Kristín Svava Tómasdóttir er ljóðskáld og sagnfræðingur – og núna gerist hún líka smyglari. Hún sendi nýlega frá sér bókina Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar  en hefur áður skrifað ljóðabækurnar Blótgælur, Skrælingjasýningin og Stormviðvörun.

Hver leikstýrir ævisögunni, hver skrifar handritið og hver leikur aðalhlutverkið?

Handritið skrifar eitt af uppáhaldsljóðskáldunum mínum, Eva Rún Snorradóttir; þetta verður svört kómedía með angistarfullum undirtón. Benedikt Erlingsson leikstýrir og Eggert Þorleifsson fer með aðalhlutverkið.

Hvernig fer sagnfræðin og ljóðlistin saman?

Prýðilega, takk. Ég held að ljóðlistin fari vel með öllu.

Spurning frá síðusta smyglara(Lóu Hjálmtýsdóttur): Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?

Mér finnst almennt ekkert sérstaklega þægilegt að hugsa um Lífið.

Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?

Mér finnst sérlega gaman að fara í ljóðskáldaferðir til útlanda. Ég fór í mjög skemmtilega ferð til Finnlands fyrir nokkrum árum með skáldsystrum mínum Þórdísi Gísladóttur og Ingunni Snædal. Við flugum til Helsinki en dvöldum allan tímann í Jyväskylä í Mið-Finnlandi. Þetta var í lok nóvember og allt var mjög grátt og napurt og eins og út úr sósíalrealískri kvikmynd. Við gistum í stóru timburhúsi í eigu miðfinnska rithöfundasambandsins, þar sem var svolítil notaleg fúkkalykt og músagangur, en þegar við vorum ekki að lesa upp ljóð á kránni ókum við um sveitirnar í kring í agnarsmáum bíl. Svo skoðuðum við skíðastökkpallinn í Jyväskylä og gestgjafar okkar sögðu okkur sorglegar sögur af skíðastökkhetjunni Matti Nykänen, sem ku vera að drekka sig í hel einhvers staðar í nágrenninu.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?

Rokk í Reykjavík. Gott að fá þessa orku sem víðast.

Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?

Þær bækur eru mér ofar í huga sem ég les sjálf ekki á frummálinu – mig langar mikið að fá eitthvað eftir Söru Stridsberg á íslensku, helst bókina hennar um Valerie Solanas, Drömfakulteten. Svo finnst mér að einhver ætti að ráða Erlu E. Völudóttur vinkonu mína til að þýða heila bók eftir annað sænskt skáld, Aase Berg, sem kom á síðustu Bókmenntahátíð í Reykjavík. Erla þýddi nokkur ljóð eftir hana við það tækifæri, afskaplega vel, og mig langar í meira.

Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsi í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólum?

Ég myndi semja um að fá frekar að hafa vikulegar sýningar í heilan vetur. Svo myndi ég borga Hefnendunum háar fjárhæðir fyrir að endurvekja Hefnendakvöldin sem voru haldin á Húrra og veittu mér alltaf svo fölskvalausa gleði í skammdeginu.

Forvitnilegasta ljóðskáld 21. aldarinnar?

Þegar stórt er spurt. Í íslensku samhengi hlakka ég einna mest til að sjá í hvaða áttir Elías Knörr mun fara.

StundKlámsins

Hvaða kennari hafði áhrif?

Mjög margir. Ég var til að mynda með frábæra sögukennara í grunnskóla og menntaskóla sem hafði örugglega ekki lítil áhrif á að ég skyldi enda í sagnfræði.

Hvar er draumurinn?

Ég leita undir sérhverjum steini – legg við eyrun, læðist um.

Framtíðarsagnfræðingur skrifar um áratuginn sem er að líða – hvað ætti bókin að heita?

Samfélagsmiðlar og súrt regn. Myndi einnig virka sem unglingabók.

Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?

Nammiland í Skeifunni um miðnætti á föstudegi.

Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?

Það er svolítið skrítið að skilgreina fólk sem „óuppgötvað“, en verk ljóðskáldsins Soffíu Láru eiga vonandi eftir að fara víðar.

Hver er merkilegasta manneskja sem þú hefur dottið í það með?

Ég hef sjaldan dottið í það með ómerkilegu fólki – en mér fannst frekar magnað að drekka rauðvín með norska rithöfundinum Jostein Gaarder þegar ég hitti hann í listamannaresidensíu á síðasta ári. Það hefði mér þótt merkilegt að vita að ég myndi gera, þegar ég var tólf ára að lesa Veröld Soffíu aftur og aftur.

Munurinn á klámi og erótík?

Ég horfði á gamlan Dagsljósþátt á safnadeild Ríkisútvarpsins síðasta vetur þar sem rætt var um erótík og klám. Þar lýsti Kolbrún Bergþórsdóttir því svo að „í erótík væri allt í móðufilter, og í kláminu, þar eru svona nakin flúorljós“. Fólk hefur auðvitað ólíkar skoðanir á þessari aðgreiningu en mér fannst þetta skemmtileg lýsing hjá Kolbrúnu.

Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?

Ég splæsti á mig dvöl á einhverju fansí hóteli úti á landi og lá þar í sólbaði að lesa með tærnar upp í loft í heila viku.

Kvikmynd sem þig langar að skrifa ljóð um?

Ágirnd frá 1952, sem kemur stuttlega fyrir í Stund klámsins og er fyrsta íslenska kvikmyndin sem var leikstýrt af konu, Svölu Hannesdóttur. Þetta er stutt, svarthvít, þögul mynd, svakalega frumstæð, sem fjallar um alls konar æsilega siðspillingu, morð, rán og fjárhættuspil.

Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?

Bestu plötu í heimi, tónleikaplötuna sem Vinicius de Moraes, Toquinho og Maria Creuza tóku upp í Buenos Aires árið 1970. Það er fáránlegt að það sé hægt að koma fyrir svona mikilli fegurð á einni plötu.

Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?

RuPaul‘s Drag Race, tíunda sería. Í annað sinn auðvitað.

KSTLjóð

Eftirminnilegasti ljóðaupplestur sem þú hefur tekið þátt í?

Tvímælalaust á listahátíð í Vogunum fyrir mörgum árum, sem þar sem ritstjóri Menningarsmyglsins var einnig meðal upplesara. Við lásum í skólanum og leikskólanum, á bensínstöðinni og í íþróttahúsinu. Fullorðnir áheyrendur voru fáir en börnin þeim mun fleiri og náðu greinilega ekki miklu sambandi við kveðskapinn. Upp úr þessu samdi ég ljóð sem er sérstaklega ætlað til lesturs á leikskólum og gengur aðallega út á kúk og piss, til að vera viðbúin ef þetta endurtæki sig. Það er fátt jafn skemmtilegt og að lesa ljóð um kúk og piss fyrir börn, það get ég vottað. Nú er búið að þýða það á ensku og um daginn frétti ég af hressum krökkum í Sacramento sem voru að lesa það hvert fyrir annað.

Eftirminnilegasta klámmyndin?

ILovensTegnLíklega danska kvikmyndin Í ljónsmerkinu, I løvens tegn. Það var sá fyrsti sem ég sá af dönsku kynlífsförsunum – af þeim eru þekktastar Rúmstokksmyndirnar og Stjörnumerkjamyndirnar, sem þessi tilheyrir. Þar er blandað saman farsakenndu gríni og kynlífsatriðum, sem sýndu æ meira eftir því sem á leið seríurnar. Í ljónsmerkinu fjallar um tvær eldri konur sem byrja að skrifa bersöglar bókmenntir en vilja ekki gefa út undir eigin nafni svo þær nota nafn ungs frænda annarrar þeirra sem dulnefni, að honum forspurðum, sem dregur auðvitað mikinn dilk á eftir sér.

Uppáhaldsorðið þitt?

Djammviskubit.

Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?

Í strætó.

Hefurðu áhyggjur af að bókin verði kærð fyrir klám?

Nei, mér finnst það frekar ólíklegt.

Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?

Hver er munurinn á klámi og erótík?

Hvaða sagnfræðiriti myndirðu vilja smygla inná öll heimili?

Íslenska þjóðríkið. Uppruni og endimörk eftir Guðmund Hálfdanarson.