Ég var nýlentur í Helsinki þegar ég varð vitni af mínu fyrsta Kaurismäki augnabliki. Ég sat úti á bar rétt hjá hostelinu, svona rétt að reyna að fá tilfinningu fyrir borginni. Þá kemur aðvífandi blökkumaður sem biður um eld. Ég átti ekkert slíkt, þannig að hann gengur þrjú skref áfram og biður manninn á næsta borði.

Sá á eld og að þökkum réttir hann fram hnefann: „Klestann!“ Þeir smella svo saman hnefum eins og lög gera ráð fyrir með góðum hnúara (e. fistbump). Maðurinn sem átti eld situr með þremur öðrum – og aðkomumanninum finnst rétt að rétta þeim hnefann líka. Þetta eru öllu vandræðalegri hnúanir, en svo kemur röðin að þeim fjórða við borðið, gömlum karli beint út úr Kaurismäki-mynd. Hann horfir á aðkomumanninn tómum augum og spyr með augnaráðinu: af hverju? Og svo, þögul stara – áður en þeir halda báðir sína leið.

IMG_20180908_222036201.jpgEn sumsé, ég var í Finnlandi í fyrsta skipti og líklega hefur enginn kvikmyndaleikstjóri í veröldinni skilyrt væntingar aðkomumanna til þjóðar sinnar eins og Aki Kaurismäki. Hvað sem manni kann að finnast um myndirnar hans þá eru þær um einhvers konar erki-Finna – og maður býst ósjálfrátt við nokkrum svona senum þegar maður kemur til Finnlands.

Öldurhús leika stórt hlutverk í myndum Kaurismäki – og því var eðlileg þróun að hann myndi opna bar í miðbæ Helsinki ásamt bróður sínum Mika, sem er sömuleiðis kvikmyndaleikstjóri en umtalsvert minna þekktur. Barinn er rétt hjá Orion-kvikmyndahúsinu, en Harri vinur minn krafðist að ég kíkti þangað í bíó á meðan ég gæti – kvikmyndasafnið væri nefnilega að fara að missa þetta gullfallega bíó og enginn vissi hvaða örlög biðu þess.

IMG_20180908_222754840Corona-barinn er huggulegur bar en Harri segir mér að stemmningin sé samt komin annað núna. Það eru kvikmyndaveggspjöld víða, í kjallaranum eru lítið notaðir bíósalir sem heita Andorra og Dubrovnik, en sérstaða barsins er þó kannski helst sú að vera næst fínasta billjardbúlla sem ég hef komið á (sú langfínasta er auðvitað Café Louvre í Prag). Bak við barsvæðið og öll sætin eru nefnilega tylft billjardborða – og skyndilega langar mig mikið að sjá Kaurismäki leikstýra góðri billjardmynd. Er ekki einhver finnskur Paul Newman þarna úti sem bíður eftir hlutverki í þeirri mynd?

Svo kemur auðvitað skeggjuð manneskja í blómakjól og nestiskörfu fulla af ljóðabókum og bíður mér eintak. Ein ljóðabókin reynist vera tvímála og eftir að hafa flett henni stuttlega get ég auðvitað ekki annað en keypt eintak, enda þurfum við tvímála ljóðskáldin að standa saman.

IMG_20180908_234304884

Kaurismäki-bræðrunum leiddist þó á endanum á Corona og stofnuðu nýjan bar til að flýja á skömmu síðar. Við hliðina á, óþarfi að flýja of langt. Þar finnur maður Kaffi Moskvu, sem að sögn snýst um að endurskapa andrúmsloft Sovéttímans – og þar fann ég í fyrsta skipti í ævinni bjór með handfangi (sjá mynd fyrir neðan). Það má deila um hversu vel Sovétendursköpunin gengur – barinn er lítill, rauðleitur og afskaplega hlýlegur – en hann er hins vegar frægur fyrir afskaplega ruddalega og afskipta barþjóna. En stúlkan sem vann á barnum í þetta skiptið var hins vegar ekki bara afskaplega almennileg heldur hreinlega kammó við okkur viðskiptavinina. Sem er augljóslega ekki í starfslýsingunni, ég reikna með að það sé búið að reka hana núna.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

IMG_20180908_230201160.jpg

IMG_20180908_222333624IMG_20180908_222047369IMG_20180908_222059520.jpgIMG_20180908_225518480.jpg