Um helgina fer einleikjahátíðin Act Alone fram á Suðureyri. Elfar Logi Hannesson stofnaði hátíðina árið 2004 og er listrænn stjórnandi hennar í ár. Menningarsmygl spurði hann örlítið út í einleikinn, listina og Vestfirðina.

Hvað kom til að þú heillaðist svona að einleiknum?

Góð fyrsta spurning, alveg einstök. Þetta var nú eiginlega þannig að formið valdi mig. Þegar ég flutti hingað vestur um síðustu aldamót komst ég að því að ég væri eini atvinnuleikarinn búandi hér svo þá var ekkert annað að gera en leika bara einn og það hef ég gjört síðan.

Uppáhaldseinleikur (bannað að velja þá sem eru sýndir núna)?

Vá þessir er erfið. Vildi nefna hundrað en segjum Umbreyting eftir og með meistara Bernd Ogrodnik.

Þetta er erfitt form – og ýmsar sögur sem verður snúið að segja með bara einum leikara. Geturðu sagt okkur frá nokkrum sniðugum lausnum sem þú hefur séð á því hvernig þetta þrönga form einleiksins er víkkað?

Einleikurinn er svo einfaldur að annaðhvort virkar þetta eða ekki. Fyrst og fremst er það sagan einsog í hverju listaverki. Með góðu handriti kemstu upp með allt, meira að segja leikmuni. Mesta glíman er ávallt að finna leiðina og það getur oft tekið marga mánuði en þegar leiðin er fundinn þá púslast allt rétt, slétt og fellt. Einfaldleikinn heillar mig þó ávallt mest.

SuðureyriHvað finnst þér mest heillandi við Suðureyri?

Fólkið sem þar býr. Bestu gestgjafar landsins.

Hátíðin er búin að ganga núna í nokkur ár, rétt eins og Aldrei fór ég suður og Skjaldborg – hvernig finnst þér þróunin á menningarlífi fyrir vestan hafa verið á þessum tíma? Hvort sem er bara í leiklistinni eða almennt.

Ef þessar hátíðir hefðu ekki komið til hér vestra þá væri listin sannlega ekki jafn mikil og öflug og hún er í dag. Þessi hátíðarþrenna hefur styrkt listasenu Vestfjarða til mikilla muna. Allar hafa þær slegið í gegn og vakið athygli á því að lífið er ekki bara saltfiskur, ekki einu sinni á Vestfjörðum. Gæðin hafa einnig aukist, sem og fjölbreytileikinn og um leið atvinnulistin. Það er löngu vitað að það  er einstaklega gott að skapa á landsbyggðinni og hvað þá hér vestra innan um alla þessa brumandi náttúru. Og ekki má gleyma fólkinu sem þar býr sem er duglegt við að sækja listina og vill ef eitthvað fá meira. Ef eitthvað er getum við enn bætt í listina, bæði fjölgað hátíðum og ekki síst aukið atvinnulistir á svæðinu. Ég hef oft skorað á ráðamenn hér á svæðinu að veðja á listina sem er okkar stórmagasín.

Er eitthvað sérstakt sem þú myndir vilja sjá gert til að efla menningarlífið á landsbyggðinni.

Að þeir sem stjórni monningakerfinu veðji á listina því þar liggur framtíðin.

Það er frítt inná hátíðina – hvernig fáið þið dæmið til að ganga upp?

Act alone er gott dæmi um farsælt samstarf listar og atvinnulífs. Mörg fyrirtæki hafa fyllt okkur frá upphafi, alveg síðan 2004 þegar hátíðin var fyrst haldin, og árlega bætast við fleiri hugsjónafyrirtæki. Einnig hefur Uppbyggingasjóður og Ísafjarðarbær veðjað á okkur.

Segðu mér aðeins frá hátíðinni í ár – hverjir eru helsti einleikirnir?

Dagskrá ársins er einstaklega fjölbreytt, allt frá leiksýningum til danssýninga og allt þar á millum og kring. Meðal einleikja ársins er Griðastaður með Jörundi Ragnarssyni og Guðmóðirin með Ebbu Sig. Danssýningin FUBAR hefur slegið í gegn og mikll fengur að fá hana hér vestur. Ekki má gleyma hinni einstöku barnasýningu Vera og vatnið. Í ár beinum við kastljósinu sérstalega að einstakri tónlist og bjóðum uppá konserta með Helgu Möller, Sigga Björns, Pétri Jesú og Jóni Jónssyni. Ekki má gleyma Ómari Ragnarssyni sem verður bæði á ljúfu og hressu nótunum, fjöldasöngur og allt.

Sumt þarna er máski ekki bein leiklist, þótt það sé vissulega bara einn á sviði – út frá hvaða kríteríu eru þessi verk valin?

Með hverju árinu höfum við vera að bæta við okkur listformum. Eina reglan er að það komi aðeins einn listamaður fram hverju sinni. Það má því segja að Act alone sé orðinn að einstakri listahátíð. Hátíð sólósenunnar. Rétt í lokin er gaman að geta þess að það er ókeypis á hátiðina, einsog hefur reyndar verið frá upphafi.

Viðtal: Ásgeir H Ingólfsson