Ljósanet er tvímála finnsk ljóðabók eftir Luisa-Claudia Sovijärvi, hún heitir Nets of Light á ensku, en ég held við getum öll verið sammála um að finnski titillinn er fallegastur. Voloverkot. Þvílíkt orð!
En glöggir lesendur Menningarsmygls rennur sjálfsagt í grun að þetta sé framhaldsfærsla – og það er alveg rétt, við skulum rifja upp bókakaupin:
„Svo kemur auðvitað skeggjuð manneskja í blómakjól og nestiskörfu fulla af ljóðabókum og bíður mér eintak. Ein ljóðabókin reynist vera tvímála og eftir að hafa flett henni stuttlega get ég auðvitað ekki annað en keypt eintak, enda þurfum við tvímála ljóðskáldin að standa saman.“
Ljóðskáldið sem seldi mér bókina var Luisa-Claudia Sovijärvi og þetta er vissulega ójöfn bók og þýðingin allavega – en það er einhver skemmtilegur tónn á köflum og tvö af lengstu ljóðum bókarinnar bera af. Annað heitir „Utö,“ sem ég hélt fyrst að væri finnska eða sænska nafnið á Útey hinni norsku – en sýnist eftir smá gúgl að það séu eyjar sem heita þetta bæði nálægt Stokkhólmi og Helsinki og ljóðið virðist gerast bæði á eyju en þó mest í borg, norrænni borg, borg sem er stjörnuborg stóran hluta ársins, út af öllu þessu myrkri og stjörnunum sem sjást þá. Þetta er draumkennd rússíbanaferð um myrkviði norðlægrar borgar, líklega Helsinki, og margt skemmtilegt í því, en ég ætla samt að skoða betur sveppaljóðið „Psilocybin.“ Psilocybin er sumsé einhver ofskynjuarefni í sveppum – en ólíkt „Utö“ og mörgum öðrum ljóðum bókarinnar er ekkert sérstakt sýrutripp í gangi hérna.
Það sem greip mig fyrst var þessi fallegi óður til iðjuleysisins, þeirrar vanmetnu iðju:
að gera ekkert sérstakt
– gildi núllsins er óendanlegt!
En svo kemur þessi játning:
Ég hef alltaf verið örugg/ur
hlýja móðurlífsins umlykur mig ennþá
Ah, svo þetta er temmilega ofdekraður vestrænn yfirstéttarkrakki? hugsar maður þá, og fær þær grunsemdir fljótlega staðfestar:
Finnland, ég hef aldrei gefið þér neitt,
En þú hefur gefið mér allt
Ég hef verið atvinnulaus alla mína fullorðinstíð
frjáls til að láta mig berast með vindunum
Þetta er hressilega einlæg lýsing á eigin forréttindum – og um leið get ég ekki annað en verið passlega í nöp við ljóðmælandann, ég vil líka láta mig berast með vindunum og sleppa þessari andskotans vinnu alltaf hreint. En ég get það ekki. Kannski gæti ég það ef ég væri Finni og finnska velferðarkerfið væri jafn gjöfult og þessar línur bera með sér, eða, sem mér finnst líklegra – að vel stæðir og gjafmildir foreldrar komi líka inn í myndina.
En þessar línur fá mann samt til þess að minnast klemmu ófárra vestrænna vinstrimanna; við búum flest við slatta af forréttindum og það er skrítið að tala um óréttlæti heimsins frá þeim stalli. Jafnvel ef þú ert langt undir lágmarkslaunum og með sama og ekkert starfsöryggi í útlandafrílansi, eins og undirritaður, þá kemur alveg fyrir að maður finni fyrir eigin forréttindum, jafnvel bara gagnvart Tékkunum í sjoppunni fyrir neðan sem þræla flestar nætur, örugglega fyrir ennþá minni laun svo ég geti keypt mér matvöru hvenær sem mér hentar. Og svo framvegis; þetta fer allt eftir því hvaða samhengi við setjum sjálf okkur í. Gagnvart heiminum, heimalandinu, staðnum sem við erum á, og eins hvað við miðum við, tekjur, eignir eða lífsgæði, sveigjanleika eða hamingjuna. Það að skilja tungumálið í landinu sem maður býr í eða ekki, jafnvel njóta þess stundum að skilja það ekki og gleyma því að pólitíkusarnir hér eru stundum ennþá glataðri en heima.
En sumsé, þetta er flækjan. Við eigum öll skilið að berast með vindinum, Finnar, Íslendingar og Tékkar, Senegalar, Mongólar og Chile-búar – og þessi heimur býður alveg upp á það, ef við umbyltum kerfinu bara aðeins. En þangað til það gerist – og ef það nokkurn tímann gerist, þá er því miður langt þangað til, þangað til verður staðan sú að ég öfunda þennan finnskelskandi ljóðmælanda fyrir að berast áhyggjulaus með vindinum í sínu atvinnuleysi – (sem er miklu ljúfara en flest atvinnuleysi sem ég þekki, hvort sem það er finnska sósíalnum að þakka eða öryggisneti úr foreldrahúsum) á meðan næturvaktarkallarnir í sjoppunni öfunda þennan frílansandi Íslending fyrir að þurfa ekki að þræla jafn mikið og þeir og rónarnir öfunda kallana í sjoppunni fyrir að hafa vinnu og húsaskjól og íslensku rónarnir öfunda þá tékknesku fyrir að hafa að minnsta kosti hlýrri sumarnætur og svo framvegis allt til endimarka heimsins.
Þessi öfund er alveg réttmæt en staðan er samt engum okkar að kenna, beinlínis, ekki einu sinni þótt við höfum kosið flokka sem viðhalda þessu kerfi. Það er að segja, ég og ljóðmælandinn höfum enga afsökun fyrir því – en þeir sem þræla hvað mest og hafa gert það hvað lengst, þeir hafa sjaldnast tíma til að berjast fyrir rétti sínum, hvort sem það er með því að setja sig inní pólitík eða gera meira. Við höfum fæst nógu mikinn tíma til að berjast fyrir rétti okkar.
Þessi öfund er þarna – og hún eitrar og býr til skilningsleysi. Samanber:
Finnland ég elska þig, tungumálið og hvernig það sveigist til,
mosann á klettunum
jafn mikið og ég hata verkamennina þína og borgarastéttina
sadistamöppudýrin, stríðin og brottvísunarflugin,
dýrabóndana þína, stjórnmálamennina þína,
og tóm augu hinna venjulegu á barnum.
Stöldruðuð þið við sömu línur og ég? Verkamennina og hina venjulegu. Af því þeir hafa ekki okkar menntun, af því þeir kjósa hægriflokka þótt það sé vont fyrir þá, af því þeir eru móttækilegir fyrir hræðsluáróðri um vafasama innflytjendur, af því þeir þræla svo mikið að þeir hafa ekki tíma til að hugsa og fræðast. Og af því þeir hata okkur, ljóðskáldin, blaðamennina, furðufulgana, ekki af því þeir skilji okkur ekki – heldur af því þeir skilja að okkar heimur verður aldrei þeirra.
Sumir þeirra hafa það, efnahagslega, miklu betra en við. Aðrir ekki. Sumir hafa valið sér þetta, aðrir ekki. Suma eiga þessar lýsingar ágætlega við, aðra ekki. Og það eru verkamenn sem eiga eftir að verða ljóðskáld og ljóðskáld sem eiga eftir að verða verkamenn. Ég tók mitt skúringasumar á Mývatni síðasta sumar, þrælaði fyrir góð laun en ómennskt álag.
Svona vinna þeir, með því að deila og drottna. Rómverjarnir ráða öllu ennþá, þótt þeir heiti eitthvað annað nú til dags.
Og einhvers staðar þarna liggur klemman: tveir hópar, gjörólíkir – sem þrá samt það sama; heim sem er ekki eintómur þrældómur, þar sem við getum öll borist með vindinum – og þegar við komumst á flug kemur máski í ljós að við erum ekki jafn ólík og við héldum.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson