Árið er 1948 og við erum stödd í Vín eftirstríðsáranna. Bókin heitir Valdaránið í Prag, The Prague Coup, en titillinn er villandi að því leyti að við komumst ekki til Prag fyrr en í blálokin.

Vín er ennþá í sárum eftir stríðið, skipt upp á milli bandamanna. Þar býr Elizabeth Montagu, sem er sögumaður okkar um borgina, og hún tekur þar á móti rithöfundinum Graham Greene. Hún hefur fengið það verkefni að fylgja honum um borgina á meðan hann sinnir undirbúningsvinnu fyrir væntanlegt kvikmyndahandrit. Handritinu að sjálfum Þriðja manninum, The Third Man, algjöru lykilverki breskrar kvikmyndasögu þar sem Orson Welles í hlutverki Harry Lime fer með eina eftirminnilegustu ræðu kvikmyndasögunnar.

Þetta er rökkurmynd í myndasöguformi, teiknuð í lit, vissulega, en þetta eru gráir og brúnir tónar í snævi þöktu vetrarlandslagi.

Vín eftirstríðsáranna er fátæk borg sem hefur þó ekki tapað öllum sínum Habsborgara-glæsileika. Hann er bara neðanjarðar þessa dagana, rétt eins og önnur fræg sena úr Þriðja manninum, eltingarleikurinn um ranghalana í holræsum borgarinnar. Sú sena speglast í bókinni, sem speglar myndina að mörgu leyti, en segir þó allt aðra sögu. Greene er vissulega á höttunum eftir söguefni en Elísabetu virðist hann einnig á höttunum eftir einhverju öðru. Auk ritstarfa starfaði Greene fyrir leyniþjónustuna MI6 og tilgáta höfunda bókarinnar, þeirra Jean-Luc Fromental og Miles Hyman, er sú að hann hafi enn verið að sinna njósnastörfum samhliða því að vinna að handriti Þriðja mannsins.

En nóg um Graham Greene. Hvar blandast Orson Welles inn í söguna? Hvergi beint, en sagan hefur einnig afskaplega forvitnilegar hugmyndir um á hverjum Greene byggir Harry Lime, persónuna sem Welles túlkaði svo eftirminnilega. Kim Philby var maðurinn sem réð Greene til njósnastarfa, þeir urðu nánir vinir og Greene leit mikið upp til Philbys. Svo mjög raunar að hann fyrirgefur honum að starfa sem gagnnjósnari fyrir Sovétmenn, nokkuð sem mögulega frestaði stríðslokum um heilt ár. Holly Martins, hetjan í Þriðja manninum, ákveður á endanum að takast á við sinn gamla vin, Harry Lime. Greene var hins vegar trúr Philby alla tíð og skrifaði meira að segja formála fyrir ævisögu hans, þar sem hann afsakar hann með útúrsnúningi á þjóðernishyggju.

„„Hann sveik þjóð sína.“ Já, en hver okkar hefur ekki svikið eitthvað eða einhvern mikilvægari en þjóð?“ skrifaði Greene í formálanum.

Loks endar bókin svo í Prag, stuttu fyrir valdarán kommúnista, eða eins og ein persóna bókarinnar orðar það: „Síðasta rifan á járntjaldinu er að lokast.“

Kalda stríðið var að komast undir frostmark.

Hundgá í himingeimnum

Hitinn er hins vegar langt undir frostmarki þar sem við hittum eina aðalpersónu næstu sögu. Sergei Pavlovich Korelov þrammar yfir túndrur Síberíu og tautar með sjálfum sér: „Örlögin hafa valið mig, ég mun ekki deyja. Örlögin hafa valið mig, ég mun ekki deyja.“

Korelov er nýsloppinn úr sjálfu gúlaginu og þessi mantra hefur haldið í honum lífinu allan þennan tíma. Glampandi tunglið vísar honum leið og hundgá í fjarska hjálpar líka til, þannig að á endanum finnur hann skjól.

Þetta forspil er upprunasaga Korelovs, sem átján árum seinna er hvorki meira né minna en yfirmaður sovésku geimferðaáætlunarinnar. Hann fagnar því að hafa sent fyrsta gervihnöttinn á braut um jörðu og sjálfur Nikita Krústsjoff, aðalritari kommúnistaflokksins, fagnar með honum. En Krústsjoff vill meira. Hann vill mannaða ferð næst, helst strax eftir mánuð, á fertugsafmæli Októberbyltingarinnar. Korelov útskýrir fyrir aðalritaranum að slíkt sé ómögulegt á þessari stundu og niðurstaðan er málamiðlun, þeir byrja á því að senda hund.

Þar kemur að þætti titilpersónu sögunnar, hennar Laiku. Laika hét þó Kudryavka áður en hún var nefnd geltið, en Laika þýðir gelt á rússnesku. Hún er flækingshundur sem fann heimili á rannsóknarmiðstöð og vinnur fljótt hjarta hundatemjarans Yelenu.

Þetta er barnasaga sem hentar ágætlega fullorðnum líka, litirnir eru hlýlegir oftast og þótt gráir tónar leynist inn á milli þá er blámi himingeimsins ráðandi. Við vitum samt alltaf hver örlög Laiku verða og hægt og rólega munu allar aðalpersónurnar þurfa að sættast við þau líka, henni er ætlað að verða fyrsti geimfari jarðsögunnar og henni er ætluð svífandi gröf.

Sagan er ágætis táknsaga um það hvernig háleitir draumar og metnaður hafa iðulega sorglegan endi og hvernig menn og hundar voru ætíð ofurseldir misvitrum yfirvöldum. Sovétríkin sem birtast okkur hér eru þó litrík og mun manneskjulegri en þau birtast stundum í vestrænum skáldskap. Þetta var ekki eintómt volæði fyrir austan þótt stundum þyrftu hundar að deyja fyrir drauma mannkynsins.

Verktaki í kommúnistaríkjum nútímans

En þótt járntjaldið hafi fallið fyrir 30 árum í Evrópu lifir gamli kommúnisminn enn í tveimur gjörólíkum útgáfum, í Norður-Kóreu og Kína. Fransk-kanadíski teiknarinn Guy Delisle var snemma á ferlinum sendur á báða staði, til Shenzhen og Pyongyang, til þess að stjórna undirverktökum í teiknimyndabransanum.

Kaldhæðnin er sú að þarna birtist kapítalismi hnattvæðingarinnar í kommúnistaríkjum sem þurfa gjaldeyri. Vestrænir teiknarar eru búnir að teikna grunninn, aðalrammana, en undirverktakar í Kína og Norður-Kóreu sjá um að fylla í eyðurnar. Franskur teiknari teiknar mann sitjandi og nýstaðinn upp, undirverktakinn í Norður-Kóreu teiknar hreyfinguna þar á milli.

Starfið er ekki sérstaklega skapandi, raunar dæmigert starf sem skapandi fólk lendir í, þar sem sköpuninni hefur verið snúið á haus og gerð eins vélræn og kostur er. En Delisle nýtir tækifærið og vinnur samhliða tvær myndasögur, sem bera nafn borganna tveggja, Shenzhen og Pyongyang. Seinna meir, þegar hann var orðinn virtur myndasöguhöfundur, átti hann svo eftir að fylgja kærustunni til staða eins og Jerúsalem og Búrma, þar sem hún vann fyrir lækna án landamæra, á meðan Guy sá um börnin og teiknaði þegar tími gafst.

Delisle er góður í að teikna landslag og byggingar en síðri karakterteiknari. Hann sjálfur er auðþekkjanlegur stórnefur. Miðað við ljósmyndir ýkir hann stórt nefið rækilega, þannig að það verður hálfgert auðkenni. Í Pyongyang er hann í raun að safna saman brauðmolum, því eins og flestir vita eru vestrænir gestir sífellt vaktaðir af túlkum og fararstjórum. Þar sem hann býr þarna og vinnur þá nær hann þó að sjá öllu meira en venjulegur ferðamaður en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tekst honum sjaldnast að fá neitt annað en flokkshollustu upp úr gestgjöfum sínum. Þegar einn þeirra lýsir því yfir að honum leiðist kóreskar bíómyndir, mögulega út af öllum áróðrinum, þá er það mesta frelsisyfirlýsing sem hann verður vitni að.

Delisle lendir í Pyongyang og er þar færður blómvöndur sem í ljós kemur að honum ber að leggja við risastóra styttu af Kim il-Sung, sjálfum föður þjóðarinnar, hinum mikla leiðtoga. Þegar á líður birtist okkur heimur útlendinga í þessu lokaðasta ríki heims, heimur sem samanstendur í raun fyrst og fremst af þremur hótelum og einstaka skoðunarferðum þar sem einstöku sinnum glittir í raunveruleikann á bak við glansmyndina. Ægifagrar lestarstöðvar virðast aðeins vera til sýnis, þarna er allt til sýnis og maður áttar sig illa á hver raunveruleiki Norður-Kóreubúa er.

Er hann áróðurinn sem þeir virðast allir trúa og ef svo er, eru þeir yfirhöfuð líklegir til þess að kasta af sér okinu? Maður fær óþægilega á tilfinninguna að þeir séu hreinlega margir of heilaþvegnir fyrir frelsi en vonar að það sé aðeins mynd sem þeir neyðast til að sýna Vesturlandabúum. Auk þess sem það er nokkuð ljóst að mögulegir byltingarsinnar eru rækilega faldir fyrir ferðamönnum, aðeins hinir flokkshollustu fá að umgangast þá.

Í Shenzhen er hann jafnvel enn meira einmana en þar er aðallega tungumálaerfiðleikum um að kenna. Shenzhen reynist einfaldlega alls ekki alþjóðleg borg, eins og nágrannaborgir á borð við Hong Kong eru, hér tala fæstir nein Evrópumál og því er þetta eiginlega fyrst og fremst bók um hina útlensku einsemd. En um leið sjáum við ákveðin merki lands sem er að ferðast hratt frá kommúnisma inn í kapítalíska framtíð að kínverskum hætti, vaxtarverkirnir eru vissulega töluverðir og jafnvel sársaukafullir og það er erfitt að ímynda sér hvernig umskiptin verða í Norður-Kóreu þegar þar að kemur en ef það er eitthvað sem sagan kennir okkur þá er það að sú bylting gæti komið öllum á óvart.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni á Rás 1 þann 1. október 2019.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson