Árið 1980 var tiltölulega nýbakaður Óskarsverðlaunahafi að frumsýna nýjustu myndina sína. Michael Cimino hafði unnið Óskarinn fyrir Hjartarbanann tveimur árum áður, þriggja tíma mynd um Víetnamstríðið og vináttu sovéskættaðra Ameríkana – og var nú mættur með alvöru epík, fjögurra tíma mynd sem hét því lítilláta nafni Heaven‘s Gate. Nú skyldi sigra heiminn rækilega, ef síðasti sigur var ekki nóg.
Myndin var það löng að jafnvel í siðuðum löndum – já, og í Ameríku líka – var ákveðið að hafa hlé. Og í hléinu spyr Cimino kynningarstjórann: „Af hverju snertir enginn á kampavíninu?“ „Af því þeir hata myndina þína, Michael,“ sagði kynningarstjórinn.
Þetta var ekki bara banabiti leikstjóraferils Cimino (sem vissulega gerði fleiri myndir, en hann var orðinn rækilega brennimerktur), heldur nýju Hollywood eins og hún lagði sig, spásögn um að flestir leikstjórarnir sem voru kallaðir snillingar á sjöunni voru úthrópaðir oflátungar með ofmetnað á áttunni, og varla að nokkuð heiðvirt kvikmyndastúdíó treysti þeim fyrir peningunum sínum lengur.
Það spilaði auðvitað fleira inní. Carter var nýbúinn að tapa fyrir Reagan, stemmningin var að breytast – það er eiginlega skrítið að hugsa um þessa mynd og sumar aðrar frá árinu 1980 sem eitísmyndir, líklega byrjaði eitísið þegar þetta fólk fúlsaði við kampavíninu og byrjaði að láta sig dreyma um meira poppkorn.
Hver var svo eðlileg endastöð þeirrar þróunnar? Þegar ofurhetjumyndir fara að vinna Óskarsverðlaun. Og engin þeirra vann jafn mikil þungaviktarverðlaun og Jókerinn, þar sem Joaquin Phoenix og Hildur Guðna dönsuðu að síðasta Óskarnum fyrir heimsfaraldur.
Og því getur maður ekki annað en velt fyrir sér, er næsti Jóker úr pakkanum Heaven‘s Gate okkar tíma? Endalokin á tímabili í kvikmyndasögunni? Það hafa fleiri ofurhetjumyndir floppað, en það var fyrirsjáanlegra – fólk bjóst við öllu vondu.
En Heaven‘s Gate fékk sína uppreisn æru með tímanum – og ég er ekki frá því að Jókerinn eigi slíka uppreisn sömuleiðis skilið.
Frá Scorsese í japanskar ungmennabókmenntir
Það var ekkert verið að fela helstu áhrifavaldana í fyrstu Jóker-myndinni (sem var smyglað ítarlega um hér); King of Comedy og You Were Never Really Here – sem voru jú með tveimur stærstu stjörnum myndarinnar, þeim Robert DeNiro og Joaquin Phoenix. Eitthvað sem sumir reyndu að skora nördastig út á með frösum eins og „örbylgjuhitaður Scorese“ – en gleymdu að kvikmyndasagan gengur bókstaflega út á vísanir, sem Scorsese veit manna best sjálfur.
Phillips sækir hins vegar í ólíklegri verk í þetta skiptið, raunar eru þau ekki það fræg, svo það er vissulega alls óvíst að hann viti af þeim. Önnur er japönsk ungmennabók og hin heimildarmynd um indítónlistarmann.
Ég skrifaði um Heaven eftir Mieko Kawakami um svipað leiti í fyrra. Þetta er saga um japanska unglinga í menntaskóla og svívirðilegt einelti sem þar þrífst, en í raun má segja að tvær lykilpersónur bókarinnar séu á sinn hátt málpípur annars vegar níhílisma Nietzsche og hins vegar fornrar kínverskrar speki. Þessar tvær persónur eru annars vegar einn eineltisseggurinn (sá sem stendur þó að mestu hjá) og hins vegar stelpan sem verður eini vinur aðalpersónunnar, hún Kojima (Aðalpersónan er aldrei nefnd á nafn, bara kallaður Auga). Kojima rómantíserar eineltið, talar um „yndislega veikleika“ – en á móti segir einn eineltisseggurinn einfaldlega: „Eina ástæðan fyrir því að þú lentir í þessu er að þú varst nálægur þegar einhvern langaði til að kýla einhvern.“
Í ógnarstjórn eineltisins er Kojima í þögulli andspyrnu, en þetta er andspyrna píslarvottsins, sem kemur í ljós að er ekki raunveruleg lausn, þótt hún geti veitt tímabundna huggun. Það kemur oft á óvart hvaða heimspeki er hjálplegust í þessum aðstæðum og hvað leiðir þig í ógöngur – og í raun er ljóst að hvorug lífssýnin mun duga ein og sér í viðsjárverðum heimi. Eymdin elskar félagsskap, en hún er ekki endilega góður félagsskapur ef áframhaldandi sameiginleg eymd er skilyrði.
Og þessi bók dúkkaði ítrekað upp í hausnum á mér þegar ég horfði á Joker: Folie á Deux. Nafnið vísar í geðveiki sem tveir deila, mætti kannski þýða sem „sameiginlegt skipbrot,“ – en vandamálin knýja dyra þegar skipbrotið er ekki lengur sameiginlegt, þegar skipstjórinn ákveður að fara ekki niður með skipinu.
Í myndinni er Arthur Fleck kominn í fangelsi, grindhoraður, að virðist brotinn – en stundum kemur þó Jókerinn upp í honum, og það er misjafnt hvort það sé augljós fantasía eður ei. En hann er líka orðinn stjarna, helsjúkir aðdáendur dásama hann. Og þarna speglar myndin raunveruleikann um margt, ekki bara endalausa aðdáun fólks á hlaðvörpum og heimildamyndum um fjöldamorðingja, heldur viðbrögðunum við fyrri myndinni.
Það voru margir sem sökuðu fyrri myndina um að vera incel-áróður, sem mér persónulega fannst kolrangur lestur, en það breytir því ekki að sumir incelar heimsins og skoðanasystkyni þeirra tóku myndina upp á sína arma. Jókerinn var andhetja eigin myndar – en vandamálið er að fólk ákveður sjálft hverja það sér sem hetjur og hverja það sér sem skúrka. Jókerinn var enda ekki einfaldur skúrkur, hann var brjóstumkennanlegur, maður skildi alveg sumt sem hann gerði, maður hataði suma andstæðinga hans – það getur alveg verið stutt stökk þaðan yfir í að bókstaflega halda með honum, finnast hann vera góði kallinn.
Og myndin er bókstaflega að afneita þessum hluta aðdáendahópsins, senda þeim fingurinn. Þeim sem finnst Jókerinn vera hetja. Harley Quinn (Lady Gaga) mætir og þykist vera af sama sauðahúsi og hann, en sannleikurinn er sá að hún er yfirstéttarpía – í raun af sama sauðahúsi og mennirnir sem í fyrri myndinni kvöldu Arthur í neðanjarðarlestinni. Við fáum vissulega ekki nema brotakennda sýn af baksögu hennar, en hún elskar bara Jókerinn, hún elskar ekki Arthur Fleck. Hún elskar bara píslarvottinn, ekki þann aumingja sem flestir sáu í Arthur áður en hann gerðist Jóker. Hún elskar úrkynjunina, grimmdina og sjálfstraustið, maður áttar sig fljótlega á að Arthur verður seint hólpinn nema hann hlusti á þá sem raunverulega vilja hjálpa honum, verjandann Maryanne (Catherine Keener) eða fangavörðinn Jackie Sullivan, sem Brendan Gleeson leikur og er mögulega athyglisverðasta persóna myndarinnar. Hann vill vel, en hann er samt líka skapbráður og hefnigjarn – sjaldan hefur þversögninni sem getur fylgt þessu starfi verið skilað með jafn lágstemmdum en þó eftirminnilegum hætti.
Myndin tekst líka á við hefðbundna klisjukennda sagnamennsku, með allan sinn fyrirframgefna strúktúr – sem útilokar um leið ákveðna hluti. Við viljum sjá ofbeldisfylleríið, hvort sem það er morðæði Jókersins, nýjasta stríðið eða nýjasta hasarmyndin, en það er lítil eftirspurn eftir því sem á eftir fylgir. Eftirstríðsár allra tíma, full af brotnu fólki, eru oftast bara neðanmálsgreinar í mannkynssögunni, og sagnaritarar stórsögunnar taka ekki við sér fyrr en einhver annar hasar tekur við – og sama á við um Jóker og aðra skúrka bókmennta- og kvikmyndasögunnar, við fréttum sjaldnast mikið af þeim fyrr en næst þegar þeir sleppa úr fangelsinu. Þannig er vandinn við hefðbundið bíóofbeldi oftast þetta; við sjáum sjaldnast afleiðingarnar – hvort sem það eru syrgjandi fjölskyldur fórnarlambsins, örkumluð fórnarlömb sem lifðu af – eða gerendur að kljást við afleiðingar gjörða sinna. En þetta er einmitt sú mynd, og það er að sönnu virðingarvert. Harley Quinn hvíslar að Jókernum á einum stað: „Gefum fólkinu það sem það vill.“ En leikstjórinn virðist vita að stundum hefur fólk ekki gott af því að fá það sem það vill – og Arthur áttar sig á þessu sjálfur að lokum. Flestir vildu hefðbundnari mynd, eða eins og Guy Lodge gagnrýnandi Variety orðaði það snyrtilega á Twitter: „Ég reikna með að fólk hafi viljað að hann slyppi og tæki annað upplífgandi morðæði.“
Að syngja sér þvert um geð
Svo eru auðvitað þeir sem kvarta einfaldlega yfir því að þetta sé söngleikur (sem er að vísu ofsögum sagt, það er varla alveg nógu mikið sungið hér til að beinlínis kalla þetta söngleik) – og þar á meðal fólk sem mætir í hlaðvarp og kvartar yfir því að hér séu engin fræg lög og þetta sé nú engin Mamma Mia! En Mamma Mia! Var líka móðgun við alla ærlega söngleiki, þar sem laglausir leikarar syngja illa, án þess að það raunverulega þjóni sögunni.
Það eru hins vegar sannarlega ótal þekkt lög í Jókernum, en vissulega eldri lög en Abba – mest smellir frá gullöld söngleikjanna, stöku slagarar frá því fyrir stríð en mest frá 1950-70. Þeir fá hins vegar allt aðra vídd þegar þeir eru fluttir af Joaquin Phoenix með sinni brotnu rödd, maður finnur viðkvæmnina og geðveikina til skiptis – og á móti syngur Lady Gaga vitaskuld af fumlausu öryggi þeirrar sem er í engum vafa um sína geðveiki. Í raun er þetta eðlilegt framhald á rannsókninni á þessum karakter – fyrri myndin fjallar um mann sem vill vera fyndin, en það er ekkert í lífi hans sem er fyndið, sérstaklega ekki hann sjálfur. Í framhaldinu ákveður hann að syngja klassísk söngleikjalög sem snúast fyrst og fremst um hamingjuna – sem sömuleiðis er eitthvað sem er órafjarri hans veruleika. Þannig verður átakanlegt hversu augljóslega textarnir eru rómantískir draumórar í meðförum brotins manns, ólíkt því sem þeir voru upphaflega, þegar smókingklæddar stjörnur Hollywood gullaldarinnar sungu lögin í heimi eilífrar hamingju.
Söngatriðin hægja þó vissulega sum á myndinni – hún hefði sannarlega alveg mátt vera styttri, eins og flestar myndir þessi dægrin raunar, en þegar lögin virka þá þrælvirka þau. Og rúsínan í pylsuendanum er svo nýjasta lagið í myndinni, sem Phoenix syngur yfir kreditlistanum – „True Love Will Find You in the End,“ sem Daniel Johnston samdi árið 1984. Og þessi mynd kallast sannarlega á heimildamyndina mergjuðu sem gerð var um Johnston, The Devil and Daniel Johnston, af því fáir menn voru í raun líkari þessum Jóker og Daniel Johnston. Aðra stundina var hann að semja undurfagrar, tregafullar og viðkvæmar ballöður – með viðkvæmni þess sem hefur orðið undir í lífinu – en þess á milli var hann einfaldlega kolbrjálaður, nærri því búinn að drepa eigin föður í þyrluferð með glannaskap meðal annars. Bæði hann og Arthur Fleck voru einfaldlega of viðkvæmir fyrir þessa grimmu veröld, sérstaklega óheftan amerískan kapítalisma, og skiptust á að mæta henni af einlægni og heift – og gátu ekki valið.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson