu, sem vissulega má skrifa á mótlætið sem hún mætir, en það er samt ekki alveg í sannfærandi takti við versnandi örlög.
Skransali, landabruggarar og geimfarar
En hverfum nú norður til Kokkola í Finnlandi. Þaðan er finnski leikstjórinn Juho Kuosmanen, sem gerði Klefa númer 6 og Besti dagurinn í lífi Olli Mäki og rétt eins og sú síðarnefnda gerist Þögli þríleikurinn, eða Mykkätrilogia, í heimabæ leikstjórans. En þótt ég hafi ekki komið til Kokkola þá hef ég á tilfinningunni að hann sé hægt og rólega að búa til sitt eigið bíó-Kokkola sem er aðeins á skjön við hinn raunverulega bæ.
Þetta eru í raun þrjár stuttar þöglar myndir sem upphaflega voru sýndar í Finnlandi, hver í sínu lagi árin 2012, 2017 og 2023 – og þá með undirleik lifandi bands að sögn finnsks kollega míns. Fyrsta myndin ku að miklu leyti byggð á sönnum atburðum en hinar tvær eru ákveðin tilraun til að endurskapa að einhverju leyti frægar finnskar þöglar myndir sem ekki hafa varðveist og eru eingöngu til að dreifa lauslegu ágripi af söguþræðinum.
Sú fyrsta heitir „Rusla-Mattila og fallega konan“ – og fjallar um mann sem missir húsið sitt út af endurskipulagningu í bænum og fer að selja allt sitt hafurtask en verður að athlægi út af því rusli sem hann reynir að koma í verð. Mattila þessi leikur sjálfan sig, þótt sagan sé um flest skáldskapur, og söngkonan sem hann kynnist seint í myndinni er leikin af blaðakonunni sem fjallaði fyrst um málið og kynnti Kuosmanen fyrir málinu.
Þetta er nístandi falleg en um leið fyndin tragikómedía, og besta myndin í trílógíunni – en hinar tvær eru mjög skemmtilegar líka. Þær fjalla báðar um erfingja Mattila sem sannarlega erfa engin ósköp, og heitir sú fyrri „Landabruggararnir“ – og nafnið dugar eiginlega til að súmmera myndina ágætlega upp; landabrugg sem gengur í upphafi merkilega vel, þangað til aðrir óprúttnir aðilar, sem og laganna verðir, verða á vegi bruggaranna. Lokahlutinn er svo „Reikistjarna í fjarska,“ og minnir dálítið á Bróðir minn ljónshjarta að því leytinu til að þessi reikstjarna virðist vera einhvers konar Nangijala, en persónurnar gætu ekki verið mikið ólíkari en þeir bræður. Í upphafi myndar vinna aðalpersónurnar raunar sem vitaverðir þangað til sendinefnd kemur til þeirra, nær í ljósið úr vitanum og segir þeim einfaldlega: „Það eru allir með GPS í dag.“
Þessi lágstemmdi húmor verður svo alveg yndislegur í meðförum svipmikilla leikara sem minna ekki lítið á dæmigerðar persónur úr þöglu myndunum, eða jafnvel bara úr Spaugstofunni. Mér var alveg hugsað til Boga og Örvars á köflum.
Heimildamyndapersónur og Helgi Björns á vínbar
En þá skulum við bregða okkur á barinn. Nánar tiltekið hinn eina sanna vínbar Bokovka, sem leikstjórinn Jan Hrebejk rekur og þar sem Gus Gus sungu afmælissöngin fyrir Helga Björns fyrir tíu hátíðum síðan. Einmitt þar hitti ég eina aðalpersónu Trans Memoria sem og fleiri aðstandendur myndarinnar – og varð nógu forvitinn til að redda mér miða á myndina í kjölfarið.
En þessi aðferðafræði við að velja myndir gengur því miður ekki alltaf upp. Hugmyndin er forvitnileg en myndin veit ekki alveg hvað hún á að vera. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar Trans Memoria um minningar transkonu, leikstýrunnar Victoria Verseau, sem ferðast aftur til Taílands til þess að takast á við trámað sem fylgdi kynskiptiaðgerðinni sem hún fór í þar, og fær tvær vinkonur sínar með, sem báðar voru í aðgerð á sama tíma og hún.
Myndin fjallar um minningar af mjög erfiðri aðgerð sem að auki fylgja miklar og flóknar tilfinningar og líka um það að gera heimildarmynd um eitthvað sem er löngu liðið. Myndin finnur þó ekki alveg tóninn, veit ekki alveg hvort hún vill vera meta-mynd um gerð heimildarmyndar eða mynd um þetta ferli og eftirköst þess. Það hefði líklega verið betra að einbeita sér að því, því þar fær maður nasaþef af ýmsu áhugaverðu sem er svo ekki framkallað nógu vel og er því eiginlega enn þá að stórum hluta á huldu fyrir áhorfendum eftir mynd.
Makedónska nýbylgjan
En höldum okkur á hinseginlendum og bregðum okkur til Makedóníu. Þar gerist myndin sem fékk Hýra ljónið í Feneyjum í fyrra; Heimilishald fyrir byrjendur, eða Housekeeping for Beginners. Hún er eftir leikstjórann Goran Stolevski, Makedóna sem flutti til Ástralíu barnungur en hefur snúið aftur til gamla heimalandsins til að gera tvær frábærar myndir, þessa og You Won‘t Be Alone, vampíru-umskiptingamynd með Noomi Rapace.
Það heimilishald sem titill myndarinnar vísar í snýst minnst um húsverkin og mest um það að halda óvenjulegu heimili saman án þess að allt sjóði upp úr. Hún Dita er nefnilega lesbískur félagsráðgjafi í Skopje, höfuðborg Makedóníu, og einhvern veginn hefur hún safnað í kringum sig vegalausum villingum sem eru ýmist sígaunar eða hinsegin eða bæði. Hvernig þetta æxlaðist nákvæmlega vitum við ekki almennilega, við mætum bara inn á þessa fjölskyldu þegar Ali, samkynhneigður sígaunastrákur, er nýfluttur inn, hálfpartinn í óþökk Ditu. En hún blíðkast þó þegar í ljós kemur að hann kann betur lagið á börnunum á heimilinu en aðrir íbúar.
Sjútka, stærsta sígaunahverfi Evrópu er einmitt í útjaðri Skopje. Það er alls ekki jafn niðurnýtt og sum sígaunahverfi Austur-Evrópu, alla vega sá ég ýmsar skemmtilega art deco-legar byggingar þegar ég heimsótti svæðið og þvældist um markaðinn. En vissulega var nóg af fátækt þarna líka. Ali talar enda fjálglega um Sjútka, kallar hverfið París sígaunanna. Og áður en þið sendið kvörtun á málfarsráðunautinn, þá er rétt að geta þess að það var einmitt í þessari ferð sem ófáir sígaunar hlógu að mér fyrir að reyna að nota orðin róma-fólk, orð sem virðist frekar tilheyra félagsfræðirannsóknum um sígauna, en virðist sjaldnast vera hversdagslegum sígaunum á götunni tamt.
En aftur að myndinni. Á einhverjum tímapunkti þarf að taka erfiðar ákvarðanir og formgera heimilishaldið meira, þegar ástkona Dítu deyr en skilur hana eftir með dætur sínar tvær. En það sem gerir myndina hreint yndislega, forvitnilega og skemmtilega er hversu lífleg átökin á milli heimilismeðlima eru, ekki svo ólík venjulegri skaddaðri fjölskyldu, þar sem allir fara fyrst í átakagírinn, frekar en að tala saman í rólegheitum. Það sem sker þessa fjölskyldu frá öðrum er að enginn þeirra beinlínis valdi þetta, Dita játar til dæmis að hún búi ekki yfir neinu í ætt við móðureðli – en hún endaði bara með öll þessi vegalausu börn í sinni umsjón, dætur látinnar sígaunakærustu.
Og myndin er enn ein staðfesting þess að makedónska nýbylgjan er einhver sú mest spennandi í heiminum í dag. Þar má fyrstar telja myndir Stolevskis sjálfs og myndir þeirrar frábæru leikstýru Teonu Strugar Mitevska, sem gerði þá nöturlegu mynd Þegar dagurinn bar ekkert nafn og hina kostulegu og hugvekjandi Guð er til og hún heitir Petrúníja, sem og myndir á borð við Honeyland og Systrabönd. Allar þessar myndir hafa verið frumsýndar á síðustu átta árum, sem er sannarlega merkilega góð uppskera hjá tæplega tveggja milljóna þjóð sem er með þeim fátækustu í Evrópu.
Saga um sendil
Ljúkum þessu svo á að franskri matargerð. Nánar tiltekið þeim anga matvælabransans sem stækkaði mest í kófinu í flestum borgum Evrópu; sendlafyrirtækin sem eru nú stundum með lengri raðir á veitingastöðum en venjulegir kúnnar og borga þessum sömu sendlum oft skelfilega lág laun.
Sagan um Souleymane (L’histoire de Souleymane) fjallar einfaldlega um einn slíkan sendil. Abou Sangare leikur Souleymane og var valinn besti leikarinn í Un Certain Regard flokknum í Cannes, en Souleymane er hælisleitanda frá Gíneu. Hann má ekki vinna og fær því sendlaleyfið í gegnum kunningja, sem tekur auðvitað sínar prósentur.
Þetta er í grunninn einföld saga en um leið hrá og sterk. Hún fjallar fyrst og fremst um hversdag Souleymane sem snýst einfaldlega um að lifa af, standast oft fjarstæðukenndar kröfur matsölustaðanna og kúnnana og ná síðustu rútunni í það fjarlæga úthverfi þar sem hann fær að halla höfði sínu það kvöldið, en hann þarf á hverjum einasta degi að hringja og panta þar bedda.

Um leið er hann að vinna í umsókn um dvalarleyfi – og fær margar misvísandi útgáfur af því hvernig er best að komast í gegnum það nálarauga kerfisins. Og það eru kannski helst tvær senur sem skera öðrum fremur í hjartað. Annars vegar þegar hann er svo heppinn að konan sem tekur viðtalið við hann hjá hinni frönsku útlendingastofnun virðist hjálpleg og skilningsrík – en maður veit samt nóg til þess að vita að þessi saga hans er aldrei að fara að sleppa í gegn, neyð hans er ekki nógu mikil.
Hitt er þegar hann talar í myndsíma við kærustuna sem varð eftir í Gíneu og er nú komin með nýjan vonbiðil, arkitekt nokkurn. Souleymane elskar hana enn þá, en hann veit einfaldlega að flestallir vonbiðlar geta boðið henni betra líf en hann, svo vonlausa skynjar hann eigin stöðu. Stöðu sem við á Vesturlöndum höfum búið til, stöðu þar sem við setjum sífellt fleiri í fullkomlega ómögulega stöðu og börmum okkur svo yfir að þau taki allar vinnurnar sem við viljum alls ekki vinna sjálf.
Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum 24. júlí 2024.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
1 Pingback